Hjörleifur Guttormsson 14. október 2011

Landsfundur VG: Nú reynir á hornsteina
 
Íslensk stjórnvöld eiga nú í formlegum viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Vinstrihreyfingin grænt framboð sem allt frá stofnun hefur verið andvíg aðild að ESB ber sem aðili að ríkisstjórn mikla ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin og þarf að gæta sín við hvert fótmál í yfirstandandi viðræðum. Fari svo að til verði samningur á grundvelli yfirstandandi viðræðna bæri VG á honum fulla stjórnskipulega ábyrgð. Því þarf flokkurinn á hverju stigi viðræðna að setja þau skilyrði sem hann telur réttmæt og óhjákvæmileg með tilliti til þjóðarhagsmuna og stefnu flokksins á einstökum sviðum og í ljósi andstöðu hans við ESB-aðild. Sú afstaða hefur verið einn af hornsteinunum í stefnugrunni flokksins frá upphafi.

Tillaga lögð fyrir landsfund VG

Fyrir landsfundi VG sem haldinn verður í lok þessa mánaðar liggur svohljóðandi tillaga frá 25 félögum í flokknum, konum og körlum, sem búsett eru víða á landinu:  

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Landsfundurinn ályktar að í yfirstandandi aðildarviðræðum beri að hafna öllum hugmyndum um að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu og samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum (makríll, kolmunni, úthafskarfi, loðna og norsk-íslenska-síldin). Sama á við um aðrar náttúruauðlindir sem fyrirhugað er að lýsa þjóðareign í nýrri stjórnarskrá.
Landsfundurinn bendir á þá miklu skerðingu lýðræðis sem felst í ESB-aðild ásamt fullveldisafsali á fjölmörgum sviðum. Þróun innan ESB að undanförnu, nú síðast vegna átaka um framtíð evru-samstarfsins, stefnir í átt að enn frekari samruna með hertri miðstýringu. Með Lissabon-sáttmálanum er einnig kominn vísir að samstarfi um utanríkis- og hernaðarmálefni. Einnig eiga félagsleg sjónarmið, umhverfisvernd, fæðuöryggi og réttindi launafólks undir högg að sækja innan sambandsins.
            Landsfundurinn telur það vera eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar  ESB-aðildar.

Auðlindir

Í tillögunni eru í upphafi nefnd atriði þar sem útilokað er fyrir Íslendinga að gefa nokkuð eftir með tilliti til grundvallarhagsmuna og sem varða yfirráð auðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu. Brýnt er að fá það sem fyrst skýrt fram í yfirstandandi viðræðum, hvort ESB sé reiðubúið að fallast á að Ísland sem aðili að ESB haldi fullu og óskoruðu forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda innan efnahagslögsögunnar og samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum. Sé svarið við þessu neikvætt er ástæðulaust að eyða tíma og fjármunum í frekari viðræður. Það sama á við um aðrar náttúruauðlindir sem VG hefur barist fyrir að lýstar verði þjóðareign og sem vaxandi hljómgrunnur er fyrir að kveðið verði á um í nýrri stjórnarskrá. Þetta á m.a. við um ferskvatn, jarðhita, orku fallvatna og auðævi í jörðu þar sem VG hefur frá stofnun flokksins viljað ganga lengra en aðrir stjórnmálaflokkar.

Fullveldisafsal

Óumdeilt er að  ESB-aðild felur í sér fullveldisafsal á fjölmörgum sviðum, m.a. varðandi löggjafarvald og dómsvald. Með aðild yrði grundvallarbreyting sem veikja myndi stórlega stöðu Alþingis sem löggjafa og æðsta dómsvald flyttist í hendur yfirþjóðlegs dómstóls ESB. Tollar yrðu afnumdir inn á við en tollmúrar reistir gagnvart ríkjum utan ESB. Sem aðildarríki hefði Ísland ekki heimild til að gera fríverslunarsamninga við lönd utan sambandsins. Aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum myndi í reynd færast undir ESB sem talar sem oftast einni röddu á Allsherjarþinginu, í nefndum þess og á alþjóðaráðstefnum SÞ. Í utanríkis- og öryggismálum er nú kveðið á um samstarf og samræmingu á stefnu aðildarríkja undir forystu sérstaks utanríkistalsmanns ESB. Þessu til viðbótar stefnir nú í að mikilvægir þættir efnahags- og fjármála aðildarríkja verði færðir undir framkvæmdastjórn ESB í Brussel. Áhrifamiklir aðilar innan ESB tala nú opinskátt fyrir myndun sambandsríkis. Íslendingar eiga af fjölmörgum ástæðum, m.a. vegna legu landsins og sérstæðra og gjöfulla náttúruauðlinda ekki að ganga slíku ríki á hönd.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim