Hjörleifur Guttormsson 16. janúar 2011

Að fljóta sofandi að feigðarósi

Sögur af Bakkabræðrum voru vinsælar í mínu ungdæmi en nú keppir við þær veruleikinn allt í kringum okkur. Bakkabræður reyndu að bera sólarljós í húfum sínum inn í dimm híbýlin á Bakka og undruðust að ekki birti í slotinu. Sjálf gætum við spurt fyrir hönd mannkyns hvort við séum í raun svo fjarri þeim í hugsunarhætti og breytni. Dag hvern fáum við fréttir af náttúruhamförum sem virðast koma mönnum í opna skjöldu. Nú síðast eru það mikil flóð í Queensland í Ástralíu og er ástandinu líkt við afleiðingar styrjaldar. Þó er ekki nema aldarþriðjungur frá því álíka mikil flóð gengu þar yfir árið 1974. Byggð hefur síðan færst í ríkum mæli yfir á flóðasvæði og borgin Brisbane þanist út eins og ekkert hafi áður í skorist. Á síðustu öld byggðum við Íslendingar þorp og bæi  án tillits til náttúruhamfara svo sem snjóflóða, sumpart með vísan í nýja tækni eða traustara byggingarefni sem betur myndu standast eyðingaröfl en torf og grjót. Afneitunin var svo mögnuð að lexían frá Neskaupstað 1974 með fjölda dauðsfalla dugði ekki til að vekja menn af værum blundi. Það þurfti mannskæð áföllin á Vestfjörðum tveimur áratugum síðar til að stjórnkerfi, skipuleggjendur og kjörnir fulltrúar rumskuðu.

Sagan um strútinn

Lífseig hefur orðið sagan um strútfugla sem stingi höfðinu í sandinn er hættu ber að höndum en líkast til er hún helber tilbúningur. Miklu fremur getur sagan átt við um okkur mennina sem oftar en ekki bregðumst við með þessum hætti. Viðbrögðin við loftslagsbreytingum af mannavöldum eru dæmigerð um slíka hegðan, þrátt fyrir að rannsóknir bendi nær óyggjandi í eina átt. Meðal afdrifaríkra afleiðinga loftslagsbreytinga er hækkun sjávarborðs sem segir til sín hvarvetna og halda mun áfram um aldir jafnvel þótt aukning koldíoxíðs í andrúmslofti yrði stöðvuð bráðlega. Menn greinir aðeins á um hversu hröð sú þróun verði. Ef gengið er út frá spá loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) verður sjávarborð í lok 21. aldar á bilinu 0.5 til 1.4 metrum hærra en árið 1990. Í lok þessa árþúsunds stefnir í allt að fjögurra metra hækkun sjávarborðs samkvæmt rannsóknarniðurstöðum sem birtar eru í síðasta hefti Nature Geoscience. Óstöðugleiki og vaxandi „öfgar“ í veðurfari eru af mörgum rakin til hlýnunar andrúmsloftsins og taka sinn toll. Hækkað sjávarborð vegna hlýnunar hafsins og bráðnunar jökla boðar enn skuggalegri framtíð fyrir jarðarbúa. Fjöldi stórborga heimsins mun fá að kenna á afleiðingunum þegar á þessari öld. Kóraleyjar sem eru undirstaða margra þjóðríkja í Kyrrahafi, færast ein af annarri á kaf og láglend og þéttbýl strandsvæði eins og í Bangladesh verða óbyggileg. Samt kemur heimsbyggðin sér ekki saman um aðgerðir og ekkert alþjóðlegt samkomulag er í sjónmáli til að bregðast við þessu Nóaflóði.

Vettlingatök hvert sem litið er

Mönnum er í fersku minni ársfundur ríkja loftslagssamningsins sem rann út í sandinn í Kaupmannahöfn í desember 2009. Cancún fundurinn ári síðar vakti einhverjar vonir en boðaðar lausnir eru allsendis ófullnægjandi og byggja á úreltri forsögn um þróun mála. Þetta á m.a. við um + 2°C hækkun meðalhita á jörðinni sem það hámark sem mannkynið ætti að reyna að stöðva sig við, en það svarar til CO2-gilda sem numið geta á bilinu 450–550 ppm. Samsvarandi gildi fyrir iðnbyltingu var 280 ppm. Í nýlegri bók, Storms of My Grandchildren, eftir James E. Hansen, prófessor og heimsþekktan frumkvöðul í loftslagsfræðum, gagnrýnir hann harðlega ofangreindar viðmiðanir alþjóðasamfélagsins. Þess í stað setur hann fram kröfuna um lækkun á magni gróðurhúsalofttegunda frá núverandi 390 ppm-gildi niður fyrir 350 ppm. Cancún-samþykktin nefnir ekki þá tölu heldur vísar í +2°C-hlýnunarmörkin, sem Hansen telur örugglega stefna mannkyninu í ófæru. – Hann gagnrýnir líka þá aðferð sem felst í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) frá 2003 og sem Ísland hefur tengst, en hún gefur ríkum löndum færi á að kaupa slíkar heimildir frá þróunarríkjum í stað þess að minnka losun innan eigin landamæra. Samkvæmt rannsókn á vegum Stanford háskóla frá árinu 2008 er þetta kerfi ekki líklegt til að skila marktækum árangri. Þess í stað telur James Hansen að leggja verði skatt á losun kolefnis og stighækka hann í framtíðinni. Með því fái þróun og beislun endurnýjanlegra orkugjafa þann hvata sem sárlega vanti.

Undirrótin ósjálfbært efnahagskerfi

Kapítalískt efnahagskerfi með óheftu fjármagnsstreymi og hnattlægri samkeppni er driffjöður þeirra háskalegu umhverfisbreytinga sem nú þrengja að sífjölgandi mannkyni. Það þarf ekki vitringa til að sjá að krafan um hagvöxt og gróða án tillits til heildaráhrifa á umhverfi jarðar endar ekki nema á einn veg, og það því fremur sem gangverkið er knúið áfram af jarðefnaeldsneyti. Krafa markaðarins um æ hraðari umsetningu og meira vöruframboð sem forsendu m.a. fyrir afkomu fyrirtækja og bærilegu atvinnustigi ýtir undir sívaxandi sóun auðlinda og misskiptingu. Þrátt fyrir þetta fylgja flestir hagfræðingar í fótspor Bakkabræðra í stað þess að taka af alvöru þátt í að leita sjálfbærra lausna.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim