Hjörleifur Guttormsson 13. september 2012

Umhverfi jarðar og ósjálfbært efnahagskerfi

Það er fátt til að vekja bjartsýni þegar horft er á stöðu heimsmála nú um stundir. Opinber umræða á Vesturlöndum eins og hún berst okkur frá þorra stjórnmálamanna og fjölmiðlum snýst um hvernig takast megi að krafsa sig upp úr efnahagskreppunni til að halda áfram uppteknum hætti þar sem frá var horfið fyrir fjórum árum. Lykillinn að því er sagður vera að endurvekja kaupgleði almennings og fjárfestingar og draga með því úr vaxandi atvinnuleysi. Loforð þar að lútandi eru helsta beita frambjóðenda í leit að kjörfylgi, nú síðast í Bandaríkjunum. Um undirliggjandi meinsemdir og framtíðarhorfur mannkyns þegja flestir stjórnmálamenn eða standa ráðþrota.

Sláandi þögn um umhverfismálin

Rösk fjörutíu ár eru liðin síðan umræða hófst um þær afleiðingar sem hraður efnahagsvöxtur eftirstríðsáranna kynni að hafa á umhverfið. Aðvörunarorð Rómarklúbbsins um endimörk vaxtar vöktu ýmsa af værum blundi, en fleiri voru þó þeir sem sögðu þau fjarstæðu. Á Stokkhólmsráðstefnu SÞ 1972 voru til umræðu margvíslegar ógnir við umhverfi manna, og sett var á fót Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna. Hugmyndin um sjálfbæra þróun skaut rótum á 8. áratugnum og varð í Ríó 1992 og í Jóhannesarborg tíu árum síðar burðarás tillagna um aðgerðir til viðnáms og bjargar. Í júní sl. komu þjóðarleiðtogar saman til fundar á ný í Ríó og minntu á gömlu fyrirheit, en lítið sem ekkert kom þar nýtt fram. Það var líka eins og fáir legðu við hlustir og flestir forystumenn þjóða að ekki sé talað um jöfra viðskiptalífsins kynokuðu sér við að rifja upp vanefndir frá liðnum áratugum. Þögn ráðamanna og yfirborðsleg umfjöllun fjölmiðla um harðnandi vistkreppu á jörðinni er sláandi og síst til þess fallin að knýja á um nauðsynlegar breytingar.  

Aðeins ein jörð

Hugmyndin um sjálfbæra þróun byggir á þremur stólpum sem allir þurfa að vera traustir, eigi vel að farnast. Um er að ræða náttúrulegt umhverfi, efnahagsþróun og samfélagsmál. Þessa víðfeðmu þætti þarf að stilla saman ef takast á að tryggja heilbrigða framvindu. Því fer fjarri að það hafi tekist í tíð núlifandi kynslóða og því hvelfast nú risavaxin hnattræn vandamál yfir sem aldrei fyrr. Loftslagsbreytingar af mannavöldum vegna kolefnisbrennslu tala þar skýrustu máli og engin marktæk teikn eru um viðbrögð til að hægja á þeim. Kapphlaupið um olíuna í Austurlöndum nær og á norðurslóðum talar þar sínu máli. Á sama tíma gera auknar sveiflur í veðurfari og hækkandi sjávarborð hvarvetna vart við sig. Grænlandsjökull minnir á hvað í vændum er. Þær raddir eru líka að heita má hljóðnaðar sem benda út í himingeiminn í leit að sökudólgi. Uppgjöf alþjóðasamfélagsins við að endurnýja Kyotosáttmálann til að koma böndum á losun gróðurhúsalofts boðar ekki gott. Mesta ábyrgð á þeirri stöðu bera Bandaríkin og Kína sem til samans losa um 40% gróðurhúsalofts á heimsvísu, Bandaríkin þar af langmest miðað við höfðatölu. Hvert glatað ár án markviss viðnáms er dýrkeypt.

Efnahagskerfi í blindgötu

Af undirstöðuþáttum sjálfbærrar þróunar er efnahagskerfið ráðandi. Þar er að leita skýringa á flestum þeim ófarnaði sem við mannkyni blasir og án grundvallarbreytinga á efnahagsstarfsemi og viðskiptum er lítil von til að mannkynið nái inn á lífvænlega braut. Vaxandi misskipting efnislegra gæða milli heimshluta og innan þjóðríkja er innbyggð í núverandi kerfi. Ósjálfbær útþensla þess með síauknu álagi á umhverfið blasir við öllum. Hugtakið hnattvæðing segir sitt um breytingar síðustu áratuga en kjarni hennar felst í óheftu frelsi fjármagns í sókn eftir hámarkshagnaði. Ríki heims hafa eitt af öðru kastað fyrir róða helstu stjórntækjum sínum og þau rekur síðan  ólgusjó blindra markaðsafla sem hvetja jafnt einstaklinga sem samfélög til að safna skuldum og eyða um efni fram. Innbyggt siðleysi þessa kerfis birtist okkur m.a. í sólund og neyslu langt umfram þarfir sem forsendu þess að fólk hafi atvinnu.
 
Mannfjölgun og þverrandi auðlindir

Mannfjöldi á jörðinni var um 2 milljarðar fyrir einni öld, náði 7 milljarða markinu nú í ár og stefnir í 9 milljarða um miðja öldina. Álag á vistkerfi jarðar vegna fólksmergðar gerir hvarvetna vart við sig og mun stigmagnast með hörmulegum afleiðingum ef ekki tekst að breyta róttækt um stefnu. Sú framtíð sem að óbreyttu er verið að leggja grunninn að veldur eyðingu náttúrulegra vistkerfa og sívaxandi álagi á þau sem fyrir eru, útdauða fjölda tegunda ár hvert, vatnsskorti og hungursneyð og straumi flóttafólks frá svæðum sem verða óbyggileg. Ekki þarf að orðlengja um áhrif slíkrar öfugþróunar á friðsamlega sambúð þjóða. Kapphlaupið um þverrandi auðlindir birtist okkur í margvíslegum myndum, nú síðast með ásókn fjölþjóðahringa og fjarlægra stórvelda eins og Kína í jarðefni, m.a. á Grænlandi, og viðleitni þeirra síðarnefndu til að ná fótfestu hérlendis.
            Í glímu við vistkreppuna þarf öflugt alþjóðlegt samstarf í umhverfismálum samhliða gjörbreyttum búskaparháttum um veröld víða. Forsenda árangurs er í senn vitundarvakning og að menn horfist í augu við þann vanda sem við blasir.

Hjörleifur Guttormsson



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim