Hjörleifur Guttormsson 9. júní 2011

Ágæt ráðstefna NAUST á Djúpavogi 4. júní

Á fjörutíu ára ferli NAUST – Náttúruverndarsamtaka Austurlands – hafa skipst á skin og skúrir eins og verða vill hjá áhugamannafélögum. Þó talar það sínu máli um úthald og seiglu að félagið skuli hafa haldið velli allan þennan tíma og lengst af haldið uppi reglubundnu starfi. Blómaskeið áhugafélaga um náttúruvernd í landshlutunum var á áratugnum 1970–1980 þótt síðar hafi náðst upp góðir sprettir. Á áttunda áratugnum mynduðu sex slík félög með sér sérstakt samband (SÍN) sem stóð fyrir fræðslu og sýningum um náttúruvernd, m.a. í Norræna húsinu.  Á þessum árum átti Náttúruverndarráð jafnframt sitt blómaskeið og studdist mikið við starf áhugamanna víða um land. Síðar létu félögin einnig að sér kveða, m.a. þegar stóriðjusóknin stóð sem hæst um og upp úr síðustu aldamótum. Fjölmargir félagsmenn hafa lagt fram mikið og óeigingjarnt starf í þágu hugsjónanna um náttúruvernd og sjálfbæra þróun.

Þróttmikil og fjölbreytt ráðstefna

Stjórn NAUST undir forystu Ástu Þorleifsdóttur formanns, Rósu B. Halldórsdóttur varaformanns og Hjalta Stefánssonar ákvað að reisa við merki félagsins af tilefni fjörutíu ára afmælis samtakanna. Ráðstefnan á Djúpavogi bar yfirskriftina Náttúruvernd og skipulag og þar voru flutt ekki færri en 14 erindi sem skiptust á þrjá meginþætti: Náttúruvernd og daglegt líf, Arðsemi náttúruverndar og Náttúruvernd á Austurlandi. Fyrirlesarar komu víða að, bæði úr fjórðungnum og utan hans. Eftirfarandi yfirlit um fyrirlesara og heiti erindanna endurspeglar þá fjölbreytni sem einkenndi fundinn, en Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sat hann allan og mælti í upphafi hvatningarorð og sagði frá endurskoðun laga um náttúruvernd. Á eftir henni fluttu erindi:

  • Ásta Þorleifsdóttir Egilsstöðum um þátttöku náttúruverndarsamtaka í skipulagsferlum;
  • Kristín Þorleifsdóttir Reykjavík um vistvænt skipulag;
  • Eygló Björk Ólafsdóttir Vallanesi um tækifæri í sjálfbærni;
  • Anna Egilsdóttir Hólabrekku um lífræna ræktun, búskap og meðferðarstöð;
  • Ólafur Dýrmundsson Reykjavík um landbúnað í sátt við náttúruna;
  • Andrés Skúlason Djúpavogi um náttúruvænt aðalskipulag;
  • Þór Vigfússon Djúpavogi um náttúruvernd og list;
  • Ásta Richardsdóttir Reykjavík um galdur lista og náttúru;
  • Agnes Brá Birgisdóttir Eyvindará um samgöngur í Vatnajökulsþjóðgarði;
  • Rósa Björk Halldórsdóttir Akranesi um mikilvægi og ábyrgð ferðaþjónustu;
  • Kristbjörg Hjaltadóttir Mosfellsbæ um Vatnajökulsþjóðgarð og hollvini hans;
  • Hjörleifur Guttormsson Reykjavík um náttúruvernd á Austurlandi fyrr og nú;
  • Skarphéðinn G. Þórisson um verndun búsvæða og villtra dýrastofna.

Kynnt voru drög að nokkrum ályktunum um skipulagsmál sem þátttakendur munu taka afstöðu til síðar.

Hálfdán á Kvískerjum heiðraður

Hálfdán Björnsson Kvískerjum

Á ráðstefnunni var Hálfdáni Björnssyni á Kvískerjum veitt sérstök heiðursviðurkenning NAUST fyrir störf hans að náttúrufræðum og náttúruvernd. Hálfdán hefur lagt fram ómetanlegan skerf til að auka þekkingu á fugla- og skordýralífi í Austur-Skaftafellssýslu auk ýmissa annarra fræðistarfa. Viðurkenningin hefur fengið heitið Bláklukkan, en sú fallega planta er hérlendis að mestu bundin við Austurland.
            Í ráðstefnulok var farið í skoðunarferð um nágrenni Djúpavogs undir leiðsögn Andrésar Skúlasonar oddvita, Gauta Jóhannessonar sveitarstjóra og Bryndísar Reynisdóttur varaoddvita. Ráðstefnan óskaði íbúum Djúpavogs til hamingju með nýtt aðalskipulag til ársins 2020 þar sem ríkulegt tillit er tekið til náttúru- og þjóðminjaverndar.
            Stjórn NAUST hefur komið upp vefsíðunni www.nattaust.is og netfang stjórnar samtakanna er nattaust@gmail.com



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim