Hjörleifur Guttormsson 16. desember 2011

Ríkisstjórnin ber höfðinu við ESB-steininn

Þegar umsóknin um aðild að Evrópusambandinu er annars vegar hamast ríkisstjórn Íslands við að neita hinu augljósa og berja höfðinu við stein. Fyrri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks gerði sig seka um hliðstætt athæfi þegar látið var vaða á súðum í efnahagsmálum og fjármálakerfi landsins hrundi. Þá var helsta baráttumál ráðherranna að koma Íslandi  í Öryggisráðið þó ekki væri nema til tveggja ára. Nú er taflið um inngöngu í Evrópusambandið það bindiefni sem heldur liðsoddunum saman.

Ómarktækur utanríkisráðherra

Mánudagurinn 12. desember sl. var að mati Össurar utanríkisráðherra „sérstakur gleðidagur‟. Hann var þá staddur í Brussel til að halda upp á það með „Stefáni fúla‟ að búið væri að semja um fjórðung þess sem fyrir lægi áður en Ísland kæmist að Gullna hliðinu. Reyndar hefði þetta hingað til snúist um sjálfsagða hluti sem lesa mætti um í EES-samningnum. Á næsta ári kæmi að því að hefja viðræður um afganginn og ljúka við sem flesta kafla.  Fréttamaður leyfði sér að spyrja ráðherrann hvort ekki væri skrítið að vera nú að semja við Evrópusamband sem eigi í djúpstæðri kreppu. Össur lét slíkt fjas ekki spilla þessum gleðidegi og svaraði að bragði:

„Hafi einhverntíma verið vitlaus hugmynd að slíta viðræðunum er það fráleitt núna þegar Evrópusambandið er loksins búið að ákveða aðgerðir sem sérfræðingar telja líklegar til að leysa bæði núverandi skuldavanda óábyrgu ríkjanna og líka lagfæra hönnunargalla í umbúnaði evrunnar sem líklega kemur í veg fyrir frekari kreppu af þessu tagi. Það er núna sem við eigum að halda áfram af fullum þrótti og ekki síst með tilliti til þess að við höfum lokið að semja um fjórðung kaflanna og það væri óábyrgt af Íslandi að hætta við núna og það myndi skaða stöðu og orðstír Íslands langt út fyrir Evrópu.‟

Kaþólskari en norrænir kratar

Umæli Össurar féllu þrem dögum eftir sögulegan fund forystu Evrópusambandsins sem endaði með klofningi. Reynt hefur verið að draga upp þá mynd af samkomunni að það hafi aðeins verið Cameron hinn breski sem stóð í vegi fyrir allsherjar samstöðu ESB-ríkjanna, allir aðrir hefðu skrifað upp á nýtt Evrusamband með hertum aðgerðum á fjármála- og efnahagssviði. Þetta mun reynast ótímabær túlkun ekki síður en blaðrið í Össuri um endalok kreppunnar. Svo mikið er víst að kratar á öðrum Norðurlöndum eru ekki í klappliði út af niðurstöðunni. Sænskir sósíaldemókratar kváðu strax upp úr um að ekki kæmi til greina að Svíar fylgdu með inn í Evrusambandið, þó ekki væri nema vegna enn frekara fullveldisafsals. Lars Calmfors leiðarahöfundur hjá Dagens Nyheter segir niðurstöðuna í Brussel enga lausn á kreppunni og evran sé áfram á berangri. Mogens Lykketoft talsmaður Folketinget, fyrrum ráðherra og formaður danskra krata, tekur í sama streng. Stefna ESB nú muni aðeins dýpka þá gröf sem við blasi. Núverandi utanríkisráðherra Dana og formaður SF, Villy Søvndal, sagði strax eftir Brussel-fundinn að Danir ættu að segja nei við niðurstöðunni og Enhedslisten sem meirihluti dönsku stjórnarinnar hvílir á hefur sett fram kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu.

VG í hörmulegri stöðu

Það hefur lengi blasað við að kollhnís VG-forystunnar eftir síðustu kosningar í afstöðu til ESB-umsóknar yrði flokknum dýrkeypt. Sú ömurlega vegferð er langt frá því á enda ef marka má síðustu viðbrögð og svör formanns flokksins á Alþingi 13. desember. Í stað þess að flytja þar og taka undir rök gegn aðild að Evrópusambandinu, sem landsfundur VG ályktaði um að vera skuli eitt af forgangsverkefnum flokksins, hljóp Steingrímur undir bagga með utanríkisráðherranum síglaða. Kröfunni um að vegna breyttra forsendna verði endurskoðað umboðið sem Alþingi veitti ríkisstjórninni til að sækja um aðild fyrir meira en tveimur árum svaraði Steingrímur J þannig skv. þingtíðindum:

 „Ég sé ekki hverju við Íslendingar værum þá nær. Þá fyrst væri til lítils á sig lagður þessi leiðangur, sem vissulega hefur verið erfiður og ekki okkur öllum sérstakt fagnaðarefni, ef við værum bókstaflega engu nær þegar við allt í einu hættum eða slægjum málinu á frest.‟

Það sýnist orðið verkefni fyrir sálfræðinga að lesa í málflutning sem þennan frá formanni flokks sem allt frá stofnun hefur litið á það sem eina meginstoð í stefnu sinni að halda Íslandi utan við aðild að Evrópusambandinu. Nú birtist okkur ESB í enn skýrara ljósi en áður með stökkbreytingu yfir í ríkjasamband og skuldbindingu um fullveldisafsal í áður óþekktum mæli og gerir kröfu til að ákvæði þar að lútandi verði tekin upp í stjórnarskrár aðildarríkja.

Í aðdraganda alþingiskosninga

Vegabréf Össurar Skarphéðinssonar til Brussel var frá upphafi áritað af forystu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Enn skal það framlengt, fari fram sem horfir. Á árunum 2012 og 2013 á að halda áfram að „kíkja í pakkann‟ undir handleiðslu stækkunarstjóra ESB á sama tíma og Evrópusambandið af náð sinni hyggst verja ómældu fé til að kenna Íslendingum að krossa rétt í fyllingu tímans. Til Alþingis verður í síðasta lagi kosið í apríl 2013. Hvað segja bændur þá?



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim