Hjörleifur Guttormsson 16. september 2012

Ávarp á Degi íslenskrar náttúru

vegna náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti

Kæri umhverfisráðherra. Háttvirta samkoma.
Við tækifæri sem þetta verður mér hugsað til orða Steingríms Thorsteinssonar:

Orður og titlar úrelt þing
eins og dæmin sanna;
notast oft sem uppfylling
í eyður verðleikanna.

Samt vil ég þakka af auðmýkt fyrir þann sóma sem mér er sýndur á þessum Degi íslenskrar náttúru. Ég tengi tilnefninguna þeim málstað sem við fylkjum okkur um og þakka þann hlýhug sem býr að baki.

Ég óska okkur til hamingju með löngu tímabæra eflingu umhverfisráðuneytisins. Við hljótum hins vegar að spyrja, hvers vegna ekki var stigið stærra skref með því að fella einnig Hafrannsóknastofnun og Orkustofnun undir þetta ráðuneyti auðlindamála.

Á Degi íslenskrar náttúru hvarflar hugurinn víða. Sigríður Tómasdóttir í Brattholti er nær okkur en margur heldur, þótt öld sé nú liðin frá því faðir hennar hóf málaferli út af leigu á Gullfossi til erlendra auðmanna, með dóttur sína að bakhjarli. Þegar ég leit Gullfoss í fyrsta sinn, haustið 1953, lifði hugmyndin um virkjun hans enn góðu lífi og það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum að þau áform voru loks kveðin niður. Að því stóð Náttúruverndarráð með stuðningi fóstbróður Sigríðar.
 
Í dag líkt og þá stöndum við frammi fyrir stórum spurningum um umgengni okkar við íslenska náttúru. Alþingi hefur fengið í hendur tillögur stjórnvalda um Rammaáætlun. Hún er skref í rétta átt, en margt er við hana að athuga, ekki síst varðandi jarðvarmavirkjanir. Er hugsanlegt að Alþingi afgreiði hana með mestallan Reykjanesskagann frá Krýsuvík og vestur úr opinn fyrir umróti í þágu slíkra virkjana? Mikið er hér í húfi um ráðstöfun lands og framtíðarloftgæði á aðalþéttbýlissvæði landsins.

Við sem komin erum á efri ár höfum lifað mesta breytingaskeið í sögu mannkyns. Á mælikvarða tölvualdar liggja mínar rætur í fornöld, þar sem ég var alinn upp við bústörf, orf og ljá, og í skógi sem fékk að vaxa að mestu ótruflaður. Ég var snemma ákveðinn í að nema náttúrufræði, vegna þess að ég taldi að í þeim fræðum væri fólginn lykill til skilnings á mannlífi og umhverfi. Skrifaði ekki Jónas Hallgrímsson náttúrufræðingur, síðar þekktari sem skáld: „Náttúrufræðin er allra vísinda indælust og nytsemi hennar harla mikil og margfaldleg‟

Enn í dag tek ég undir það að þekking á náttúrunni, dauðri og lifandi, er góð og gefandi, en við náum skammt með hana eina að vegarnesti. Síst þýðingarminni og helst samofin þarf að vera almenn þekking á umhverfinu, því félagslega og hagræna, og þeim öflum sem takast á í mannlegum samskiptum. Þar mega siðræn viðhorf síst verða hornreka. Náttúruvernd er ekki sérfræði heldur stefna um vænlegar leiðir til að lifa af í sátt við umhverfið.

Þetta markmið, sátt við umhverfið er nú í uppnámi á heimsvísu. Mannkynið fjarlægist hratt fyrirheitið um sjálfbæra þróun. Á heimilinu Jörð, sem nú hýsir sjö miljarða manna, stefnir flest í þrot að óbreyttum búskaparháttum: andrými, óspillt náttúra, vatn og orka. Þeir sem hafa orð á þessu eru oft nefndir heimsendaspámenn. Menn eiga að vera bjartsýnir, annað selur ekki! Á meðan herðir vistkreppan sín tök. Aðeins uppvaxandi kynslóð getur orkað að snúa baki við þessari feigðarför. Þekkingin ætti að vera til staðar, sé henni beint í réttan farveg. Vissulega sjáum við víða vaxandi skilning, sem m.a. birtist í góðri þátttöku í viðburðum þessa dags. En meira þarf til. Allir dagar ársins þurfa að miða að umhverfis- og náttúruvernd samhliða hófsömu heimilishaldi og sjálfbærri hagstjórn.

Góðir tilheyrendur. Öll eigum við drauma, og í fögru og gjöfulu landi eigum við kost á að láta þá rætast, þó aðeins ef við kunnum fótum okkar forráð. Einnig skáld og aðrir listamenn eru góðir förunautar í þeirri vegferð.

Eitt af síðustu ljóðum Steins Steinars varð til við heimkomu hans úr Austurvegi vorið 1954. Það heitir Landsýn og hljóðar svo:
 
Ísland, minn draumur, mín þjáning, mín þrá
mitt þróttleysi og viðnám í senn.
Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá
hún vakir og lifir þó enn.

Sjá, hér er minn staður, mitt líf og mitt lán
og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.
Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán,
mín skömm og mín tár og mitt blóð.

Látum ekki skrínlagða heimsku ná tökum á okkur. Gætum landsins okkar, byggða og blárra víðerna, og hafsins umhverfis. Og umfram allt: Köstum ekki árunum fyrir borð, við þurfum á þeim að halda til að lifa af.

Til hamingju með daginn og framtíðina.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim