Hjörleifur Guttormsson 31. október 2011

Að loknum landsfundi VG

Landsfundir stjórnmálaflokka segja sögu um stöðu þeirra og þróun. Fundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Hofi á Akureyri um liðna helgi staðfesti um margt sterka stöðu flokksins sem aðila að ríkisstjórn landsins nú á þriðja ár en jafnframt áhyggjur margra af stöðu velferðarmála í þeim mikla niðurskurði og aðhaldi sem nú stendur yfir í ríkisbúskapnum. Staðan í viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu veldur fjölmörgum flokksmönnum miklum áhyggjum og eftir landsfundinn er ljóst að þar verður VG að taka mun fastar á málum í ljósi eindreginnar stefnu flokksins gegn aðild. Steingrímur J. Sigfússon fékk ótvírætt umboð til formennsku áfram, þótt mótframboð sem komu fram gegn honum beri vott um að hann er ekki óumdeildur. Skilaboð fundarins til flokksforystunnar eru m.a. þau að rækta þurfi betur en gert hefur verið samband og tengsl við grasrótina og taka betur á við stefnumörkun í mörgum vandasömum málum sem við blasa.

Samþykktin vegna ESB-viðræðna

Þung gagnrýni kom fram á fundinum á yfirstandandi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Fyrir landsfundinum lágu tvær tillögur um þetta mál, annars vegar frá okkur 25 flokksmönnum víða að af landinu og hinsvegar frá svonefndum ályktunarhópi. Málefnahópur landsfundarins um utanríkismál ræddi þessar tillögur og eftir yfirferð í undirnefnd sameinuðust menn um eftirfarandi samþykkt sem í meginatriðum er samhljóða tillögu okkar 25-menninga.

„Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Landsfundurinn ályktar að í yfirstandandi aðildarviðræðum beri að hafna því að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu og leggur áherslu á að Ísland haldi samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum, svo sem makríl, kolmunna, úthafskarfa, loðnu og norsk-íslensku-síldinni. Sama á við hvað varðar  umfang á stuðningi við íslenskan landbúnað svo og um náttúruauðlindir sem fyrirhugað er að lýsa þjóðareign í nýrri stjórnarskrá.
Landsfundurinn bendir á þá miklu skerðingu lýðræðis sem felst í ESB-aðild ásamt fullveldisafsali á fjölmörgum sviðum. Þróun innan ESB að undanförnu, nú síðast vegna átaka um framtíð evru-samstarfsins, stefnir í átt að enn frekari samruna með hertri miðstýringu. Með Lissabon-sáttmálanum er einnig kominn vísir að samstarfi um utanríkis- og hernaðarmálefni. Jafnframt eiga félagsleg sjónarmið, umhverfisvernd, fæðu- og matvælaöryggi og réttindi launafólks undir högg að sækja innan sambandsins.
Þá mun VG tryggja að íslenskt stjórnkerfi verði ekki aðlagað stjórnkerfi ESB á meðan á aðildarviðræðum stendur.
            Landsfundurinn telur það vera eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar  ESB-aðildar.‟

Aðlögun og IPA-styrkir

Eins og fram kemur í samþykkt landsfundarins er forystu VG falið að tryggja að ekki komi til aðlögunar íslensks stjórnkerfis að kerfi Evrópusambandsins á meðan á aðildarviðræðum stendur. Tekið var fram af framsögumanni málefnahópsins sem mælti einróma með samþykktinni að hópurinn væri sammála um að hafna beri sem hluta af aðlögun fjárhagsstyrkjum frá ESB, þ.e. svonefndum IPA-styrkjum (Instrument for Pre-Accession Assistance) og sem sumpart er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrir 2012. Var þetta ítrekað sérstaklega í umræðum sem skýring við tillöguna sem síðan var samþykkt. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum sem sýnir í hverskonar öngstræti Ísland er statt með aðildarumsókn sem aðeins nýtur stuðnings frá Samfylkingunni einum flokka. Í umræðum á landsfundinum var bent á að sáralitlar ef nokkrar líkur væru á að botn fáist í viðræðuferlið fyrir alþingiskosningar 2013. Brýnt sé að VG komi sinni afstöðu gegn aðild á framfæri með skýrum hætti á næstunni og rökum sem að baki liggja.

Sóknarfæri þrátt fyrir ágjöf

Tilkynning fyrrum þingmanna VG, Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur, um úrsögn úr flokknum kom ekki á óvart en minnti á þá margvíslegu ágjöf sem flokkurinn hefur mátt þola eftir að núverandi ríkisstjórn var mynduð. Ástæður þessa eru margháttaðar en að mínu mati ekki síst þær að skort hefur á tengsl flokksforystunnar við óbreytta liðsmenn flokksins og að virkja þá til starfa við stefnumótun og að upplýsa þá jafnframt betur um bakgrunn þeirrar erfiðu glímu sem háð hefur verið í kjölfar hrunsins. Staða og styrkur VG á næstu árum fer ekki síst eftir því að á þessu verði breyting og byggt verði á þeim góða málefnalega grunni sem fyrir liggur, meðal annars í umhverfismálum sem grunnþætti í sjálfbærri þróun, samhliða því að Ísland haldi stöðu sinni sem sjálfstætt þjóðríki utan Evrópusambandsins.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim