Hjörleifur Guttormsson 12. apríl 2011

Líbía og tvöfeldnin í framgöngu Vesturlanda

Nær fjórar vikur eru liðnar síðan nýlenduveldin gömlu með yfirlýstum stuðningi Íslands hófu stríð gegn Líbíu. Yfirskynið var að vernda óbreyttra borgara gegn einræðisstjórn Gaddafis, en flestum er nú orðið ljóst að mannfall í röðum almennings skiptir nú þegar þúsundum að ekki sé talað um fallna hermenn og liðsmenn uppreisnarmanna. Sjaldan hefur verið lagt út í herleiðangur síðustu áratugina á jafn ósljósum og þokukenndum forsendum. Margt í þessum stríðsrekstri minnir óhuggulega mikið á Írak og engum blöðum er um það að fletta að bein og óbein yfirráð yfir olíulindum Líbíu eru markmiðin að baki herleiðangurs Vesturveldanna.

Kór íslenskra alþingismanna

Þann 17. mars sl. fór fram umræða á Alþingi undir fyrirsögninni „Hernaður Gaddafis gegn líbísku þjóðinni og viðbrögð alþjóðasamfélagsins“. Þar stigu talsmenn allra þingflokka hver á fætur öðrum í pontu og hvöttu til skjótra hernaðaraðgerða til að stöðva meint þjóðarmorð. Þetta var nokkrum klukkustundum áður en Öryggisráðið stóð að samþykktinni um flugbann yfir Líbíu. Sú kafloðna samþykkt var gerð með atkvæðum 10 ríkja og enginn vafi er á því að Ísland hefði verið í þeim hópi ef áformin um aðild lands okkar að Öryggisráðinu fyrir fáum árum hefðu náð fram að ganga. Í hópi stórþjóða sem sátu hjá í Öryggisráðinu voru hinsvegar Þýskaland, Brasilía, Rússland og Kína. Það eru söguleg tíðindi að þjóðþing vopnlausrar smáþjóðar skuli feta slíka slóð og ríkisstjórn Íslands gerast ábekingur fyrir herleiðangrinum.

Afstaða með og móti vegur nú salt

Eftir að almenningur hefur fylgst með fréttum af hernaði NATÓ vikum saman birtist í dag skoðanakönnun Fréttablaðsins þar sem 80% aðspurða tjáðu hug sinn. Um fjórðungur tók ekki afstöðu en hinn hlutinn skiptist nokkuð jafnt milli þeirra sem andvígur eru eða hlynntir hernaðinum. Ríflega 57% stuðningsmanna VG tjáði sig andvíg og um 40% stuðningsmanna Samfylkingarinnar. Þetta sýnir hversu skjótt veður skipast í lofti og hve langt er frá því að kjörnir fulltrúar á Alþingi og ríkisstjórnin endurspegli vilja kjósenda. – Ekki þarf að draga í efa harðneskjuleg viðbrögð stjórnar og liðsmanna Gaddafís gegn uppreisnarmönnum og stuðningsmönnum þeirra. Hins vegar veit enginn nú, um mánuði eftir að átökin hófust, fyrir hvað uppreisnarmenn í austurhluta landsins standa annað en að vilja steypa Gaddafí af stóli. Samþykkt Öryggisráðsins fól hins vegar ekki í sér það markmið þótt frumkvöðlarnir tali nú  óhikað fyrir því.

„Okkur er ekki sagður sannleikurinn um Líbíu“

Í afar fróðlegri grein í Independent 8. apríl sl eftir Johann Hari (http://www.independent.co.uk/opinion/commentators/johann-hari/johann-hari-were-not-being-told-the-truth-on-libya-2264785.html) , margverðlaunaðan breskan blaðamann, fer hann ómildum orðum um framgöngu Vesturveldanna með Breta og Frakka í fararbroddi. Hann afhjúpar þar tvöfeldni og hræsni ráðamanna þessara forystuþjóða í hernaðinum, að Bandaríkjunum meðtöldum, stuðning þeirra við einræðisstjórnir í Arabalöndum um langt skeið og ódulbúna þjónkun þeirra í þágu hergagnaiðnaðar og vopnasölu. Til að undirstrika siðferðisbrestinn í málflutningi þessara ráðamanna segir hann frá þætti þeirra á tveimur öðrum vígstöðvum sem ekki hafa verið í hámæli. Um er að ræða hernað Bandaríkjamanna með ómönnuðum árásarflugvélum inn í Pakistan undir því yfirskyni að kljást þar við al-Qaida. Útkoman sé dráp óbreyttra borgara í hlutföllunum 50:1. Árásir þessar kynda undir hatur á Bandaríkjunum í Pakistan, sem rithöfundurinn Fatima Butto orðar svo: „Þegar við hér í Pakistan heyrum orðaflaum Obama um Líbíu, getum við ekki annað en hlegið. Sé honum alvara ætti hann að stöðva fjöldamorðin á óbreyttum borgurum í landi okkar.“

5 milljónir liggja í valnum í Kongó

Hitt dæmið sem Johann Hari rekur er stríð sem borið hefur verið uppi af vestrænum fjölþjóðafyrirtækjum í Kongó um áratugi. Þessi átök, kostuð af herjum málaliða á vegum vestrænna auðfélaga, hafi leitt af sér dauða yfir fimm milljóna manna síðan árið 1998, mesta mannfall síðan í heimsstyrjöldinni síðari. Úttekt á vegum Sameinuðu þjóðanna á átökunum leiddi í ljós að hersveitir málaliða á vegum vestrænna fjölþjóðafyrirtækja voru að skjóta skildi fyrir rán á náttúruauðlindum landsins. Þar kemur m.a. við sögu málmblandan „coltan“, en úr henni eru unnir málmarnir niobium og tantalum sem notuð eru m.a. í farsíma, DVD-spilara, tölvur og vídeó.
Það var fyrst á síðasta ári að Bandaríkjaþing samþykkti lög sem ætlað var að bregðast við þessum soralega hernaði. Það skyldi gert innan 140 daga, en þeir liðu án þess nokkuð væri aðhafst af hálfu Bandaríkjastjórnar. Kannski var hún of upptekin við að undirbúa árásirnar á Líbíu, segir blaðamaðurinn, sem vísar í væntanlegan þátt á BBC (rás 4) um málið innan skamms.

Íslenskir þingmenn gerðu rétt í því að opna augun fyrir samhengi hlutanna áður en þeir slást í hóp sölumanna hergagnaiðnaðarins og morðsveita auðhringa vítt um veröldina.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim