Hjörleifur Guttormsson 14. mars 2011

Heimsmyndin breytist hratt

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið ... kvað Steinn Steinarr. Það má til sanns vegar færa og kemur í hug eftir atburði þessa ársfjórðungs, svo ekki sé litið lengra til baka.

Uppreisnin í Arabalöndum

Eins og jarðflekarnir gengur sagan í rykkjum, sem oft taka á sig mynd náttúruhamfara. Byltingarnar í Arabalöndum sá enginn fyrir við síðastu áramót og það er langt frá því að þeim sé lokið eða hægt sé að fullyrða um niðurstöðu þeirra og afleiðingar. Stjórnmálaleiðtogar á Vesturlöndum kappkosta að þvo af sér margra áratuga stuðning við einræðisöflin sem héldu í taumana í Túnis og Egyptalandi, að ekki sé talað um Gaddafi í Líbíu sem nýlega hafði verið boðinn að háborðinu. Tvöfeldnin skín út úr orðræðum forystumannanna allt frá Washington til Rómar sem nú lofa lýðræðið en héldu því í heilan mannsaldur markvisst í heljargreipum með fjáraustri og gegndarlausri vopnasölu í yfirfulla púðurtunnuna fyrir botni Miðjarðarhafs. Að baki skruminu býr veruleiki efnahagslífs Vesturlanda sem byggir á olíunni í Saudi Arabíu og fleiri löndum í þessum slóðum. Það er auðvelt þessa dagana að benda á Gaddafi sem vonda karlinn, en hvað gerist ef hitnar fyrir alvöru undir Al Sád, einvaldinum í Ríad, höfuðborg Sádí-Arabíu þaðan sem um fjórðungur allrar olíu heimsins streymir þessi árin? Ósjálfbært efnahagslíf Vesturlanda hvílir á þeim olíuforða sem þarna er að finna og gengið er á í síaukum mæli til að knýja áfram gangverkið.

Jarðskjálftinn mikli í Japan

Nýliðins morguns 11. mars verður lengi minnst vegna ógnarskálftans sem skók Japan og framkallaði flóðbylgju sem sópaði mannvirkjum, tækjum og tólum burt eins og hverju öðru hismi. Manntjónið hleypur á tugþúsundum og efnahagsáhrifin verða gífurleg og langvarandi fyrir þetta háþróaða iðnveldi. En þau verða ekki einangruð við Japan heldur munu endurkastast yfir allan hnöttinn og magna upp þá áleitnu spurningu á hvaða vegferð við erum í mannheimi. Ummæli íslenskra jarðfræðinga sem fjölmiðlar hér leituðu til vegna atburðarins voru athyglisverð því að þau báru vott um að jarðskjálfti af þessum styrkleika væri „eðlilegur“ viðburður  í ljósi fræðilegrar þekkingar, enda ekki einsdæmi. Japanir hafa búið sig undir slíka atburði af kostgæfni, sennilega öðrum þjóðum fremur. Eitt hafði þó gleymst, og það ekki léttvægt, sem er að orkubúskapur landsins hefur að drjúgum hluta byggst á kjarnorkuverum. Þegar þetta er skrifað bíður heimsbyggðin með öndina í hálsinum yfir hvernig löskuðum kjarnaofnum muni reiða af. Nú hriktir í heimsmyndinni af þessum sökum, því að víða um heim hvílir efnahagur þjóða í umtalsverðum mæli á kjarnorku sem orkugjafa. Einmitt þessi misserin hefur kjarnorkuiðnaðurinn verið að sækja í sig veðrið eftir laskaða ímynd, m.a. í Bretlandi, en lendir nú örugglega í mótbyr.

Áhrifin á orkuverð og efnahag

Ekki þarf spádómsgáfu til að sjá að viðburðir síðustu daga og vikna muni hafa víðtæk og að líkindum langvarandi áhrif á orkuverð og efnahagsþróun. Undirstöður iðnríkja hvíla á ótrufluðu aðgengi að olíu og jarðgasi, en framboðið fer augljóslega minnkandi og aðeins spurning um fá ár hvenær framboð hættir að fullnægja eftirspurn. Afleiðing af ótæpilegri notkun jarðefnaeldsneytis blasir við mönnum í formi loftslagsbreytinga sem flestir líta á sem bölvald. Kjarnorka til friðsamlegra nota hefur einnig í för með sér gífurlega áhættu, eins og oft hefur komið í ljós á undanförnum áratugum, og sá iðnaður skilur eftir sig geislavirkan úrgang sem vandamál inn í fjarlæga framtíð. Vanburða og ósjálfbært efnahagskerfi heimsins hefur nýlega minnt á sig með kreppu sem enn varir. Mikil verðhækkun á orku nú og til lengri tíma litið á eftir að skerpa á þeim vanda sem við blasir. Hefðbundnar aðgerðir duga skammt eins og nú horfir og tími til kominn að leitað verði nýrra leiða fyrir alvöru í sátt við náttúru og umhverfi. Til þess þarf í senn gjörbreytta hagstjórn og allt annað gildismat í stað þess sem leitt hefur mannkyn í þá ófæru sem við blasir. – Steinn Steinarr líkti vegferðinni við „dimman kynjaskóg, af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið, á bak við veruleikans köldu ró.“Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim