Hjörleifur Guttormsson | 27. júní 2011 |
Samningaviðræður við ESB á brauðfótum Þann 16. júlí næstkomandi verða tvö ár liðin frá einum dapurlegasta degi í sögu Alþingis á lýðveldistímanum þegar naumur meirihluti þingmanna samþykkti ályktun þess efnis að sótt skyldi um aðild að Evrópusambandinu, sumir að því er virtist þvert á eigin vilja og samvisku. Þessa dagana eru að hefjast formlegar samningaviðræður en hálft annað ár hefur farið í að undirbúa þær. Landslagið er gjörbreytt frá því sem var fyrir tveimur árum. Meirihluti þjóðarinnar er sem fyrr andvígur aðild að ESB, sé litið á skoðanakannana. Annar stjórnarflokkurinn, VG, er samkvæmt stefnuskrá og margítrekuðum flokkssamþykktum andvígur aðild að ESB og andstaðan við aðild er nú einnig yfirgnæfandi hjá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Evrópusambandið, sem umsókninni er beint til, er í dýpstu kreppu frá stofnun sinni og algjör óvissa er um hvernig sambandinu tekst að vinna sig út úr vandræðunum. Við þessar aðstæður eru aðildarviðræður af Íslands hálfu út í hött og umsóknina ætti því að draga til baka hið skjótasta. Pólitísk blinda Samfylkingarinnar og ístöðuleysi forystu VG ræður því hins vegar að áfram er haldið og í þennan leiðangur varið ómældum fjárupphæðum, auk gífurlegs álags á íslenska stjórnkerfið. Framtíð ESB í mikilli óvissu Evrópusambandið er engin kjörbúð sem umsóknarríki gengur inn í til að moða úr ákvæðum sem felast í samþykktum ESB og þeim grundvelli sem það starfar eftir. Það er því blekking sem stuðningsmenn aðildar halda á lofti að með aðildarviðræðum verði eitthvað nýtt og ófyrirséð leitt í ljós. Svigrúm framkvæmdastjórnar ESB til frávika getur helst varðað gildistökutíma einstakra samningsákvæða, en sé um efnislega þætti að ræða sem varða frávik frá grundvallarreglum þarf til að koma samþykki allra aðildarríkjanna 27 talsins. Þetta fengu Norðmenn ítrekað að reyna í samningaviðræðum við sambandið, m.a. á sjávarútvegssviði. Óvissan er hins vegar mikil þegar kemur að framtíð ESB, þar sem háværar kröfur eru nú uppi um að koma á nýjum samræmdum og bindandi reglum, ekki síst um fjárhagsmálefni aðildarríkja og stíga þannig stór skref til frekari samruna. Úrskurðir dómstóls ESB geta líka hvenær sem er breytt lagagrundvelli sambandsins, eins og ítrekað hefur gerst, m.a. á sviði vinnuréttar samtökum launafólks í óhag. Eðlilegt væri að margir þeir sem töldu rétt að sækja um aðild að ESB fyrir tveimur árum endurskoði afstöðu sína í ljósi breyttra aðstæðna. VG kemst ekki hjá uppgjöri Stjórnmálaflokkar hérlendis eiga í vök að verjast gagnvart almenningsálitinu, m.a. vegna þess að orð og efndir eiga oft ekki samleið. VG hefur í ríkisstjórnarsamstarfi við Samfylkinguna goldið dýru verði undansláttinn frá stefnu sinni og kosningaloforðum varðandi ESB. Nú reynir á flokkinn fyrir alvöru í komandi samningaviðræðum þar sem ekki verður undan því vikist að taka afstöðu lið fyrir lið. Mótun samningsmarkmiða á einstökum sviðum er pólitískt viðfangsefni sem ekki verður leyst af svonefndri faglegri viðræðunefnd ríkisstjórnarinnar. Þar hljóta stjórnarflokkarnir og einstök ráðuneyti að koma að málum á hverju stigi viðræðna. Jafnframt hefur verið heitið opnu og gagnsæju ferli og reglubundinni upplýsingagjöf til almennings og hagsmunaaðila. Svigrúm VG til undansláttar frá eigin samþykktum og forskrift utanríkismálanefndar Alþingis er ekki til staðar. Því verður að teljast afar ólíklegt að til verði á næstu árum aðildarsamningur Íslands og ESB. Aðdragandi þjóðaratkvæðis Ályktun Alþingis um aðildarumsókn fyrir tveimur árum gerði ráð fyrir „þjóðaratkvæðagreiðslu um væntanlegan aðildarsamning.‟ Sumir hafa viljað túlka það svo að niðurstaða samningaviðræðna í formi samnings renni rakleitt í þjóðaratkvæði án frekari milligöngu þingsins. Í athugasemdum með þingsályktuninni frá 16. júlí 2009 segir hins vegar: „Málsaðilar áskilja sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir ...‟. Jafnframt setti Alþingi með hliðsjón af aðildarumsókninni sérstök lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna (nr. 91/2010). Þau gera ráð fyrir að Alþingi álykti um slík mál hverju sinni og til þess þarf auðvitað meirihlutastuðning við tillögu þar að lútandi. Fari svo að óbreyttu stjórnarsamstarfi að samningur takist milli milli Íslands og Evrópusambandsins kemst VG ekki undan því að bera á honum fulla pólitíska ábyrgð. Hvernig það gæti gerst að óbreyttri stefnu flokksins þess efnis, að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins, er vart á annarra færi en lækna sem þekkja vel til geðklofa að útskýra. Hjörleifur Guttormsson |