Hjörleifur Guttormsson 1. desember 2012

Loftslagsógnin er prófsteinn á stjórnmálin

Íslendingar standa framarlega í björgunarstörfum. Hvert mannslíf er með réttu talið dýrmætt og fátt til sparað að bjarga fólki sem er í háska statt. Viðbrögð björgunarsveita láta ekki á sér standa, menn vita að hver mínúta getur skilið milli lífs og dauða. Þessu er ólíkt farið þegar háskinn er ekki auðsær í augnablikinu en snertir samt milljónir, jafnvel mannkyn allt, og liggur í fjarlægri framtíð á tímaskala meðal mannsævi. Þó hafa slíkar horfur verið að skýrast og taka á sig raunverulega mynd síðustu hálfa öld og eru nú í huga flestra vísindamanna orðin vissa sem fátt geti haggað nema skjót og samhent viðbrögð. Hér er átt við loftslagsbreytingar af mannavöldum sem eru óðfluga að kalla yfir mannkynið það syndaflóð sem engum mun hlífa.

Upplýsingar á hvers manns borði

Loftslagsþróunin hefur verið viðfangsefni herskara vísindamanna um áratugi. Niðurstöður sem varða hnattræn líkön eru dregnar saman með jöfnu millibili og bornar saman við reynslu hvers árs og síðustu áratuga. Allt ber þar að sama brunni: Hlýnun andrúmsloftsins og heimshafanna er staðreynd og leiðir af sér bráðnun jökla, hækkun sjávarborðs, röskun veðurkerfa og úrkomu, þurrka á stórum svæðum og úrhellis á öðrum, magnaðra storma og sjávarflóða. Sveiflur hafa fylgt veðurfari frá ómunatíð, en það sem nú er að gerast gengur þvert á það sem hnattræn líkön gera ráð fyrir sem náttúrulegum sveiflum. Skýringin sem við blasir er losun gróðurhúslofts af mannavöldum sem á uppruna sinn í notkun jarðefnaeldsneytis sem orkugjafa – olíu, jarðgass og kola. Allt stefnir það upp á við, í öfuga átt, og magnar þann háska sem að mannkyni steðjar. Ráðstefnur eru haldnar, þær stærstu á vegum aðildarríkja að loftslagssamningi SÞ, 18. ársfundurinn (COP-18) stendur yfir þessa dagana í Doha. Þess utan eru haldnir óteljandi fundir, einn fróðlegur t.d. fyrir hálfum mánuði hér í Reykjavík á vegum Vísindafélags Íslendinga. Þar voru staðreyndir lagðar á borðið af vísinda- og fræðimönnum, þróunin rakin og spáð í horfur sem að óbreyttu ganga í eina átt. Almenningur fyllti þar bekki en starfandi stjórnmálmenn voru því miður fjarverandi.

Viðbrögð úr ólíkum áttum

Þótt endurnýjað alþjóðlegt samkomulag til að bregðast við loftslagsvandanum hafi enn ekki tekist, fjölgar óðfluga þeim röddum sem gera sér ljósan þann háska sem við blasir. Aðvörunarorð hafa á síðustu vikum borist úr ólíkum áttum. Það þóttu stórtíðindi þegar  borgarstjórinn í New York úr flokki Repúblikana lýsti yfir stuðningi við Obama forseta stuttu fyrir forsetakosningarnar 6. nóvember sl. með vísan til loftslagsmálanna. Sá horfði á afleiðingar sjávarflóða sem skildu eftir stór svæði New York borgar rafmagnslaus og í rúst. Það var einnig nýmæli að Alþjóðabankinn sendi nú í nóvember frá sér skýrslu með eins konar dómsdagsspá um afleiðingar af hækkun meðalhita í allt að 4°C sem nú stefnir í að óbreyttu fyrir lok þessarar aldar. Í hóp hrópenda bættist síðan fyrir viku Karl Bretaprins með ákall um að mannkynið verði að snúa við blaðinu og taka upp græna stefnu („go green“) eða horfast í augu við ólýsanlegar hörmungar ella („unbearably toxic and unstable existence“). Það er ekki aðeins banvæn orkustefna sem er að eitra fyrir komandi kynslóðum, við hana bætast horfur á fólksfjölgun úr 7 milljörðum í 9 milljarða fram til 2050. Um þessa þróun sagði David Attenborough skýrt og skorinort fyrir nokkrum dögum: „Sá sem heldur að takmarkalaus vöxtur sé gerlegur í afmörkuðu umhverfi er annaðhvort vitfirrtur eða hagfræðingur.“ En það eru fleiri en hagfræðingar sem þurfa að líta í eigin barm, þótt ljóst sé að undirrót vandans liggur í ósjálfbæru efnahagskerfi. 

Ísland í ólgusjó umhverfisbreytinga

Fyrir liggur að hlýnun andrúmsloftsins gengur ekki jafnt yfir jörðina, stefnir t.d. í að verða langtum örari á norðlægum slóðum en nær miðbaug. Þannig geta umhverfisbreytingar af hennar völdum orðið afdrifaríkari á norðurslóðum en sunnar á tempraðri svæðum. Þetta varðar ekki aðeins vistkerfi þurrlendis heldur áhrifin á sjávarstrauma og fiskistofna og þar er Ísland í einkar viðkvæmri stöðu. Hlýnunin flýtir ekki aðeins fyrir bráðnum heimsskautaíss heldur einnig sífrera á landi; þiðnun hans leysir í auknum mæli úr læðingi metan (mýragas) sem afar öfluga gróðurhúsalofttegund. Olíuvinnsla á norðurslóðum sem nú er víða í undirbúningi magnar upp þann alþjóðlega vanda sem við er að fást. Í stað þess að gerast þátttakendur í þeim leiðangri eigum við Íslendingar að leggjast fast á sveif með þeim sem mæla fyrir alþjóðlegu samkomulagi gegn olíuvinnslu í Norður-Íshafi, Drekasvæðið umtalaða ekki undanskilið.
            Niðurstöður loftslagsrannsókna þurfa að verða sameign almennings. Tími afneitunar og rangtúlkana skammsýnna hagsmunaafla er liðinn. Eigi að takast að draga úr loftslagsógninni þarf vitneskja og vitund um hana að hafa forgang í stjórnmálaumræðu, hvort sem menn telja sig til hægri eða vinstri, grænir eða bláir. Í þeim allsherjarvanda sem að steðjar erum við öll á sama báti og tími til kominn að leggjast á eitt til að ná landi.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim