Hjörleifur Guttormsson 22. apríl 2011

Schengen aðild Íslands var misráðin

Tíu ár eru liðin frá því Schengen-samningurinn um afnám persónueftirlits á sameiginlegum landamærum Evrópusambandsins, Íslands og Noregs öðlaðist gildi. Ekki hafa íslensk stjórnvöld minnst þessara tímamóta svo ég hafi tekið eftir, þó ekki væri nema með því að meta reynsluna af þessum viðamikla og kostnaðarsama samningi. Það er frekar að hans sé nú getið vegna atburða á meginlandinu í kjölfar vaxandi straums flóttamanna frá Norður-Afríku og deilna milli Schengen-ríkja hvernig við skuli brugðist. Hér verða rifjuð upp nokkur atriði um Schengen um leið og skorað er á íslensk stjórnvöld að gera hið fyrsta rækilega úttekt á reynslunni af aðild Íslands að samningnum.

Fimm ára þóf 1995–1999

Schengen-samstarfið um afnám vegabréfaeftirlits hófst 1985 með yfirlýsingu 5 Evrópusambandsríkja og tíu árum síðar voru 10 ESB-ríki orðin þátttakendur. Um það leyti höfðu Svíar og Finnar gerst aðilar að ESB og þá var staðhæft að Norræna vegabréfasambandið frá 6. áratugnum heyrði brátt sögunni til. Samstarfssamningur var undirritaður í árslok 1996 milli Íslands, Noregs og þáverandi Schengen-ríkja en með Ansterdamsáttmála ESB 1997 voru meginreglur samningsins færðar undir lögsögu Evrópusambandsins og þar með orðnar yfirþjóðlegar. Þá var enn sest að samningaborði og fundnar krókaleiðir til að Ísland og Noregur gætu haldið áfram þáttöku sem viðhengi. Samningur aðila var undirritaður vorið 1999 en öðlaðist ekki gildi hvað Ísland varðaði fyrr en eftir breytingar á flugstöðinni í Keflavík 25. mars 2001.

Falsrök notuð sem tálbeita

Sjaldan hefur verið beitt jafnmiklum blekkingum við gerð aðþjóðasamnings eins og í þessu tilviki. Íslendingum var talin trú um að með aðild að Schengen losnuðu þeir undan þeirri kvöð að þurfa að sýna vegabréf í ferðum til meginlands Evrópu, annars konar persónuskilríki myndu duga ef eftir væri spurt. Þennan spuna tóku margir trúanlegan þar til hið nýja fyrirkomulag brast á. Alla götu síðan hafa menn verið krafðir um íslenskt vegabréf á Keflavíkurflugvelli, jafnt við innritun sem og við vegabréfaskoðun, hvert svo sem förinni er heitið. Í opinberu kynningarriti utanríkis- og dómsmálaráðuneytis um Schengen var eftir að aðild lá fyrir skýrt tekið fram: „Vegabréfin alltaf meðferðis!“, upphrópunarmerkið sett af ráðuneytunum sem keyrðu samninginn í gegn. – Þagað var sem fastast um þá staðreynd að ekki þarf að sýna vegabréf nema einu sinni við innkomu á Schengen-svæði og síðan ekki söguna meir. Með Schengen aðild tók Ísland einnig að sér að gæta ytri landamæra Evrópusambandsins, m.a. gagnvart ferðamönnum frá Norður-Ameríku.

Glæpagengi hafa frjálsa för

Önnur aðalröksemd íslenskra stjórnvalda í aðdraganda Schengen-aðildar var að með henni væri verið að styrkja baráttuna gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi. Í stað vegabréfaeftirlits fengju lögregluyfirvöld aðgang að Schengen upplýsingakerfinu (SIS), viðamiklu miðlægu tölvuskráningarkerfi um hættulega eða óæskilega einstaklinga. Á bak við það er fólgin svonefnd SIRENE-skrifstofa með gagnabanka fyrir lögregluyfirvöld. Þetta kerfi kemur hins vegar fyrir lítið eftir að inn á Schengen-svæðið er komið þar sem víðtæk og þaulskipulögð glæpastarfsemi blómstrar og erindrekar hennar rása um ótruflaðir af eftirliti á landamærum. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af skipulögðum þjófagengjum erlendis frá sem treyst geta á  frjálsa för yfir landamæri. Áður höfðu íslensk lögregluyfirvöld byggt upp alþjóðlegt samstarf, m.a. við Interpol, þannig að því fór fjarri að Schengenaðild þyrfti að koma til af þessum sökum.

Fíkniefnaeftirlit erfiðara en áður

Ýmsir vöruðu við því í aðdraganda Schengen-aðildar Íslands að með henni yrði erfiðara um eftirlit með innflutningi fíkniefna, þrátt fyrir það að tolleftirliti yrði áfram haldið uppi. Sem þingmaður flutti ég  ítrekað tillögur um úttekt á þessum þætti málsins en þær fengust ekki samþykktar þrátt fyrir jákvæðar undirtektir frá lögreglustjóraembættum og Tollvarðafélagi Íslands. Í umsögn til Alþingis um tillögu mína og Kristínar Ástgeirsdóttur haustið 1998 sagði lögreglustjórinn í Reykjavík m.a. um Schengenaðildina: „Með því verður tolleftirliti ekki haldið uppi með sama hætti og áður, meðal annars leit að fíkniefnum“. Tollvarðafélagið taldi að niðurstaða úttektar á þessum þætti einum ætti að ráða úrslitum um aðild. Þrátt fyrir þetta fékkst tillaga okkar ekki samþykkt.

Endurmeta ætti afstöðuna til Schengen

Í tilefni tíu ára reynslu af Schengenaðild ættu stjórnvöld með Alþingi í fararbroddi að beita sér fyrir allsherjarúttekt á kostum og göllum sem fylgt hafa þátttöku Íslands í þessu samstarfi. Liður í slíkri úttekt  væri að draga fram kostnað af Schengenaðild á þessu tímabili, þar á meðal vegna breytinga á flugstöðinni í Keflavík og reksturs stuðningskerfa SIS og SIRENE. Mestu skipta þó öryggisþættir er snúa að alþjóðlegri glæpastarfsemi að innflutningi fíkniefna meðtöldum. Sem eyland hefur Ísland margháttaða sérstöðu er snýr að samskiptum okkar við aðrar þjóðir. Kosti þessarar landfræðilegu stöðu þarf að meta fordómalaust og á raunsæjan hátt.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim