Hjörleifur Guttormsson 28. október 2011

Ræða flutt á landsfundi VG

Fundarstjóri. Góðir félagar
VG hefur nú verið í ríkisstjórn síðan í febrúar 2009. Margt hefur gerst á þeim tíma, sumt jákvætt og þakkavert, annað neikvætt og andstætt stefnu flokks okkar. Í þessari umræðu leyfir ekki ræðutími að farið sé vítt yfir sviðið svo sem vert væri. Ég mun því einvörðungu staldra við það mál sem er langstærst í mínum huga þar sem er aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Framvinda og úrslit þess máls mun verða ráðandi um stöðu Íslands í veröldinni um langa framtíð. Flest annað í okkar þjóðlífi mun markast af þeirri niðurstöðu.

Opinber stefna VG er að hag Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Samt réð flokksforysta og meirihluti  þingmanna VG úrslitum um að sótt var um aðild. Engin frambærileg rök voru fyrir þeirri ákvörðun og með því afdrifaríka skrefi tapaði flokkur okkar því sem mest er um vert, þ.e. að standa við stefnu sína í meginmáli. Við okkur blasir sú spurning hvernig megi lágmarka tjónið.

Staðan hvað þetta ólukkumál varðar er að mínu mati þessi:

Ísland lagði inn aðildarumsókn 2009 sem enginn raunverulegur pólitískur  meirihlutavilji var fyrir, hvað þá nú um stundir. Aðildarumsóknin var byggð á þeirri blekkingu að með henni væri verið að kíkja í pakka, þar sem innihaldið liggur þó opið fyrir hverjum sem nennir að kynna sér grundvöll og reglur Evrópusambandsins.

Verið er nú að undirbúa fyrirfram aðlögun íslensks lagaumhverfis og stofnana að tilskipunum ESB. Í því skyni er gert ráð fyrir að Ísland taki við mörg hundruð milljóna fjárveitingum frá ESB, þar á meðal eru ráðuneyti undir forræði VG. Þetta er gert þrátt fyrir yfirlýsingar og samþykktir um hið gagnstæða á fyrri stigum.

Í stað þess að skerpa á andstöðu VG gegn aðild með málefnalegu og upplýsandi starfi á vegum flokksins hefur lítið farið fyrir slíku hingað til. Á sama tíma heldur ESB hér uppi öflugu áróðursstarfi. Þetta er ójafn leikur, köttur í leik að mús. Framundan er jarðsprengjusvæði í viðræðuferlinu, m.a. þegar kemur að sjávarútvegi og landbúnaði. Á sama tíma er látið að því liggja að samningaferlið hafi sinn gang og niðurstaða í því muni leiða til samnings sem fari á færibandi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er afar varhugavert að ala á væntingum um þjóðaratkvæðagreiðslu um samning sem vonandi verður aldrei gerður.

Spurning sem svara þarf á þessum fundi er hvort forysta VG, ráðherrar og þingflokkur, sé þrátt fyrir stefnu flokksins gegn aðild, að búa sig undir að skrifa upp á samningsniðurstöðu við ESB ásamt Samfylkingunni? Eða: Mun forysta VG ásamt með sínum  ábyrgðaraðilum í viðræðuferlinu sjá til þess að ekki verði látið undan óaðgengilegum kröfum ESB þannig að viðræðum verði sjálfhætt? Nóg er af augljósum ásteytingsefnum í regluverki ESB þar sem Ísland verður knúið svara.

Rætt er um það á stjórnarheimilinu að hraða viðræðuferlinu og þá með augun á klukkunni og alþingiskosningum eftir hálft annað ár. Segjum svo að það takist og að rubba upp samningsdrögum. Eftir stendur þá spurningin: Ætlar VG að skrifa undir þau með Samfylkingunni þannig að málið fari síðan í þjóðaratkvæði? Tilhögun og tímasetning slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er svo mál út af fyrir sig. Í öllu falli þyrftu öll ESB-ríki og ráðherraráð að vera búin að gera upp sinn hug til aðildarsamnings við Ísland áður en til hennar kæmi.

Hitt er að mínu mati næsta víst að viðræðuferlinu verður ekki lokið þegar að alþingiskosningum kemur, hvað þá umfjöllun af hálfu ESB. Hverju ætlar VG þá að svara til um framhaldið eftir kosningar í aðdraganda þess m.a. að önnur ríkisstjórn tæki við? Verði ekki grundvallarbreyting á afstöðu og viðbrögðum flokks okkar gagnvart viðræðuferlinu mun VG standa uppi sem tvíhöfða þurs, og flokkurinn rúinn trausti.

Það er mál til komið að Vinstrihreyfingin grænt framboð horfi raunsætt á þessa stöðu og þá ábyrgð sem á flokki okkar hvílir í stærsta máli sem að þjóðinni hefur borið frá því fullveldi var náð 1918.

Góðir félagar. Nuddum stírurnar úr augum og lítum á efnisatriði þessa máls og það sem í húfi er fyrir alda og óborna.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim