Hjörleifur Guttormsson 12. desember 2012

Hvenær ákvað VG að stefna að olíuvinnslu á Dreka?

Í liðinni viku kom fram að Orkustofnun hafi þegar í lok október 2012  tekið ákvörðun um að veita tveimur aðilum sérleyfi til 12 ára til rannsókna og vinnslu olíu og gass á Drekasvæðinu. Í framhaldi af því hafi norskum stjórnvöldum verið tilkynnt um þá ákvörðun og þau nú ákveðið fjórðungs þátttöku í umræddum sérleyfum samkvæmt samkomulagi um skiptingu Jan Mayen-svæðisins frá árinu 1981.  Hér er um afar stóra og afdrifaríka ákvörðun að ræða. Í henni felst ekki aðeins leyfi til rannsókna heldur jafnframt vinnsluleyfi til viðkomandi fyrirtækja. Sérstaklega er tekið fram að handhafar sérleyfanna njóti forgangs um frekari leyfisveitingar.
            Orkustofnun hefur gefið út þessi leyfi eftir að umhverfisráðuneyti og  atvinnumálaráðuneyti veittu stofnuninni umsögn um málið. Þrátt fyrir varnaðarorð af ýmsu tagi frá undirstofnunum lagðist hvorugt þessara ráðuneyta gegn veitingu umræddra leyfa. Steingrímur J. Sigfússon ráðherra atvinnumála og formaður VG og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, hafa því fyrir sitt leyti fallist á veitingu leyfa sem fela í sér að stefnt verði að olíuvinnslu á íslensku hafsvæði.

Olíuvinnsla á norðurslóðum og loftslagsógnin

Olíu- og gasvinnsla á norðurslóðum er nátengd yfirstandandi loftslagsbreytingum af mannavöldum. Það samhengi gerði ég nýlega að umtalsefni í blaðagrein (Mbl. 1. des.) og sagði afstöðu í því máli prófstein á stjórnmálin. Tveimur dögum síðar birtist fréttatilkynning Orkustofnunar um leyfisveitingarnar og henni fylgir útdráttur af svari ráðuneytanna. Það alvarlegasta við þær ákvarðanir sem nú hafa verið kynntar er að með þeim er Ísland að slást í hóp þeirra ríkja sem stefna á olíuvinnslu í stórum stíl á norðurheimskautssvæðinu með hrikalegum afleiðingum fyrir lofthjúp jarðar, sjávarborð og vistkerfi. Er þá horft fram hjá mengunarslysum, stórum sem smáum, sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkrar vinnslu og sem eru talin langtum alvarlegri á köldum hafsvæðum en í hlýjum sjó. Sú ákvörðun sem hér hefur verið tekin stríðir gegn markmiðum sjálfbærrar þróunar og afvopnar Ísland í viðleitni til að hafa áhrif á gjörðir annarra ríkja í þessum efnum. Hvorugt umræddra ráðuneyta nefnir einu orði samhengið við loftslagsmálin, að séð verði af fréttum.

Gengur gegn samþykkt Alþingis

Málefni norðurslóða hafa fengið vaxandi athygli síðustu áratugi eftir lok kalda stríðsins. Sá sem þetta skrifar hafði frumkvæði að því 1993 að sett yrði á fót Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri og jafnframt að ályktunum í Norðurlandaráði um svipað leyti. Alþingi samþykkti 28. mars 2011 þingsályktun í tólf liðum um meginstefnu Íslands í málefnum norðurslóða „sem miðar að því að tryggja hagsmuni Íslands með tilliti til áhrifa loftslagsbreytinga, umhverfis- og auðlindamála, siglinga og samfélagsþróunar ...“ Stefnan skuli m.a. fela í sér:

„Að vinna með öllum ráðum gegn loftslagsbreytingum af manna völdum og áhrifum þeirra og tryggja þannig bætta velferð íbúa og samfélaga á norðurslóðum. Ísland beiti sér í hvívetna fyrir því að við aukin efnahagsleg umsvif á norðurslóðum verði stuðlað að sjálfbærri nýtingu auðlinda og gætt að ábyrgri umgengni um hin viðkvæmu vistkerfi og verndun lífríkis.“

Alvara loftslagsbreytinganna blasir enn skýrar við en áður eftir niðurstöðu ársfundar ríkja loftslagssamningsins í Doha í síðustu viku þar sem bindandi samkomulag tekur aðeins til ríkja með um 15% af núverandi losun gróðurhúsalofts á heimsvísu.

Olíuvinnsla í norðri umdeild í Noregi

Andvaraleysi forystumanna VG í þessu máli er með ólíkindum. Mér er ekki kunnugt um að þeir styðjist við neinar flokkssamþykktir sem réttlæti afstöðu þeirra í þessu stórmáli. Ekki tekur betra við þegar formaður VG tekur sér stöðu með norskum krataforingjum í afstöðu til olíuvinnslu í norðri, og virðist kappsamur um að olíuleit á Drekasvæðinu leiði til vinnslu. Í Mbl. 4. des. sl. er haft eftir Steingrími J:

„Ég tel að það styrki verkefnið að fá þessa norsku þátttöku. Það gefur því aukið vægi og það er styrkur í að hafa Norðmenn okkur við hlið í þessu. Þeir búa enda yfir mikilli reynslu á þessu sviði, þá ekki síst í öllu sem snýr að öryggis- og umhverfismálum við olíu- og gasvinnslu á hafi úti.“

Ég hefði haldið að Steingrímur þekkti til eindreginnar andstöðu Sosialistisk venstreparti (SV) í Noregi við áform um olíuvinnslu við Lófót og norðar með Noregsströndum, að ekki sé talað um Barentshafið. Í norsku ríkisstjórninni hefur verið tekist á um þau mál allt kjörtímabilið, þar sem SV hefur verið á öndverðum meiði við Stoltenberg forsætisráðherra. Kristín Halvorsen fv. formaður SV sagði í viðtali í fyrra (Makro og politikk 26. jan. 2011) að engin þörf sé á frekari upplýsingaöflun um áhrif olíuvinnslu á norðurslóðum. Mat á umhverfisáhrifum breyti þar engu um, þar eð það sé í raun aðeins tæki í höndum olíuiðnaðarins til að þrýsta á um vinnslu.
Þeir mörgu sem horft hafa til VG vegna umhverfismálanna hljóta að spyrja í ljósi þess sem hér er að gerast: Hvað má nú til varnar verða vorum sóma?Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim