Hjörleifur Guttormsson 11. apríl 2011

Er forysta VG heillum horfin?

Sitthvað ber við þessa dagana sem hlýtur að koma félögum og stuðningsfólki VG á óvart.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþingismaður kom um nýliðna helgi  til starfa á Alþingi á ný eftir hálft ár í fæðingarorlofi. Viðtökurnar sem hún fékk hjá meirihluta þingflokks VG á fyrsta degi er að ekki sé lengur óskað eftir kröftum hennar til að stýra starfi þingflokksins. Hún fór í orlof sem formaður þingflokks VG og ekki er annað vitað en hún hafi leyst það verkefni með prýði.

Staða VG á Alþingi hefur nýlega veikst til muna við það að tveir af þingmönnum flokksins hafa sagt skilið við hann. Ég hefði haldið að nú væri þörf á að berja í brestina og leitast við að þétta raðirnar. Skilaboðin sem felast í vantraustinu á Guðfríði Lilju ganga í þveröfunga átt. Hvað er forysta flokks að hugsa sem þannig hagar verkum sínum?

Eðlilegur gangur máls hefði verið að endurnýja umboð Guðfríðar Lilju um leið og hún væri boðin velkomin til starfa á ný. Framundan er hálft ár í starfstíma þess Alþingis sem nú situr og þingflokkar að störfum árið um kring. Sá fyrirsláttur, að skammur tími sé eftir af þingi og því sé eðlilegt að sá sem hljóp í skarðið sitji áfram til hausts, er ótrúverðugur.

Með afgreiðslu áttmenninganna í þingflokki VG í gær er verið að lýsa vantrausti á einn öflugasta þingmann flokksins, sem áunnið hefur sér traust og virðingu fyrir einarða og málefnalega framgöngu. Sem óbreyttur félagi í VG leyfi ég mér að lýsa vanþókknun á ómálefnalegri atlögu af þessum toga. Er til of mikils mælst að formaður og varaformaður flokks okkar geri opinberlega grein fyrir hvað býr að baki slíku glapræði?



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim