Hjörleifur Guttormsson 26. febrúar 2011

Náttúruvernd og orkustefna í deiglunni

Breyting á náttúruverndarlögum

Á vegum stjórnvalda er verið að undirbúa breytingar á lögum um náttúruvernd, nánar tiltekið þremur þáttum þeirrar löggjafar sem varða

  • akstur utan vega og á vegslóðum,
  • sérstaka vernd ýmissa náttúrufyrirbæra og
  • innflutning og dreifingu framandi lífvera.

Allt eru þetta mikilsverð mál sem lengi hafa verið til umræðu. Ég hafði á sínum tíma frumkvæði að lagasetningu um tvo síðarnefndu þættina og þeir urðu hluti af endurskoðuðum náttúruverndarlögum árið 1999. Reynslan sýnir um alla þessa þætti að þörf er að kveða fastar á um þá í lögum. Umsögn mína um drög að fyrirhuguðum lagabreytingum má lesa í meðfylgjandi skjali.

Umsögn um orkustefnu

Að mótun heildstæðrar orkustefnu vinnur stýrihópur á vegum iðnaðarráðherra með fótfestu í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar. Hópurinn kynnti drög sín að stefnumótun nýlega og leitaði eftir viðbrögðum. Hér er um að ræða afar mikilsvert mál sem miklu skiptir að fái farsæla niðurstöðu. Um fá efni hefur verið tekist harðar á hérlendis síðustu hálfa öld en orkumálin og nýtingu orkunnar, enda snerta þau mörg svið svo sem náttúruvernd, atvinnuþróun og efnahagsmál. Undirritaður hefur haft afskipti af orkumálum í fjóra áratugi og átti m.a. hlut að stefnumótun þar að lútandi á áttunda áratug liðinnar aldar.

Ég tel margt jákvætt í þeim hugmyndum sem fram koma í drögum stýrihópsins en hef í umsögn minni bætt ýmsu við sem þar vantar og gert athugasemdir við aðra þætti. Umsögn mín er tvíþætt og þeir sem vilja kynna sér hana geta ýtt á meðfylgjandi:  Umsögn og framhaldsumsögn.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim