Hjörleifur Guttormsson 11. ágúst 2011

Alþingi stöðvi gönuhlaupið til Brussel

Fyrir tveimur árum fól naumur meirihluti alþingismanna ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa skoðanakannanir margítrekað leitt í ljós að drjúgur meirihluti Íslendinga sem afstöðu taka er andvígur aðild. Í lok júní 2011, um það leyti sem aðildarviðræður við ESB voru að hefjast, kom í ljós í skoðanakönnun Capacent Gallup að hreinn meirihluti aðspurðra (51%) sagðist hlynntur því að umsóknin yrði dregin til baka. Síðan hefur syrt í álinn hjá Evrópusambandinu þannig að forsendur þeirra sem stutt hafa aðild Íslands að ESB vegna Evru-myntsamstarfsins eru roknar út í veður og vind og þeim óákveðnu sem vildu sjá hvað í boði væri fer að líkindum fækkandi.

Umsókn á fölskum forsendum

Aðildarumsóknin 2009 var frá upphafi byggð á fölskum forsendum þar eð Evrópusambandið var kynnt sem föst stærð sem Ísland gæti mátað sig inn í og þjóðin síðan tekið afstöðu til útkomunnar. Veruleikinn er sá að gangverk Evrópusambandsins byggir á því að það verði fullgilt sambandsríki sem yfirtaki æ meira af valdi og verkefnum þjóðríkjanna. Þróun Rómarréttarins talar hér skýru máli, síðast Lissabonsáttmálinn sem ígildi stjórnarskrár. Enn ljósar hefur þetta orðið á síðustu mánuðum þegar hert hefur fjárhagslega að hverju ríkinu á Evru-svæðinu á fætur öðru, fyrst að Grikklandi, Írlandi og Portúgal og nú er röðin komin að Ítalíu og Spáni. Forystumenn og efnhagsráðgjafar ESB draga enga dul á það lengur að eigi myntbandalagið að lifa af verði að setja aðildarríkin undir fjárhagslegan járnaga frá Brussel. Verði það ekki samþykkt séu dagar Evrunnar og þá um leið ESB í raun taldir. Hliðstæð þróun þar sem þjóðríkin eru smátt og smátt svipt sjálfræði sínu er í gangi á mörgum sviðum, m.a. í utanríkismálum eins og við blasir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þótt talað sé um fjölþjóðlegt samstarf í orði, verður æ ljósara að Frakkland og Þýskaland telja sig borin til að ráða ferðinni á Evrusvæðinu.

Lýðræði og sjálfræði í húfi

Það er niðurlægjandi fyrir Íslendinga að stjórnvöld skuli standa í aðildarviðræðum við Evrópusambandið þvert á vilja meirihluta þjóðarinnar. Frá upphafi hefur verið ljóst að með aðild þurfa Íslendingar af afsala sér yfirráðum yfir sjávarauðlindum sínum og hvað sjálfræði og lýðræðisleg áhrif almennings snertir yrði þjóðinn sett í þá stöðu sem hún var í sem dönsk hjálenda fyrir 1918. Réttilega er á það bent að EES-samningurinn  er meingallaður og því ætti Alþingi að fara yfir reynslu Íslands af honum líkt og norska Stórþingið er nú að gera. En að taka skrefið inn í ESB væri að fara úr öskunni í eldinn. Innan Evrópusambandsins yrðu formleg áhrif Íslands hverfandi og fjarlægð landsins frá miðstöðvum ESB er slík að  almenningur hefði þar engan aðgang til að tjá hug sinn. Franskir bændur geta gripið til þess ráðs að aka á dráttarvélum til Brussel til að koma skilaboðum á framfæri. Launamenn í Beneluxlöndum og grennd geta tekið lest þangað og fylkt liði fyrir framan aðalstöðvar framkvæmdastjórnar ESB. En íslenskur almenningur sem borið hefur fram kröfur sínar á Austurvelli á þess ekki kost að vaða Atlantsála til að verja hendur sínar eftir að valdið hefur verið fært úr landi.

Alþingi taki í taumana

Augljóst er af viðbrögðum ýmissa forystumanna í stjórnmálum hérlendis við upplausn og erfiðleikum innan Evrusvæðisins að þeir skynja hversu þung krafan er um að dregið verði til baka umboð stjórnvalda til áframhaldandi aðildarviðræðna. Jafnvel Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flúði í það skjól í viðtölum við fjölmiðla sl. mánudag að benda á að gjaldeyrishöftin verndi nú Ísland fyrir „fossandi flaumi sem nú streymir um fjármálamarkaði.‟ Þess er hins vegar ekki að vænta að hann hafi frumkvæði að því að draga umsóknina um ESB-aðild til baka og því þurfa þingmenn annarra flokka en Samfylkingarinnar að taka höndum saman um að stöðva ferlið. Það ætti að reynast þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sem á röngum forsendum greiddu aðildarumsókninni atkvæði sitt 16. júlí 2009, auðvelt að söðla um í ljósi þess sem síðan hefur gerst. Sem flokkur hefur VG jafnframt tækifæri til þess á landsfundi sínum í haust að skerpa á markaðri stefnu sinni gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim