Hjörleifur Guttormsson 6. febrúar 2012

Birtir yfir Náttúruminjasafni

Alþingi ræddi föstudaginn 3. febrúar sl. að frumkvæði menntamálaráðherra um stöðu safna í framhaldi af skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni Náttúruminjasafns. Um það safn snerist líka umræðan að meginhluta þótt önnur höfuðsöfn og gildi minni safna víða um land bæri á góma. Eins og aðrar stofnanir hafa söfn landsins mátt þola mikinn niðurskurð í þrengingum síðustu ára, þeirra mest líklega Náttúruminjasafnið sem tæpast er þó orðið sýnilegt. Fulltrúar allra þingflokka tóku þátt í umræðunni og mátti í máli þeirra greina ánægjulegan samhljóm. Tekið var undir þá skoðun Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra að ekki eigi að hverfa frá fyrri samhljóða stefnumörkun Aþingis við lagasetningu 2007 um að koma eigi upp sjálfstæðu og nútímalegu náttúruminjasafni. Jafnframt bauð hún upp á samvinnu við nefndir Alþingis um að fara ásamt ráðuneytinu yfir málefni safnsins, höggvið verði á hnúta sem myndast hafa og brautin vörðuð fram á við með aðstöðu fyrir safnið og starfsemi þess. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrrverandi menntamálaráðherra og Siv Friðleifsdóttir fv. umhverfisráðherra voru í hópi þeirra sem fögnuðu umræðunni og lýstu samstöðu með áherslum ráðherra. Siv hafði áður óskað eftir umræðu um Náttúruminjasafnið sérstaklega og verður hún væntanlega á dagskrá þingsins innan tíðar.

Aldarfjórðungs þóf og biðstaða

Biðstaða og afturför hefur verið rauði þráðurinn í málefnun náttúruminjasafns í aldarfjórðung og þjóð okkar til skaða og vansæmdar. Á árinu 1985 sameinuðust 12 alþingismenn úr öllum flokkum um tillögu til þingsályktunar um „að hraða undirbúningi að byggingu yfir nútímalegt náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu‟ og verði hann við það miðaður að unnt yrði að opna safnið almenningi árið 1989 á 100 ára afmæli Hins íslenska náttúrufræðifélags og náttúrugripasafns á þess vegum (mál 497 á 107. löggjafarþingi).  Í framhaldi af því störfuðu tvær stjórnskipaðar nefndir og veitti undirritaður þeirri síðari (NNN-nefnd) forystu. Lá víðtæk stefnumörkun fyrir á afmælisárinu og á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands var opnuð allmyndarleg sýning í húsnæði stofnunarinnar við Hlemm. Horft var til nýbyggingar yfir Náttúrufræðistofnun og sérstakt Náttúruhús með sýningu á lóð við Njarðargötu skammt frá Háskólanum. Gert var ráð fyrir Náttúruhúsi sem sjálfstæðri einingu og lá fyrir viljayfirlýsing frá Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands um þátttöku í sýningarþættinum. Þáverandi borgarstjóri Davíð Oddsson og Sigmundur Guðbjarnarson rektor Háskólans veittu þessari þriggja stoða hugmynd um safnið brautargengi. Undirbúningsfjárveiting vegna byggingarframkvæmda fór inn í fjárlagafrumvarp vegna ársins 1992. Þá umhverfðist því miður einn þingmaður úr stjórnarliði og lagðist þversum og lét þingflokkur Alþýðuflokksins undan þeim hamagangi og fjárveitingin var strikuð út. Málefni náttúruminjasafns lentu síðan í langvarandi útideyfu og hefur sú saga oft verið rakin. Lóðin við Njarðargötu er þó enn merkt náttúruminjasafni á skipulagi borgarinnar.

Perlan er lausnarorðið

Síðastliðinn laugardag 4. febrúar birtist í Fréttablaðinu grein eftir Hjörleif Stefánsson arkitekt og Þórunni Sigríði Þorgrímsdóttur sýningarhönnuð undir fyrirsögninni „Perlu í Perluna‟ og hefur hún vakið verðskuldaða athygli. Rökstyðja þau þar þá hugmynd að í stað þess að Orkuveita Reykjavíkur selji þessa táknmynd Reykjavíkur á Öskjuhlíð til einkaaðila verði þar komið upp því Náttúruminjasafni sem lengi hefur verið beðið eftir. Ég man ekki betur en að Andri Snær Magnason rithöfundur hafi sett fram svipaða hugmynd fyrir nokkrum árum. Með Perlunni er mælt lausnarorð sem gæti orðið öllum sem að framkvæmd kæmu til vegsauka og bætt fyrir vanrækslusyndir liðinna áratuga. Húsið talar fyrir sig og skapar Náttúruminjasafni það umhverfi sem einstakt má telja á veraldarvísu. Ríki og borg hljóta að geta sameinast um að leysa fjárhagsþáttinn og fullvíst má telja að háskólarnir í næsta nágrenni hlúi að uppbyggingu safns á þessum stað með ráðum og dáð. Rannsóknastofnanir landsins, ekki aðeins Náttúrufræðistofnun heldur einnig vísindastofnanir háskólanna, Hafrannsóknastofnun, Veðurstofa Íslands og fleiri, eiga að opna slíku Náttúruminjasafni í Perlunni þekkingarbrunna sína ekki síður en ef safnahúsið risi við Njarðargötu eins og að var stefnt  fyrir röskum 20 árum.
            Íslendingar þurfa á því að halda í þeirri kröm sem hvílt hefur yfir landi um skeið að geta sameinast um eitthvað táknrænt sem kveikir glóð í ungum hjörtum og gleður þá sem sækja okkur heim. Náttúra Íslands hefur allt frá dögum Jónasar Hallgrímssonar, Benedikts Gröndals og Bjarna Sæmundssonar verið það athvarf sem sem flestir leita í. Húsnæði Perlunnar og heitavatnsbrunnarnir sem hún hvílir á gefa kost á uppbyggingu nútímalegs Náttúruminjasafns í viðráðanlegum áföngum. Er eftir nokkru að bíða að taka stefnuna í ljósi sameiginlegs áhuga þjóðþings, ráðherra og væntanlega einnig Reykjavíkurborgar?



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim