Hjörleifur Guttormsson | 9. desember 2012 |
Að fortíð skal hyggja ... Saga samskipta Íslands og Evrópusambandsins í röska tvo áratugi verðskuldar rækilega úttekt og rannsókn á því hvernig á íslenskum hagsmunum hefur verið haldið gagnvart ESB allan þennan tíma. Núverandi staða í aðildarviðræðum Íslands við sambandið kallar á hlutlæga úttekt til að þjóðin nái á næstu árum að fóta sig á því svelli sem hún hefur verið teymd út á af kjörnum fulltrúum sínum. Liður í slíkri rannsókn þarf að varða aðkomu stjórnmálaflokka og einstakra forystumanna að „Evrópumálum“ á þessu skeiði, Alþingi sem stofnun ekki undanskilið sem og hlutur utanríkisþjónustunnar á þessu sviði. Inn í þróun atburða hafa jafnframt spilað hugmyndaleg tengsl stjórnmálaflokka á vettvangi Norðurlanda og víðar um álfuna og hafa þarf þau í huga við athugun á atburðarás síðustu árartuga. Evrópusambandið er stofnun sem færst hefur stig af stigi í átt að ríkjasambandi á kostnað sjálfsstæðis aðildarríkja sinna allt frá tilkomu Rómarsáttmálans 1958. Gömlu stórveldin Frakkland og Þýskaland hafa frá upphafi verið í lykilhlutverki og hefur það komið æ betur í ljós í núverandi kreppu sambandsins. Evrópusambandið endurspeglar öðru fremur hagsmuni þessara stórvelda og þar er hvert skref yfirvegað og stutt síðan af býrókrötunum í Brussel og Dómstólnum í Lúxemborg. – Smáríki eins og Ísland þarf að sama skapi að sýna aðgæslu og fyrirhyggju í samskiptum við slíkan risa, átta sig á markmiðum hans og þá jafnframt á eigin grundvallarhagsmunum. Á þetta hefur mjög skort allt frá aðdraganda samningsins um Evrópska efnahagssvæðið 1989. Flokkar sósíaldemókrata og samband þeirra hafa leikið stórt hlutverk á þessu skeiði, Alþýðuflokkurinn íslenski og Samfylkingin ekki undanskilin. Jacque Delors hinn franski var ásamt norskum og sænskum krötum í lykilhlutverki í aðdraganda útvíkkunar Evrópubandalagsins (EB) og ummyndun þess í Evrópusamband (ESB) með Maastricht-sáttmálanum 1992. EES-módelið átti aðeins að verða stuttur millileikur í inngöngu Norðurlanda, til viðbótar við Danmörku, í hið nýja samband á grundvelli „fjórfrelsis“. Það gekk eftir hvað Svíþjóð og Finnland áhrærði, en strandaði naumlega í þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi 1994. Hérlendis var EES-aðild Íslands nuddað í gegn af Jóni Hannibalssyni í tveimur ríkisstjórnum, en var af hans hálfu og Alþýðuflokksins aðeins hugsað sem áfangi á leið til fyrirheitna landsins. Það er umhugsunarefni að í dag nýtur ESB-aðild aðeins fylgis lítils minnihluta norskra kjósenda og EES–samningurinn sætir vaxandi gagnrýni þarlendis sem samskiptamódel við ESB til frambúðar. Eftir að íslenskir kratar og handlangarar þeirra í núrverandi ríkisstjórn hafa verið kveðnir í kútinn með ESB-aðildarþráhyggjuna þurfa menn að ráðast í það verk að endurmeta EES-böndin og knýja að minnsta kosti fram endurskoðun á alvarlegustu annmörkunum sem tjóðra Íslendinga við regluverkið frá Brussel. Hjörleifur Guttormsson |