Tillögur í hugmyndasamkeppni um Þingvallaþjóðgarð
Hér fara á eftir átta tillögur sem ég skilaði inn í hugmyndasamkeppni Þingvallanefndar í ágústmánuði 2011. Þær fela í sér helstu hugmyndir mínar um þróun þjóðgarðsins næstu tvo áratugi, en 2028 verður öld liðin frá stofnun hans. Tillögurnar verða hér birtar í þeirri röð sem ég skráði þær, en hún er tilviljanakennd og lýsir ekki sérstökum forgangi eða mikilvægi. – Vegna tilhögunar á innsendingu birtist hver innsend hugmynd stök og án vísunar í hver að henni stóð. Þannig hafði dómnefnd ekki forsendur til að líta á eftirfarandi efni í samhengi.
1. Stækkun þjóðgarðsins á Þingvöllum
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum verði stækkaður frá því sem nú er, einkum til austurs og norðausturs allt að Langjökli þannig að innan hans verði þjóðlendurnar norðan og austan núverandi þjóðgarðs sem jafnframt eru afréttir Þingvallajarðar, Grímsness og Grafnings og Laugardals skv. úrskurðum Óbyggðanefndar í málum nr. 1/2000, nr. 3/2000 svo og dómi Hæstaréttar í máli nr. 67/2008 (Skjaldbreiður).
Í stefnumörkun 2004–2024 er réttilega á það bent að Þingvellir og umhverfi hafi ómetanlegt gildi sem jarðfræðilegur minnisvarði. Með vísan til þessa er eðlilegt að innan þjóðgarðsins verði eldstöðvakerfin sem teygja sig norð-norðaustur frá sigdældinni með glæstum sýnishornum gosstöðva og eldhraunum sem sumpart hafa runnið suður í Þingvallavatn.
Þannig myndu bætast við í stækkuðum Þingvallaþjóðgarði m.a. fjallið Skjaldbreiður og Skjaldbreiðarhraun, Tindaskagi, Þjófahraun ásamt gossprungu og móbergsstaparnir Skriða og Hlöðufell.
Slík útfærsla þjóðgarðsins er augljóslega í almannaþágu, enda falli viðbótin undir skilgreininguna útivistarsvæði, sbr. svæðaskiptingu í núverandi skipulagi. Hún er rökrétt í jarðfræðilegu samhengi, sbr. bls. 2/4 , og yki verulega á fræðslugildi svæðisins í heild og þar með á upplifun gesta. Jafnframt myndi hún styrkja stöðu Þingvalla á heimsminjaskrá en Þingvallanefnd hefur nýverið samþykkt að hefja undirbúning að tilnefningu þjóðgarðsins sem náttúruminja á heimsminjaskrá UNESCO.
Mörk stækkaðs þjóðgarðs ættu að fylgja þjóðlendulínum eins og þær eru dregnar í ofangreindum úrskurðum, sbr. meðfylgjandi uppdrætti á 3/4 og 4/4.
- Norðvesturmörk væru framlenging núverandi marka frá Botnsúlum um há-Kvígindisfell, sjónhendingu í Reyðarlæk þar sem hann rennur úr Brunnavatni og úr ósi Brunnavatns í suðvesturhorn Þórisjökuls og áfram upp í Langjökul.
- Suðurmörk skv. þjóðlenduúrskurði: Frá upptökum Brúarár við Rótasand í vestustu nípu Rauðafells og þaðan sjónhending í háan hnjúk á norðan- og austanverðri Hrossadalsbrún. Þaðan sjónhending í Eldborgir (489 m) sunnan Hrafnabjarga.
- Að austan úr Hagafelli í Hagavatn og úr Hagavatni um Eldborgir (Lambahraun, 679 m) í upptök Brúarár við Rótasand.
- Norðurmörkum ræður Langjökull innan nefndra marka.
Þegar að því kemur að stofnaður verði Langjökulsþjóðgarður væri ekki óeðlilegt að mörk milli hans og Þingvallaþjóðgarðs fylgdu Sultartangalínu 3 innan umrædds svæðis.
Engin eignarréttarleg vandkvæði virðast vera á ofangreindri útfærslu þjóðgarðsins þar eð svæðin sem stækkunin tæki til hafa þegar verið úrskurðuð þjóðlendur og afréttur. Engin hefðbundin afréttarnot þyrfti að skerða vegna þjóðgarðs á þessu svæði. Sveitarfélagið Bláskógabyggð þarf sem skipulagsaðili að koma að ákvörðun um slíka stækkun, en ekki verður séð að með henni séu í neinu skertir hagsmunir þess nema síður sé.
Í tengslum við umrædda stækkun Þingvallaþjóðgarðs væri eðlilegt að endurskoða lögin um Þingvelli, m.a. hlutverk og stöðu Þingvallanefndar.
............................................
2. Stefna um mannvirkjagerð í þjóðgarðinum á Þingvöllum
Tillaga
- Engar varanlegar byggingar umfram þær sem nú eru til staðar verði heimilaðar innan þjóðgarðsins á svæðinu milli Almannagjár í vestri og Hrafnagjár í austri, nema snyrtingar og smáhýsi sem tengjast áningu og þjónustu við ferðafólk. Á þetta einnig við um Þingvallaafrétt norður af. Horfið verði frá öllum hugmyndum um byggingu á svonefndum Valhallarreit.
- Byggingar sem æskilegt verður talið að rísi til að bæta þjónustu og fræðslu fyrir almenning verði annars staðar en í Þingvallalægðinni. Fyrst og fremst verði miðað við staðsetningu bygginga vestan Almannagjár sem næst núverandi fræðslumiðstöð vestur af Hakinu. Þar er æskilegt að bæta til muna aðstöðu til móttöku ferðafólks og sem jafnframt getur þjónað opinberum aðilum (Alþingi og ríkisstjórn), einkum utan aðalferðamannatíma. Þarna væri einkum um að ræða:
a) Fjölnotasal er rúmað geti allstóra hópa ferðamanna sem fái þar notið fræðslu í sjónrænu og töluðu formi, m.a. frá leiðsögumönnum. Í tengslum við þennan sal mætti einnig koma fyrir sögusýningu um þinghald og búsetu á Þingvöllum fyrr á tíð. Sami salur væri og sniðinn að því að Alþingi gæti haft af honum not til fundahalda.
b) Veitingasalur með tilheyrandi eldhúsi þar sem ferðamönnum gefist kostur á að njóta veitinga, en einnig geti salurinn nýst til móttöku á vegum opinberra aðila, Alþingis og ríkisstjórnar.
3. Vanda þarf sérstaklega til hönnunar umræddra bygginga með það í huga að þær verði ekki háreistar, falli sem best að landslagi og að frá þeim stafi ekki mengunarhætta.
Stefna um breytta nýtingu á Þingvallabæ frá því sem nú er verði mótuð í ljósi ákvarðana um byggingar skv. tölulið 2.
Greinargerð
Í stefnumörkun 2004–2024 fyrir þjóðgarðinn (s. 11) segir m.a.:
„Útilokað má telja að að almenningur á Íslandi geti fellt sig við verulega uppbyggingu innan þjóðgarðsins, einkum nálægt þinghelginni sjálfri. Á hinn bóginn má gera ráð fyrir því að sátt muni geta náðst um breytingar sem hafa það meginmarkmið að vernda að mestu núverandi skipan en auðvelda gestum að njóta gæða þjóðgarðsins að þeim mörkum sem verndunin setur.‟
Þeir sem sett hafa fram hugmyndir um uppbyggingu á svonefndum Valhallarreit ættu að kynna sér alla þá erfiðleika og meinbugi sem um áratugi fylgdu rekstri Valhallar. Þar við bætist hættan á landbreytingum þar vegna jarðhræringa, en mengun frá rekstri Valhallar var stöðugt og torleyst vandamál og ógnun við líf í Öxará og Þingvallavatni.
Ótvíræður kostur er að helstu mannvirki sem tengjast starfsemi þjóðgarðsins dreifist ekki víða, m.a. vegna fjárhagslegrar hagkvæmni og samnota af stuðningskerfum (bílastæði, mengunarvarnir, fjarskipti etc.). Sjónrænt eiga lágreistar byggingar vestan við Hakið ekki að trufla upplifun þeirra sem staddir eru niðri í Þingvallalægðinni en jafnframt eru þær örskammt frá þinghelginni. Hafa ber einnig í huga að hætta á jarðraski eða landsigi í kjölfar jarðskjálfta er langtum minni vestan Almannagjár en niðri í sigdældinni.
Ekki er þörf á að koma upp gistiaðstöðu í sjálfum þjóðgarðinum né heldur aðstöðu fyrir fjölsóttar ráðstefnur svo stutt frá höfuðborgarsvæðinu.
................................................
3.Sumarbústaðir víki úr þjóðgarðinum fyrir árið 2028
Tillaga
Leigusamningum um sumarbústaði innan þjóðgarðsins verði sagt upp og séð til þess að þeir verði fjarlægðir einn af öðrum úr þjóðgarðinum sem fyrst eftir að umsamið leigutímabil rennur út. Forgang um rýmingu hafi bústaðir undir Hallinum (Valhallarstígur) og í Gjábakkalandi. Trjágróður af erlendum uppruna verði fjarlægður af sumarbústaðalóðum og gengið frá umhverfi bústaðanna sem næst náttúrulegu horfi. Lokið verði við að fjarlægja sumarbústaði úr þjóðgarðinum og lagfæra umhverfis þeirra fyrir 100 ára afmæli lagasetningar
um þjóðgarðinn árið 2028.
Greinargerð
Forsaga og stefnumörkun síðustu áratuga
- Mikil umræða hófst 1967 um sumarbústaði í þjóðgarðinum að frumkvæði ritstjóra tímaritsins Samvinnunnar svo og í tengslum við skipulagssamkeppni á vegum Þingvallanefndar 1972. Í framhaldi af henni samþykkti þáverandi Þingvallanefnd að ekki skyldu reistir nýir sumarbústaðir í Gjábakkalandi „ ... og að unnið skyldi að því, að þeir, sem reistir höfðu verið, skyldu víkja.‟ (Skýrsla um störf Þingvallanefndar 1972–1975, undirrituð af Þingvallanefnd í maímánuði 1975). Þá var og fært til bókar: „Ennfremur samþykkti nefndin, að stefna bæri að því, að sumarbústaðir yrðu fluttir úr svonefndum Halli (þ.e. sunnan Valhallar) með það fyrir augum, að engir sumarbústaðir verði í þjóðgarðinum.‟
- Með stefnumörkun Þingvallanefndar í skipulagsmálum frá í maí 1988 undir heitinu „Þingvellir, þjóðgarðurinn og umhverfi‟ var ákveðið að leigutímabil fyrir sumarbústaði í þjóðgarðinum skyldi stytt úr 50 árum í 10 ár. Í þessari stefnumörkun segir (s. 28): „Samningar um sumarbústaði í þjóðgarðinum renna út á næstu árum. Þessir samningar verða ekki framlengdir, nema þá til 10 ára í senn. Ákvæði verða sett í samninga, m.a. um hámarksstærðir húsa, frjálsa og hindrunarlausa umferð, forkaupsrétt og kauprétt, þannig að þjóðgarðurinn geti smám saman eignast þau mannvirki sem þörf er talin á vegna skipulagsins. Girðingar verða ekki leyfðar umhverfis hvern bústað enda verði allir bústaðir innan einnar girðingar. Gert verður deiliskipulag af sumarbústaðasvæðinu.‟
- Núverandi stefnumörkun um Þingvelli 2004 til 2024 tók við af stefnumörkuninni frá 1988 (s. 10). Í henni segir m.a. undir S6: Sumarhúsasvæði (s. 15):
„Stefna fyrir þetta svæði er sem hér segir: Stefnt skal að því að þjóðgarðurinn neyti forkaupsréttar þegar bústaðir bjóðast til sölu og taki yfir lóðir þegar leigusamningar renna út og skal í upphafi lögð mest áhersla á Gjábakkasvæðið. – Deiliskipulag kveði á um atriði sem lúta að ásýnd, gróðurfari og aðgengi að því marki sem nauðsynlegt er til að verja hagsmuni þjóðgarðsins.‟
Athugasemdir um sumarbústaði vegna heimsminjaskrár
Í tillögum Alþjóðaráðs um minnisvarða og sögustaði (ICOMOS) frá í mars 2004 vegna umsóknar Íslands um að Þingvellir verði settir á heimsminjaskrá UNESCO segir um sumarbústaði:
- „Sumarbústaðir í þjóðgarðinum spilla mjög útsýni og geta jafnframt haft slæm umhverfisáhrif, enda þótt svo virðist sem viðeigandi reglum sé fylgt samkvæmt leigusamningum. Þeir bústaðir sem standa við vatnið geta auk þess verið varasamir fyrir hið viðkvæma lífríki vatnsins og þar virðist eftirlit ekki eins mikið. – Æskilegt væri að leigusamningar væru ekki endurnýjaðir í þjóðgarðinum þegar þeir renna út
(enda þótt slíkt kunni að hafa fjárhagsleg áhrif). Enn fremur þarf að hafa strangara eftirlit með þeim bústöðum utan þjóðgarðsins sem geta haft áhrif á vatnið innan þjóðgarðsins. Æskilegt væri að vatnið yrði allt hluti af hlutlausa svæðinu til að hægt væri að fylgjast betur með frárennsli í það.‟
Þingvallanefnd virðir ekki stefnumörkun um þjóðgarðinn
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið vekur það furðu að Þingvallanefnd skuli nú nýverið hafa framlengt leigusamninga um sumarbústaðalóðir í þjóðgarðinum um 10 ár, þ.e. til ársloka 2021.
Á 375. fundi Þingvallanefndar þann 2. febrúar 2010 var skv. fundargerð á heimasíðu nefndarinnar bókað undir lið 5. Lóðarleigusamningar – staða: „Allir lóðarleigusamningar innan þjóðgarðsins runnu út þann 31.12. 2010. Lóðirnar eru 89 og hefur í dag verið gengið frá 68 samningum ... Þingvallanefnd samþykkir að veita þjóðgarðsverði og lögmanni nefndarinnar í samráði við formann heimild til að framlengja þá lóðarleigusamninga sem enn eru ófrágengnir meðan unnið er að samningsgerðinni. Framlengingin nær til 30. júní 2011. Lóðarleigusamningar sem gerðir eru á því tímabili skulu hafa sama gildistíma og aðrir þ.e. til 31. des. 2021.‟
Þessar ákvarðanir Þingvallanefndar eru þeim mun sérkennilegri í ljósi þess að nefndin samþykkti á 372. fundi sínum 10. nóvember 2010 að leita tillagna frá almenningi um nýtingu þjóðgarðsins á Þingvöllum. Er í bókun nefndarinnar 10. nóvember 2010 (372. fundur) gert ráð fyrir að verðlaunahugmyndirnar verði efniviður í mótun heildarfyrirkomulags í þjóðgarðinum á grunni stefnumótunar hans. – Í stað þess að fresta ákvörðunum um framlengingu leigusamninga þar til úrvinnslu úr hugmyndasamkeppni væri lokið gengur nefndin með ofangreindum aðgerðum gegn margsamþykktri og ítrekaðri stefnu sem gerir ráð fyrir að þjóðgarðurinn „neyti forkaupsréttar þegar bústaðir bjóðast til sölu og taki yfir lóðir þegar leigusamningar renna út‟. Þess í stað hefur nefndin nú framlengt um áratug umdeildasta þáttinn í nýtingu þessa „friðlýsta helgistaðar allra Íslendinga‟.
.....................................
4.Framandi gróður víki úr þjóðgarðinum á Þingvöllum
Tillaga
Fjarlægja ber framandi trjágróður og aðrar aðfluttar tegundir úr þjóðgarðinum á Þingvöllum og vinna þarf hraðar að þessu marki en hingað til. Fyrst af öllu þarf að fjarlægja barrviði fram með Almannagjá að vestan, þ.e. úr þinghelgi, svo og Furulund, Norðmannareit, Eyfirðingareit o.fl., og af sumarbústaðalóðum undir Hallinum. Síðan fylgi á eftir samkvæmt áætlun aðrir reitir austar í þjóðgarðslandinu. Þessu starfi verði að fullu lokið áður en kemur að 100 ára afmæli lagasetningar um þjóðgarðinn árið 2028.
Greinargerð:
Margir trjálundir með tegundum af erlendum uppruna raða sér fram með Almannagjá frá Hallinum og norður fyrir þjónustumiðstöð á Leirum. Þess utan er stór slíkur reitur við Skógarkot og fjórir lundir norður og austur af Vellandkötlu, sá stærsti fram með Hrafnagjá.
Í kafla um Vistkerfi í stefnumörkun þjóðgarðsins segir um Framtíðarsýn til 2024 (10.2, s. 20): „Mannanna verk hafa ekki frekari áhrif á vistkerfi Þingvallaþjóðgarðs en þegar er orðið enda er þess vandlega gætt í skipulagi og framkvæmdum. Aðfluttum tegundum er haldið fjarri nema um sé að ræða vistkerfisbreytingar á landsvísu og fyrri inngrip hafa að nokkru verið leiðrétt, einkum í þinghelginni þar sem gróður er færður í horf fyrri alda gagngert vegna hlutverks þinghelginnar sem sögusviðs og vegna verndunar fornminja.‟
Í þætti 10.3 Meginmarkmið segir síðan (s. 20):
„Gróður sem ekki er upprunninn á Þingvöllum verði fjarlægður úr þinghelginni, s.s. barrtré og aspir og á þeim stöðum öðrum þar sem slíkur gróður er nærri markverðum menningarminjum. Umhirða og grisjun barrtrjáa á öðrum svæðum miði að því að náttúrulegur gróður fái notið sín.‟
Í umfjöllun og mati Alþjóðaráðs um minnisvarða og sögustaði (ICOMOS) vegna umsóknar Íslands um að Þingvellir verði settir á heimsminjaskrá er ítrekað fjallað um skógrækt, m.a. í kafla um áhættugreiningu.
Lokatillaga ICOMOS um skógrækt er svohljóðandi: „Gera þarf áætlun um að fjarlægja barrtré sem ekki eru upprunaleg hvarvetna í þjóðgarðinum og setja niður náttúrulegar tegundir í stað þeirra, eftir því sem við á.‟
Barrtré eru víða farin að sá sér í allmiklum mæli út frá þeim lundum sem fyrir eru og í grennd sumarbústaða innan þjóðgarðsins. Þannig er í gangi þróun sem gengur þvert á ofangreinda stefnumörkun og tillögur. Sýnir það hversu brýnt er að bregðast við.
.............................................
5. Vistvænar samgöngur í Þingvallaþjóðgarði og grennd
Tillaga
a) Í Þingvallaþjóðgarði verði byggt upp kerfi vistvænna almenningssamgangna í samvinnu við rannsóknastofnanir og fyrirtæki sem sérhæfa sig í sölu og/eða rekstri almenningsvagna, rafbíla og bíla sem knúðir eru vistvænu eldsneyti. – Út frá fræðslumiðstöð við Hakið og þjónustumiðstöð á Leirum gangi almenningsvagnar á vegum þjóðgarðsins með stuttu millibili til helstu staða sem aðdráttarafl hafa innan hans, s.s. að Þinghelgi (Neðri-Vellir) og Þingvallabæ. Einnig verði ekinn hringur austur með vatni framhjá Vatnskoti og Vatnsvík (Vellankötlu) að Gjábakka og til baka eftir þjóðvegi um Þingvallahraun. Byggt á reynslu mætti bæta við slíkum ferðum almenningsvagna inn í Bolabás og norður að Meyjarsæti svo og um Kárastaði niður í Kárastaðanes. Þaðan gæti fólk gengið um Hallinn eftir svonefndum Valhallarstíg norður í þinghelgina.
b) Vistvænn Þingvallahringur. Víðtækara þróunarverkefni væru vistvænar almenningssamgöngur um Þingvallahring, frá Reykjavík um Mosfellsheiði til Þingvalla og síðan suður með Þingvallavatni að austan um Ljósafossstöð (vatnsafl) og til Nesjavalla (jarðvarmi) og áfram hitaveituveg til Reykjavíkur. Slíkar dagsferðir mætti tengja við skoðun á Þingvöllum, í Ljósafossstöð og Nesjavallavirkjun, m.a. með viðkomu á fróðlegum sýningum sem þar eru á vegum Orkuveitu Reykjavíkur.
c) Gullni hringurinn vistvæni. Stærra verkefni væri síðan að byggja upp vistvænar almenningssamgöngur á Gullna hringnum um Þingvelli, Geysi, Gullfoss og Hveragerði.
Greinargerð
Meira en helmingur erlendra gesta sem til Íslands koma heimsækir Þingvelli, og margir þeirra fara að Gullfossi og Geysi í sömu ferð.
Í stefnumörkun og framtíðarsýn þjóðgarðsins til 2024 segir (8.2, s. 17). „Bílvegir og bílastæði eru fullnægjandi til að taka við gestum á öruggann og skilvirkan hátt en áhersla er lögð á að gott kerfi stíga leiði gesti fótgangandi milli helstu staða ... Bílaumferð er að mestu haldið utan viðkvæmustu staðanna, s.s. þinghelginnar og umferð vélknúinna ökutækja á stígum og og troðningum er bönnuð. Vega- og stígakerfi er þannig úr garði gert að það sé sem minnst áberandi og tryggi hljóðlátt og öruggt flæði gesta.‟
Um meginmarkmið segir (8.3, s. 17):
„Samþykkt verði deiliskipulag fyrir þjóðgarðinn allan þar sem fyrirskrifað er að akstur bíla spilli ekki yfirbragði og kyrrð þjóðgarðsins en stígakerfið gegni þeim mun meira hlutverki. Bílastæði verði höfð á jöðrum viðkvæmra svæða en að takmörkuðu leyti innan þeirra, einkum til skammtímadvalar og fyrir hreyfihamlaða. Eitt af markmiðum stígakerfisins er að dreifa fólki og þar með álagi um þjóðgarðinn. Til að þetta takist er nauðsynlegt að allar leiðir séu vel merktar og skýr grein gerð fyrir áhugaverðum áfangastöðum.‟
Stórt skref til að bæta ímynd þjóðgarðsins á Þingvöllum og landsins alls væri stigið með því að koma þar og í grennd þjóðgarðsins á vistvænum almenningssamgöngum eins og hér er lagt til. Í leiðinni gefst tækifæri til að kynna nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem gefur Íslandi sérstöðu í orkuframleiðslu.
......................................
6. Aðstaða í Rauðukusunesi til kynningar og skoðunar á Þingvallavatni
Tillaga
Í Rauðukusunesi (Kárastaðanesi) nálægt mörkum þjóðgarðsins er ákjósanlegur staður til að koma upp aðstöðu til skoðunar og lifandi leiðsagnar á Þingvallavatni. Þar ganga inn í nesið vatnsfylltar gjár sem hentað geta til köfunar og ágæt sýn er þaðan út yfir vatnið. Þarna er kjörið að koma upp og þróa aðstöðu til kynningar á vatninu, ekki síst fyrir skólaæsku, en einnig fyrir áhugamenn um köfun og fyrir vöktunar- og rannsóknaraðila. Auðvelt er að koma þar upp bátanaustum og viðeigandi aðstöðu til siglinga á vélarlausum bátum.
Greinargerð
Í stefnumörkun 2004 til 2024 fyrir þjóðgarðinn segir um náttúrufarslega sérstöðu Þingvallavatns (4.2., s. 9–10):
„Lífríki Þingvallavatns er einstakt á heimsvísu. Í vatninu hafa þróast fjórar gerðir af bleikju auk þess sem þar er að finna einstakan urriðastofn, frægan fyrir langlífi og mikla stærð. Urriðinn sem getur orðið meira en 30 pund, er talinn hafa orðið innlyksa í vatninu skömmu eftir að ísöld lauk og land tók að rísa. – Grábleikja er einstakt afbrigði dvergvaxinnar bleikju sem er að finna í gjánum í þjóðgarðinum og virðist hafa þróast í sprungusveimnum sem liggur um gosbeltið frá suðvesturodda landsins um hálendið og teygir sig að norðausturhorninu. Afbrigðið er þekktast á svæði þjóðgarðsins þar sem gjárnar liggja út í Þingvallavatn. ...
Þingvallavatn er sérstaklega frjótt og gróðursælt þó það sé mjög kalt. Um þriðji hluti botnsins er þakinn gróðri og magn þörunga er mikið. Lággróður nær út á 10 m dýpi en hágróður myndar stór gróðurbelti á 10–30 m dýpi. Alls hafa fundist um 150 tegundir þörunga og háplantna og 50 tegundir smádýra frá fjöruborði og út á mikið dýpi.‟
Ennfremur segir um Þingvallavatn (s. 15):
„Mikilvægt er að raska ekki gróðri og dýralífi í vatninu frekar en orðið er og því skal þess gætt að framkvæmdir hafi ekki þau áhrif. Fylgjast þarf grannt með því að starfsemi á vatninu og innan vatnasviðsins valdi ekki mengun. ... Í samráði við veiðifélag verði mótaðar reglur um veiðiaðferðir í Þingvallavatni. Einnig að heimiluð verði sigling vélarlausra báta á vatninu innan þjóðgarðsins. Fundinn verði heppilegur staður fyrir bátanaust þar sem birtar eru reglur um veiði, siglingaleiðir og öryggisbúnað. ... Áhersla verði lögð á að kynna lífríki vatnsins fyrir gestum á áhugaverðan hátt með því að bjóða þeim að skyggnast undir yfirborðið með ýmsum ráðum.‟ (s. 15–16)
Og um framtíðarsýn varðandi þjóðgarðinn til ársins 2024 segir (s. 21):
„Á tilteknum stöðum er búið sérstaklega í haginn fyrir skólanema sem vilja skoða lífverur í vatninu, gróður á landi eða fugla í tengslum við nám sitt. ... Lögð er áhersla á fræðslu, t.d. með lifandi leiðsögn, um þá málaflokka sem eru einstakir fyrir Þingvallasvæðið, fornminjar og menningarsögu, jarðfræði og lífríki vatnsins.‟
Vegur liggur frá þjóðvegi hjá Kárastöðum niður í Rauðukusunes. Frá ofanverðu nesinu er auðveld gönguleið um Hallinn skammt ofan vatns og núverandi sumarbústaða norður í þinghelgina. Á þeirri leið er auðvelt að skyggnast niður í Hrútagjá, Lambagjá og Hestagjá sem taka þar við ein af annarri í framhaldi af Almannagjá.
Með því að koma upp aðstöðu í Rauðukusunesi til kynningar og skoðunar á Þingvallavatni fæst æskileg dreifing á álagi og umferð gesta um þjóðgarðinn og ný sýn opnast til svæðis sem hefur að mestu verið hornreka til þessa.
..........
7. Fornleifaskráning, rannsóknir og fornleifavernd á Þingvöllum
Tillaga
Skráningu fornleifa í Þingvallaþjóðgarði verði lokið hið fyrsta og gefið út um þær aðgengilegt kynningarrit. Jafnframt verði gerð áætlun um eftirlit og vörslu fornminja og fornminjasvæða í þjóðgarðinum sem og um æskilegar rannsóknir til að varpa frekara ljósi á sögu þinghalds og búsetu á Þingvöllum.
Greinargerð
Staða fornleifa og menningarlandslags samkvæmt Stefnumörkun 2004 til 2024.
14.1 Núverandi staða (s. 24)
„Ekki er til fullkomin skrá yfir allar þekktar fornleifar í Þingvallaþjóðgarði með staðsetningu, mælingum og lýsingu. Hugsanlegt er að einhverjar fornleifar liggi undir skemmdum, t.d. vegna vatnsrofs í Öxará og aðrar minjar kunna að verða fyrir áhrifum af landsigi við vatnið. Grafið hefur verið á nokkrum stöðum í smáum stíl með mismiklum árangri. Fornleifar er mjög víða að finna innan þjóðgarðsins en einkum innan þinghelginnar og á eyðibýlum í hrauninu.‟
„Fornleifavernd ríkisins ... leggur mikla áherslu á það að á Þingvöllum sé hugsanlega að finna merkustu fornleifar á landinu öllu og því mikilvægt að fara að öllu með gát.‟
„Fjárveitingar til fornleifarannsókna á Þingvöllum hafa verið með ýmsum hætti, t.d. á vegum Þingvallanefndar, Þjóðminjasafns og Kristnihátíðasjóðs. Ekki hefur verið skýr stefna um forgangsröðun í slíkum rannsóknum og umfjöllun um verkáætlanir er ekki í föstum skorðum.‟
14.3 Meginmarkmið (s. 25)
„Ítarleg skráning allra fornminja innan þjóðgarsðsins ásamt mati á ástandi og þörf fyrir viðhald og eftirlit. Forgangsröðun aðgerða til verndar þeim minjum sem kunna að liggja undir skemmdum. ... Áætlun um eftirlit og viðhald fornminja og fornminjasvæða í samstarfi við Fornleifavernd. Áætlun um varnaraðgerðir ef fornminjar eru taldar liggja undir skemmdum. Viðmiðanir um ásýnd fornminjasvæða t.d. varðandi gróðurþekju og nálæg mannvirki.‟
15.2. Framtíðarsýn til 2024.
„... Grunnur skipulegrar verndunar og umhirðu er ítarleg skráning fornleifanna.‟ (s. 25)
Hingað til hefur engin heildstæð fornleifaskrá verið til yfir Þingvallaþjóðgarð og drög sem tekin höfðu verið saman um 1990 hafa ekki verið gefin út. Opinberar stofnanir (Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafn Íslands) vísa hver á aðra um þessi efni en brýnt er að verkaskipting þeirra á milli verði skýr. – Samræmi virðist vanta í beitingu og túlkun ákvæða um verndun fornleifa í þjóðgarðinum samkvæmt þjóðminjalögum annars vegar (friðlýsing MÞ 1927) og samkvæmt almennum ákvæðum í lögum um þjóðgarðinn frá 1928 með síðari breytingum.
Síðastliðin tvö ár hefur verið unnið að fornleifaskráningu á vettvangi (Margrét Hrönn Hallmundsdóttir) innan þjóðgarðsins, m.a. fram með strönd Þingvallavatns og á eyðibýlum í þjóðgarðinum. Brýnt er að því verki verði fram haldið og lokið og niðurstöðum komið á framfæri við almenning á aðgengilegan hátt.
.................................
8. Þingvallaþjóðgarður endurspegli opna stjórnsýslu og upplýsingagjöf
Þingvellir og grenndin þar eru lögum samkvæmt friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Jafnframt hefur staðurinn að ósk íslenskra stjórnvalda verið settur á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).
Stjórnsýsla og umfjöllun um slíkan helgistað þarf að taka mið af þessu og vera til fyrirmyndar. Svo hefur ekki verið lengst af í sögu þjóðgarðsins og vantar því mikið á að forsendur ákvarðana á fyrri tíð séu lýðum ljósar. Frá haustinu 2009 hefur Þingvallanefnd hins vegar birt fundargerðir sínar á heimasíðu þjóðgarðsins.
Eðlilegt verður að teljast að sem fyrst verði birtar á Netinu fundargjörðir nefndarinnar frá upphafi og helstu fylgiskjöl sem þeim tengjast.
Framvegis verði síðan skjölum í vörslu Þingvallanefndar skilað til Þjóðskjalasafns lögum samkvæmt, þ.e. öllum skjölum 30 ára og eldri, og þau gerð þar aðgengileg eftir reglum sem gilda um opinber gögn.
Mynd á næstu síðu sótt í ritgerð Kristjáns Sæmundssonar: Geology of the Thingvallavatn area. Birtist í Ecology of oligothrophic, subarctic Thingvallavatn. Editor Pétur M. Jónasson. OIKOS 1992, s. 46.
Hjörleifur Guttormsson |