Hjörleifur Guttormsson 6. september 2011

Leiðsögn um Vatnajökulsþjóðgarð
Ávarp í útgáfuhófi í Þjóðmenningarhúsi

Umhverfisráðherra, stjórn Vina Vatnajökuls, ágæta samkoma.

Vatnajökulsþjóðgarður varð til upp úr hálendisumræðunni miklu á 10. áratugnum, sem sum ykkar muna kannski eftir, og á sama tíma voru mótaðar tillögur um skipulag miðhálendisins, sem skipt var upp milli sveitarfélaga allt að vatnaskilum, að jöklum landsins meðtöldum. Margar hugmyndir komu fram á þessum árum um verndun og friðlýsingar þessa stóra svæðis.

Úr sjóði minninganna

Allt á sín upptök og ég vona að þið fyrirgefið mér að ég við þetta tækifæri dreg fram fáein atriði úr sjóði minninganna. Mitt í heitri umræðu á Alþingi og úti í samfélaginu sýndist vera lag til að sameina stríðandi fylkingar um jöklana okkar stóru sem kjarna í þjóðgörðum sem síðan mætti auka við með landsvæðum umhverfis. Hvað Vatnajökul áhrærði voru þegar til staðar stór friðlýst svæði í umgjörð hans: Skaftafell sem þjóðgarður, Lakagígar sem náttúruvætti, friðlandið stóra á Lónsöræfum og Kringilsárrani sem griðland hreindýra.
 
Tímabundnar aðstæður á þjóðþinginu skiptu hér máli. Kjörtímabili var að ljúka og framundan alþingkosningar vorið 1999. Ég hafði ákveðið að láta kveðið nóg á þeim vettvangi, búinn að vera þar óþægur ljár í þúfu býsna lengi. Í umhverfisnefnd lágu óafgreidd mörg mál sem ég var flutningsmaður að, þar á meðal um fjóra þjóðgarða á miðhálendinu. Jákvæðar umsagnir höfðu borist úr mörgum áttum um þessa hugmynd. Meirihlutinn að baki ríkisstjórn þurfti að koma stjórnarfrumvörpum í höfn fyrir þinglok, þar á meðal frumvarpi að nýjum náttúruverndarlögum. Hér var því lag til að leita samninga. Þáverandi formaður í umhverfisnefnd var Ólafur Örn Haraldsson, nú þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, og umhverfisráðherra var Guðmundur Bjarnason. Við þá báða átti ég samtöl og gerði einnig Davíð Oddssyni forsætisráðherra grein fyrir stöðu mála. Ég bauðst til að láta tillöguna um Vatnajökulsþjóðgarð einan nægja, en þjóðgarðar tengdir Hofsjökli, Langjökli og Mýrdals- og Eyjabakkajökli myndu bíða betri tíma.

Að þessari breytingu gerðri sættust allir á jákvæða afgreiðslu tillögunnar um Vatnajökulsþjóðgarð og fékk hún einróma samþykki á síðasta þingdegi kjörtímabilsins. Níu ár tók síðan að koma málinu í höfn með lagasetningu vorið 2008. Á þeim tíma komu fjórir umhverfisráðherrar að undirbúningi að stofnun þjóðgarðsins (Siv Friðleifsdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Jónína Bjartmars og Þórunn Sveinbjarnardóttir) og ýmsir þingmenn að auki ásamt mörgum sveitarstjórnarmönnum. Allir hlutaðeigandi lögðu sig fram um að koma málinu áfram. Félög áhugafólks um náttúruvernd ýttu fast á eftir, þeirra á meðal Landvernd, og menn utan úr heimi lögðu inn góð orð. Ástæða er til að nefna sérstaklega úr þeim hópi breska land- og jöklafræðinginn Jack D. Ives sem ungur tengdist Skaftafelli sterkum böndum.

Einstök náttúrufarsleg fjölbreytni

Eftir formlega stofnun hafa þjóðgarðinum síðustu tvö árin bæst verðmæt svæði, m.a. tengd Ódáðahrauni og Langasjó og bændur sunnan jökuls hafa lagt hluta af jörðum sínum til þjóðgarðsins. Þessari jákvæðu þróun í tíð tveggja síðustu umhverfisráðherra (Kolbrúnar Halldórsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur) er langt frá því að vera lokið og við eigum væntanlega eftir að sjá mun stærri Vatnajökulsþjóðgarð innan tíðar.

Þessi þjóðgarður býr nú þegar yfir gífurlegri fjölbreytni og ótrúlegum andstæðum í náttúrufari. Innan hans er að finna mestu eldvirkni hérlendis og þótt víðar sé leitað, hann getur státað af flestum gerðum virkra eldfjalla, en þar eru líka jarðlög sem orðin eru til fyrir ísöld svo og leifar fornra eldstöðva.
Sunnan jökulsins er mesta úrkoma á láglendi hérlendis en norðan hans mestu þurrkasvæðin. Í skjóli skriðjökla Vatnajökuls eru sum gróðursælustu svæði landsins, en  norður af eru auðnir sem hefur verið líkt við aðstæður á Tunglinu. Þar eru líka Jökulsárgljúfur sem lýst voru þjóðgarður þegar á árinu 1973, mynduð af hamfarahlaupum, með sinni glæstu fossasyrpu, svo og Ásbyrgi.
Ég býst ekki við að neinn sem kynnir sér náttúrufar þessa stóra svæðis dragi í efa að Vatnajökulsþjóðgarður verðskuldi að komast á heimsminjaskrá.

Handbók samin í ólgusjó

Þá er að líta aðeins á tilefni þess að við erum hér saman komin.
Frumkvæðið að handbók um þjóðgarðinn kom frá Vinum Vatnajökuls, borið fram af Kristbjörgu Hjaltadóttur framkvæmdastjóra þessa hollvinafélags. Við Kristbjörg þekktumst ekki þegar hún veiddi mig í net sín fyrir hálfu öðru ári, en samstarfið við hana eins og aðra aðstandendur útgáfunnar hefur gengið vel. Fleiri hindranir en við áttuðum okkur á í upphafi reyndust þó á vegi okkar og þær má m.a. flokka undir eftirtaldar ytri aðstæður:
Skipulag þjóðgarðsins var enn að mestu ómótað við stofnun hans og verndaráætlun í vinnslu á vegum stjórnar garðsins; lauk því verki ekki fyrr en í febrúar síðastliðnum. Mörk þjóðgarðsins voru í óvissu á þýðingarmiklum svæðum og þau mál skýrðust ekki fyrr komið var fram á vor 2011. Samgöngukerfi innan þjóðgarðsins hefur verið til umræðu og flokkun vega og slóða innan garðsins birtist okkur aðstandendum þessa rits fyrst nú á miðju sumri. Eflaust ber bókin merki þessarar deiglu á ritunartíma. Hafa má í huga að endurskoða þarf rit sem þetta á fárra ára fresti, m.a. vegna breytts þjónustuframboðs og stækkunar þjóðgarðsins.

Fjölmargar hjálparhellur

Handbók af þessum toga er ekki eins manns verk. Ég hef notið þess að eiga marga hauka í horni, karla og konur sem brugðist hafa við ótal beiðnum um upplýsingar, yfirlestur og aðgang að myndum og uppdráttum í ritið. Aðeins sumra þessara hjálparhella er getið í heimildaskrá og eftirmála, en öll eiga óskiptar þakkir skildar. Í þessum hópi eru þeir sem unnu að verndaráætlunum fyrir þjóðgarðssvæðin fjögur (Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir á Norðursvæði, Guðrún Á Jónsdóttir á Austursvæði; Þorvarður Árnason og Ingibjörg Eiríksdóttir sunnan og vestan jökuls). Upplýsingar veittu einnig þjóðgarðsverðir og aðrir starfsmenn þjóðgarðsins, svo og opinberar stofnanir. Af sérfróðum aðilum lögðu mér lið jarðfræðingarnir Haukur Jóhannesson og Kristján Sæmundsson, grasafræðingarnir Hörður Kristinsson og Sigurður H. Magnússon, dýrafræðingarnir Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Skarphéðinn G. Þórisson, að ógleymdum jarðeðlis- og jöklafræðingum, þeim Magnúsi Tuma Guðmundssyni, Helga Björnssyni og Oddi Sigurðssyni.
 
Hátt á 2. hundrað ljósmyndir eru í ritinu eftir 29 höfunda og eru þær auðkenndar með fangamarki. Mynd á framsíðu kápu er fengin frá Ragnari Th. Sigurðssyni sem á fleiri myndir inni í ritinu. Af öðrum sem lögðu til 5 myndir eða fleiri nefni ég Daníel Bergmann, Kára Kristjánsson, Odd Sigurðsson og Skarphéðinn G. Þórisson. Einnig er hér að finna fjórar myndir eftir Rafn heitinn Hafnfjörð sem féll frá á meðan bókin var í undirbúningi. Sjálfur hef ég dregið fram myndir úr eigin safni, sumar orðnar sögulegar heimildir, m.a. um rýrnun jökla.

Útgáfa á þremur tungumálum

Vinir Vatnajökuls ákváðu þegar í upphafi að koma ritinu út á ensku og þýsku og réðu til þess valinkunna þýðendur, þau Coletta Bürling vegna þýðingar á þýsku og Jeffrey Cosser vegna ensku útgáfunnar. Sem höfundur átti ég við þau margháttuð samskipti þar sem reyndi á þolrif þeirra og lipurð við ófáar leiðréttingar og breytingar á texta. Meðal þess sem þau glímdu við voru ljóðaþýðingar á bókmenntatilvitnunum í síðasta kafla ritsins og Jeffrey bætti að eigin frumkvæði við örnefnaskýringum. Mikils er um vert fyrir þjóðgarðinn að ritið skuli nú liggja fyrir á tveimur erlendum tungumálum og væntanlega eiga þýðingar á fleiri tungumál eftir að bætast við er tímar líða.

Traustir bakhjarlar

Þeir sem mest lögðu til útgáfunnar auk þýðenda og Kristbjargar framkvæmdastjóra voru þeir Guðmundur Ó. Ingvarsson landfræðingur, sem frumteiknaði öll staðfræðikort og fór höndum um flestar skýringarmyndir, og Helgi Magnússon margreyndur bókaútgefandi sem gekk frá nafna- og heimildaskrám, las yfir alla texta og annaðist samskipti við þá ágætu prentsmiðju Odda. Þar tók við efninu í umbrot Halldór Þorsteinsson sem átti mestan þátt í að koma ritinu spjaldanna á milli í þann búning sem hér liggur fyrir, að kápum meðtöldum. Rétt er að vekja athygli á að sérstakt umbrot þurfti fyrir hvert tungumál og raunar er um þrjár útgáfur að ræða, texti að vísu svipaður í meginmáli, en myndskipan önnur sem og skrár og vísan til heimilda.

Síðast en ekki síst eiga Vinir Vatnajökuls, stjórn og framkvæmdastjóri, þakkir skildar fyrir frumkvæði að þessu verki, fremst í flokki Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands sem ritar formála en arftaki hennar Sigurður Helgason tekur hér sem stjórnarformaður við afurðinni. Það skiptir þjóðgarðinn miklu að eiga slíkan bakhjarl sem hollvinasamtökin eru til að styðja við rannsóknir og fræðslu um þá gersemi sem þjóðin hefur eignast með Vatnajökulsþjóðgarði. Samtökin tjalda ekki til einnar nætur, en eftir efnahagshrun tökum við enn betur en ella eftir stuðningi þeirra.

Fjölmargir í fótspor Fjalla-Eyvindar

Ráðstöfun á 14. þúsund ferkílómetra af Íslandi undir Vatnajökulsþjóðgarð er stór ákvörðun sem margir eiga hlutdeild í. Allt frá landnámi hefur fólk átt heima ekki fjarri núverandi þjóðgarði, nábýlið þó mest sunnan jökuls. Fyrsti nafntogaði búandinn á norðursvæði þjóðgarðsins má teljast Fjalla-Eyvindur sem hafðist við einsamall vetrarlangt í Herðubreiðarlindum og að líkindum árum saman ásamt Höllu sinni í Hvannalindum. Hann vissi upp á hár hvar í jökli Grímsvötn væri að finna. Síðan eru liðin hátt í 250 ár. Stuttu fyrir aldamótin 1800 tóku byggðamenn að feta sig inn á öræfaslóðir norðan jökuls og í kjölfarið komu forvitnir útlendingar sem fer nú óðum fjölgandi.  

Sjálfur á ég mörg sporin á þessu svæði, stundum einn á ferð en oftast í fylgd með fámennum hópi kunningja. Ég hlýt að nefna sérstaklega hjónin Kristján Má Sigurjónsson og Kristínu Einarsdóttur, fv. alþingismann, en við notuðum hluta úr hverju sumri í meira en áratug til að að kanna Vatnajökul og nánasta umhverfi hans – og sluppum slysalaust, í eitt skipti þó með skrekkinn.

Ábyrgð okkar sem tökum við þessu stóra svæði sem þjóðgarði er mikil, skyldan að vernda náttúru þess óspillta og skila henni áfram til komandi kynslóða.

Auður öræfanna

Í bókinni er undir lok leiðsagnar vitað í sögur og ljóð sem tengjast Vatnajökulsþjóðgarði og næsta nágrenni hans, sem og í ummæli landkönnuða. Mætti ég ljúka máli mínu með því að hafa yfir orð Ólafs Jónssonar frá Freyshólum sem um áratugi ferðaðist um Ódáðahraun og ritaði um það þriggja binda verk. Ólafur segir í formála sínum að verkinu Ódáðahrauni, sem út kom 1945:

„Eg veit, að gagnslaust er að reyna að lýsa sálrænum áhrifum öræfanna, þau verða aðeins fundin af þeim, sem öræfin gistir og opnar sál sína fyrir þeim öflum, sem þar ráða ríkjum, en þeir sem leita sálu sinni hvíldar og fullnægingar í auðninni, munu finna, að hún breytir skoðun þeirra og mati á verðmætum lífsins, opnar augu þeirra fyrir fánýti margs þess, sem keppt er eftir og dansað kringum og vekur þeim skilning á dýrmæti hins einfalda lífs. Því miður eru þeir ennþá allt of fáir, sem kunna skil þessara verðmæta – þekkja auð öræfanna. Það væri vel, ef þessi bók mætti vísa einhverjum leið til þeirra auðæfa.‟  

Orð þessa gengna samsveitunga geri ég að mínum og þakka ykkur áheyrnina.

Frá útgáfuhófi 5. september
Frá útgáfuhófi 5. september 2011



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim