Hjörleifur Guttormsson | 11. apríl 2012 |
Uppgjör í aðildarviðræðum við ESB sem fyrst Aðeins ár er til alþingiskosninga og enn skemmri tími þar til stjórnmálaflokkar og framboð þurfa að svara til um stefnu sína til framtíðar litið. Langstærsta og afdrifaríkasta málið til úrlausnar er afstaðan til Evrópusambandsins, tilhögun samskipta við aðrar þjóðir og verndun og nýting náttúruauðlinda í íslenskri efnahagslögsögu. Flokkar sem ekki ganga til kosninga með skýra stefnu í þessum efnum eiga lítið erindi við þá kjósendur sem horfa vilja til morgundagsins. ESB-umsóknarferlið og ábyrgð VG Brátt eru þrjú ár liðin frá því að naumur meirihluti á Alþingi samþykkti að tillögu ríkisstjórnarinnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Gengið var út frá að málið yrði útkljáð á kjörtímabilinu þannig að samningur lægi fyrir sem þjóðin myndi taka afstöðu til. Af andstæðingum aðildarumsóknar var bent á að til þess að málið færi í þjóðaratkvæði þyrftu báðir ríkisstjórnarflokkarnir að taka pólitíska ábyrgð á þeim samningi sem lagður yrði fyrir þjóðina. Forysta VG hefur vikist undan að svara til um þetta lykilatriði og endurtekið í staðinn þá klisju að það sé þjóðin sem eigi að skera úr. Slík færibandaafgreiðsla er með öllu óþekkt. Þjóðréttarsamningur verður ekki til án samþykkis og á ábyrgð viðkomandi stjórnvalda, ríkisstjórnar og þess meirihluta sem hún styðst við. Enginn ágreiningur er hins vegar um það meðal flokka á Alþingi, að verði slíkur samningur gerður hljóti hann að fara í þjóðaratkvæði. Absúrd leikur með örlagamál Væri hér ekki á ferðinni afdrifaríkasta mál sem Íslendingar hafa fengist við á lýðveldistímanum gætum við eftirlátið það umfjöllun í áramótaskaupi. Augljóst er að enginn samningur verður til um aðild Íslands að ESB fyrir alþingiskosningar 2013, jafnvel þótt samningaviðræður gengju snurðulaust. Innan við þriðjungur af tölusettum dagskrárliðum í viðræðunum (10 af 33 köflum) er að baki og helstu átakamálin ekki einu sinni komin til umræðu. ESB hefur það í hendi sér hversu lengi það teygir viðræðurnar. Samanburður við önnur umsóknarríki segir okkur að þær gætu staðið áfram árum saman. Frá því aðildarviðræður hófust 2010 hefur snarhallað undan fæti innan Evrópusambandsins og ESB hefur ákveðið grundvallarbreytingar á fjármálalegum undirstöðuþáttum sem svipta aðildarríkin sjálfræði á enn fleiri sviðum en hingað til. Á sama tíma liggur fyrir að drjúgur meirihluti Íslendinga er andsnúinn inngöngu í ESB. Meira en tveir þriðju félagsmanna í Samtökunum iðnaðarins hafa nýlega tjáð sig andvíga aðild. Þar með hafa öll þau krosstré brostið sem áður studdu aðild eða voru tvístígandi. Er forysta VG að vakna? Ríkisstjórnin situr uppi með aðildarumsókn sem lítill sem enginn pólitískur stuðningur er við nema hjá Samfylkingunni. Einnig þar á bæ fara efasemdir vaxandi samhliða dvínandi fylgi. Formaður Samfylkingarinnar talar samt áfram fyrir „þjóðarsátt‟ um evru og gegn krónunni sem þó reyndist haldreipi Íslands í hruninu. Forysta VG hlýtur að svara því alveg á næstunni hvort flokkurinn ætlar að ganga til kosninga bundinn á klafa Samfylkingarinnar um ESB-aðildarviðræður eða taka upp virka baráttu gegn aðild í samræmi við margítrekaða stefnu sína. Framtíð stjórnmálafls í húfi Vinstrihreyfingin grænt framboð varð til sem stjórnmálaflokkur 1998–1999 vegna eindreginnar andstöðu við inngöngu í ESB og eindreginnar stefnu sinnar í umhverfismálum. Það fyrrnefnda skildi glöggt á milli VG og þeirra ólíku hópa sem Samfylkingin óx upp úr. Það varð fjölda félags- og stuðningsmanna VG áfall þegar forysta flokksins beygði sig fyrir kröfu Samfylkingarinnar um aðildarumsókn. Ekkert hefur orðið flokknum jafn afdrifaríkt og dregið úr gengi hans og virkni félagsmanna. Nú eru síðustu forvöð að endurheimta sjálfsvirðingu og traust og læra jafnt af ávinningum sem og mistökum við landsstjórnina á kjörtímabilinu. Hjörleifur Guttormsson |