Hjörleifur Guttormsson 30. september 2011

Vítahringur óhafandi efnahagskerfis

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna Ban Ki-moon heimsótti nýlega tvö af aðildarríkjum SÞ, Salómonseyjar og Kiribati í Kyrrahafi. Tilvist þeirra sem þar búa er ógnað af  hækkandi sjávarborði í kjölfar loftslagsbreytinga. Í ræðu í háskólanum í Sydney eftir heimsóknina mælti hann skýr aðvörunarorð, sem fallið hafa í skugga umræðunnar út af harðnandi fjármálakreppu. „Staðreyndirnar eru ljósar: Losun gróðurhúsalofts eykst og milljónir manna þjást af afleiðingum loftslagsbreytinga sem eru í fullum gangi. ... Umfram allt verður að tengja þær saman við aðrar aðsteðjandi áskoranir, eins og vatnsþurrð, orkuskort, heilbrigðismál, fæðuöryggi og þörfina fyrir aukin áhrif kvenna.‟ Hann minnti á að þessa dagana nær íbúatala jarðar sjö milljarða markinu og sjálfbær þróun ætti að vera efst á dagskrá alþjóðasamfélagsins. Í desember verður haldinn í Durban í Suður-Afríku 17. ársfundur ríkja loftslagssamningsins og þar ræðst hvort samkomulag tekst um bindandi samkomulag áður en Kyótóbókunin rennur út í árslok 2012.

Ósjálfbært kerfi

Farsæl skipan efnahagsmála er ein af þremur meginstoðum hugmynda um sjálfbæra þróun. Síðasti áratugur er til marks um að mannkynið er stöðugt að fjarlægjast það markmið að ná tökum á efnahagsþróun og afleiðingum hnattvæðingar fjármagns og framleiðslu. Bilið breikkar stöðugt milli ríkra og fátækra í iðnríkjum og þeim fjölgar ört sem hnepptir eru í fátæktargildru í þróunarlöndum. Blindur markaður og sókn í gróða án nokkurs tillits til afleiðinga ræður för. Ákall ráðamanna er hvarvetna á hagvöxt án tillits til þess hvernig hann er fenginn og niðurstaðan er bóluhagkerfi eins og það sem sprakk í andlit heimsbyggðarinnar með fjármálakreppunni haustið 2008. Henry Paulson fjármálaráðherra Bush-stjórnarinnar, fyrrum æðsti maður hjá Goldman Sachs samsteypunni, mótaði viðbrögðin með því að láta dæla ómældum opinberum fjármunum til bjargar bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum. Nú eru forystumenn Evrópusambandsins í örvæntingu sinni að fara inn á sömu braut. Á mannamáli er þetta að kasta bjarghring til gjaldþrota kerfis á kostnað almennings. Sjálfbær þróun heyrist vart nefnd á nafn þessa dagana, loftslagsmál eru aukaatriði hjá þeim sem ráða för, fólkið á Kiribati má deyja drottni sínum.

Neysla og atvinnustig

Ákallið sem nú hjómar frá valdamönnum austanhafs sem vestan er að ná verði upp hagvexti til að koma í veg fyrir stöðnun, hamla gegn atvinnuleysi og samdrætti í framleiðslustarfsemi.
Engin marktæk viðleitni er til að draga lærdóma af hruninu 2008 eða taka ríkjandi efnahagskerfi til endurskoðunar frá grunni, meðal annars að greina á milli sjálfbærrar og ósjálfbærrar starfsemi. Hin hagsýna húsmóðir á ekki upp á pallborðið í slíku kerfi, hvað þá að tillit sé tekið til umhverfisáhrifa og félagslegra þátta. Tekjur hins opinbera hafa í æ ríkari mæli verið tengdar neyslusköttum og samdráttur á neyslu þrengir að tekjuöflun í sameiginlega sjóði og dregur úr samfélagsþjónustu. Atvinnuframboð er síðan önnur hlið á sama teningi, minni eftirspurn ýtir undir samdrátt og atvinnuleysi og félagsleg vandamál sem því fylgir fara vaxandi. Í Evrópusambandinu er alvarlegust staðan meðal ungs fólks, þar sem atvinnuleysi 25 ára og yngri er tvöfalt hærra en heildarmeðaltal, t.d. yfir 40% á Spáni þar sem ástandið er verst.

Evrópusamband í uppnámi

Ekki er langt síðan reynt var að draga upp þá mynd af Evrópusambandinu að þar hefðu menn fundið lykilinn að farsælli framtíð með stöðugleika, félagslegt réttlæti og umhverfisvernd að leiðarljósi. Evrópskir sósíaldemókratar gengu á sínum tíma fram fyrir skjöldu að ryðja brautina fyrir „frelsin fjögur‟  þar sem frelsi fjármagnsins var efst á blaði. Jacques Delors var forseti framkvæmdastjórnar ESB 1985–1994 á þeim tíma þegar Maastricht-sáttmálinn var mótaður en með honum og Amsterdam-sáttmálanum 1997 var lagður grunnur að evru-myntsamstarfinu. Nú er Delors í hópi þeirra sem telja Evrópusambandið standa á brún hengiflugs og sér það eitt til ráða að aðildarríkin framselji efnahagslegt fullveldi sitt til Brussel. Sá var líka kjarninn í boðskap núverandi forseta framkvæmdastjórnar ESB, Manuel Barroso, til Evrópuþingsins sl. miðvikudag: Myntbandalaginu verði nú að breyta í efnahagspólitískt bandalag. Jafnframt boðaði hann skatt á fjármagnshreyfingar, en dagurinn var ekki liðinn þegar forsætisráðherra Breta bað hann um að gleyma þeirri tillögu. Eftir mánuð eiga lausnir til bjargar evrunni og heimsbúskapnum að liggja á borðinu. Hætt er við að lítið ráðrúm verði til að tengja þær leiðarvísi um sjálfbæra þróun sem Ban Ki-moon telur brýnasta verkefnið. Atburðir síðustu vikna hafa leitt í ljós að innviðir Evrópusambandsins eru allt aðrir en þeir sem reynt hefur verið að halda að almenningi, hér sem annars staðar. Er það þetta Evrópusamband sem meirihluti Alþingis óskaði eftir aðild að fyrir tveimur árum?



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim