Hjörleifur Guttormsson 25. mars 2011

Er Ísland orðið aðili að herleiðangrinum í Líbíu?

Byltingarnar í Arabalöndum eru að draga óvæntan dilk á eftir sér. Ákefð forystumanna gömlu nýlenduveldanna, Bretlands og Frakklands, að sýna tennurnar og slá sig til riddara hafa á einni viku leitt til þess að Atlantshafsbandalagið er að gerast ábyrgt í átökum sem ekki sér fyrir endann á. Umdeild og loðin samþykkt í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna 17. mars um flugbann yfir Líbíu var knúin fram undir yfirskyni mannúðar en forystumenn Vesturveldanna sem að henni stóðu höfðu greinilega víðtækari markmið í huga, þ.e. að afhausa Gaddafi með svipuðum hætti og Saddam Hussein. Breskir ráðherrar með Cameron og Hague í fararbroddi útiloka ekki að íhlutunin beinist að því að koma Gaddafi frá völdum og tundurskeyti í húsagarð einvaldsins talar sínu máli. Nick Harvey varnarmálaráðherra Breta hefur aðspurður ekki útilokað hernaðaríhlutun á landi. Bandaríkin hafa verið feimin við að taka undir þessi markmið og lagt áherslu á að losna sjálf við að bera meginábyrgð á hernaðinum. Þetta hefur nú leitt til þess að NATÓ hefur verið falin forysta aðgerðanna, þó með semingi að því er varðar frumkvöðlana Breta og Frakka.

Tvöfeldni við hvert fótmál

Óðagotið í Líbíu undir merkjum lýðræðisástar og varðstöðu um óbreytta borgara er ekki traustvekjandi. Á sama tíma og stýriflaugarnar eru látnar tala yfir Líbíu þegir Bandaríkjastjórn þunnu hljóði yfir valdbeitingu gegn óbreyttum borgurum í Jemen og innrás hers Sádí Arabíu inn í Bahrein eftir að einvaldurinn þar hefur brugðist við vopnlausum andófsmönnum með skothríð sem kostaði tugi mannslífa. Og hver halda menn að verði viðbrögð Vesturveldanna og NATÓ ef til tíðinda dregur í Sádí Arabíu gegn þarlendum einvaldi sem heldur utan um meginslagæð olíuvinnslu í heiminum? Spurningum um markmiðin með hernaðinum í Líbíu fer fjölgandi dag frá degi og til hvers hann muni leiða í víðara samhengi. Uppreisnin í Arabalöndum er á byrjunarstigi og hernaðaríhlutun undir merkjum NATÓ í Líbíu getur orðið upphafið að stigmagnaðri spennu milli Evrópu og Arabaheimsins sem ekki er á bætandi. Það er eins og valdsmönnum á Vesturlöndum sé fyrirmunað að draga lærdóma af Írakstríðinu. Í bakgrunni núverandi ástands eru síðan óleystar deilur Ísraels og Palestínumanna sem farið geta úr böndunum fyrr en varir.

Hver er afstaða íslenskra stjórnvalda?

Í Fréttablaðinu 21. mars sl. segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra: „Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt formlega stuðning við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og styðja aðgerðir sem byggja á þeim grunni og miða að því að koma í veg fyrir grimmdarfullar ofbeldisaðgerðir harðstjórans Gaddafí gegn almenningi.“ Um sama leyti boðaði Össur að íslensk lofthelgi yrði opnuð fyrir hernaðarflugi vegna aðgerða í Líbíu ef þess yrði óskað. Gera íslensk stjórnvöld sér ekki grein fyrir að Vesturveldin sem farið hafa fyrir hernaðaraðgerðunum undanfarna daga teygja og toga samþykkt Öryggisráðsins eftir eigin hentugleikum. Nú er málið komið á nýtt stig eftir að Atlantshafsbandalagið hefur tekið að sér yfirstjórn hernaðarins. Þar með snýr framhaldið með beinum hætti að Íslandi sem NATÓ-ríki. Margir hljóta að spyrja hvort íslensk stjórnvöld hafi innan NATÓ fallist á beina aðild hernaðarbandalagsins að málinu og taki þannig á sig ábyrgð af aðgerðum þess. Og ekki sakar að upplýst verði hver sé afstaða forystumanna VG í þessu máli sem aðila að ríkisstjórn.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim