Hjörleifur Guttormsson 30. desember 2011

Háskalegt efnahagskerfi gegn sjálfbærri þróun

Hvað skyldi vera eftirminnilegast úr mannheimi á árinu 2011? Upp í hugann koma atburðir sem minna okkur á takmörk og hættur þess umhverfis sem við hrærumst í. Kjarnorkuslysið í Fukushima varpaði ljósi á áhættusækni manna og virðingarleysi gagnvart náttúruöflunum, kreppan sem tröllríður voldugustu iðnveldum jarðar afhjúpaði sem aldrei fyrr ósjálfbært efnahagskerfi og í Durham mistókst alþjóðasamfélaginu nú í desembermánuði að koma böndum á manngerðar loftslagsbreytingar. Með hverju ári sem líður fjarlægist mannkynið sem heild það markmið að tryggja fjöregg sitt með því að ná tökum á sjálfbærum búskaparháttum. Höfðatala manna sem jörðina byggja fór á árinu yfir sjö milljarða sem er meira en þreföldun á einni öld. Helsta vonin felst í því að aukin þekking á hnattrænum vanda fái menn til þess í tæka tíð að  breyta um kúrs til að komast hjá syndaflóðinu.

Tvísýnt heimsmet Íslendinga

Nýlega hefur verið varpað ljósi á svonefnt vistspor Íslendinga, en það er mælikvarði á hversu mikið af náttúrulegum gæðum er fórnað fyrir neyslu. Niðurstöður benda til að við eigum ótvírætt heimsmet á þessu sviði, margfalt miðað við alræmt meðaltal hjá Bandaríkjamönnum. Meginskýringin er gengdarlaus neysla á innfluttum varningi og gjaldeyrisöflun sem tekur sinn toll af náttúru landsins. Síðasta stóra strikið í þeim reikningi er Kárahnjúkavirkjun. Niðurstaðan um vistspor Íslands virðist koma mörgum á óvart enda hefur því verið haldið á lofti að endurnýjanlegar náttúruauðlindir skapi Íslandi jákvæða sérstöðu. Til að leiðrétta vistsporið er mikið verk að vinna. Í þeim efnum hefur að undanförnu verið unnið að stefnumörkun sem bætt gæti stöðuna ef efndir fylgja orðum. Þar á ég m.a. við hugmyndir um eflingu græns hagkerfis, rammaáætlun um vernd og nýtingu virkjanakosta, sem brátt mun koma til kasta Alþingis, útgáfu hvítbókar til undirbúnings að nýjum lögum um náttúruvernd og tillögur um  orkustefnu til langs tíma. Í öfuga átt stefnir hinsvegar umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu, sem myndi m.a. lama íslenskan landbúnað í stað þess að treysta stoðir innlendrar framleiðslu.
 
Háskalegt efnahagskerfi

Til sjálfbærra lífshátta þarf þrjár meginstoðir: Jákvæða umhverfisstefnu, heilbrigt efnahagslíf og félagsmál með jöfnuð að leiðarljósi. Á alla þessa þætti skortir í alþjóðlegu tilliti og mest hallar á efnahagsþáttinn, sem allur er úr lagi genginn. Þar talar sínu máli  gífurleg skuldasöfnun þjóða sem hingað til hafa verið taldar með þeim best stæðu. Verri er þó staðan ef litið er á sjálfan grundvöll alþjóðlegs efnahagskerfis sem byggir á hagvexti sem haldið er uppi með ósjálfbærri neyslu og sem talin er skilyrði fyrir sæmilegu atvinnustigi. Atvinnuleysi í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum er nú að meðaltali um 10% og nær 23% á Spáni þar sem ástandið er verst. Vonir margra stjórnmálamanna um úrbætur tengjast fyrst og fremst sólund og kaupgleði þeirra betur settu, en lækkun skulda með niðurskurði ríkisframlaga og skattheimtu virkar í öfuga átt. Við þetta bætist síðan síbreikkandi bil milli ríkustu samfélagshópanna og þeirra lakast settu. Í umhverfislegu og félagslegu tilliti er slíkur búskapur fáránleikinn uppmálaður. Dapurlegast er að þrátt fyrir yfirstandandi kreppu ríghalda forystumenn þjóða og ráðandi sérfræðingar í efnahagsmálum í óbreytt kerfi. Það er dæmigert fyrir skammsýnina að í alþjóðlegri umræðu er vart minnst á umhverfisvá þessi misseri en þess í stað snýst flest um að örva ósjálfbæran efnahagsvöxt. Hérlendis hafa forráðamenn í atvinnulífi einblínt á álbræðslur og virkjanir í þeirra þágu og byrjað á öfugum enda eins og nú blasir við í Helguvík. Á tímum sem menn kenna við upplýsingu eru það m.a. fjölmiðlar sem hafa brugðist við að sýna fram á hvert stefnir.

„Örlagaár fyrir Evrópu‟

Sú er fyrirsögn í áramótahefti þýska tímaritsins Die Zeit, sem ekki verður sakað um að fara offari. Umhverfismál eru þar heldur ekki áhyggjuefnið heldur evran sem gjaldmiðill. Þótt þýsk fyrirtæki gangi enn vel eru óveðursský á himni að mati greinarhöfundar. „Síðustu mánuðir hafa sýnt að aðstæður geta breyst skyndilega. Fall í framleiðslu, gjaldþrot eins banka, uppboð þar sem kaupendur bíta ekki á, ríkisgjaldþrot í Grikklandi – allt þetta getur leitt til óðagots. Sé þá ekki nægt fé við höndina til bjargar og til að róa markaðina eru komnar upp aðstæður sem allir óttast, því að í ringulreiðinni geta ríki og bankar farið um koll – og að lokum einnig sameiginlegi gjaldmiðillinn. Á fjármálamörkuðum er fall Evrusvæðisins eitt af því sem talið er geta gerst.‟  
Þessar horfur raska hins vegar ekki ró íslenskra samningamanna um aðild að ESB, sbr. grein í Fréttablaðinu 27. desember sl.: „Enginn þarf að óttast að viðræðurnar einkennist af asa eða óðagoti. Þvert á móti ráða gæði starfsins hraðanum og viðræðum mun ekki ljúka fyrr en góður samningur liggur fyrir.‟ Loksins hughreystandi orð á óvissutímum! Spurningin er aðeins í hvers umboði þau eru mælt og hver það er sem heldur á fjöreggi þjóðar við ysta haf?



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim