Hjörleifur Guttormsson 16. október 2012

Bjarnarflagsvirkjun er afleit hugmynd

Málefni Bjarnarflagsvirkjunar eru á ný í brennipunkti eftir að stjórn Landverndar fór fram á það við Landsvirkjun 7. október 2012 að fyrirtækið stöðvi framkvæmdir við virkjunina á meðan Rammaáætlun er óafgreidd á Alþingi. Jafnframt óskar Landvernd eftir að unnið verði nýtt mat á umhverfisáhrifum vegna þessarar fyrirhuguðu virkjunar og málið verði skoðað í ljósi þess að Mývatn og Laxá eru síðan 1977 alþjóðlegt Ramsarsvæði. Ég styð eindregið þetta erindi Landverndar og þá undirskriftasöfnun sem nú er hafin til að fylgja því eftir.

Löng og lærdómsrík saga

Þegar ákvörðun var tekin um Kröfluvirkjun árið 1975 og framkvæmdir hófust við virkjunina skömmu áður en eldsumbrot hófust á Kröflusvæðinu síðla á því ári var fjallað um málið í Náttúruverndarráði. Af hálfu Kröflunefndar og ríkisins sem framkvæmdaaðila stóð valið milli jarðhitasvæðanna við Kröflu og við Námafjall (Hverarönd, Bjarnarflag). Niðurstaða Náttúruverndarráðs var að af tveimur kostum væri ráðlegra að nýta Kröflusvæðið til virkjunar. Réði þar mestu nálægð Námafjallssvæðisins við Mývatn og meiri mengunarhætta af framkvæmdum þar fyrir lífríki vatnsins. Engum í ráðinu kom þá til hugar að nokkrum áratugum síðar myndu orkuyfirvöld stefna að því að nýta bæði svæðin undir virkjanir. Þetta gerðist þó í tengslum við breytingu á lögum um raforkuver á Alþingi 1998–1999 (mál 471 á 123. löggjafarþingi). Þá var af meirihluta iðnaðarnefndar þingsins orðið við skyndilegri ósk Landsvirkjunar þess efnis að nefndin beitti sér fyrir breytingu á frumvarpinu þannig að leyfð yrði 40 MW virkjun jarðgufuorku í Bjarnarflagi við Námafjall. Tillaga meirihluta nefndarinnar sem tók undir þetta erindi Landsvirkjunar var samþykkt mep 5 mótatkvæðum okkar þingmanna óháðra, sem áttum þátt í stofnun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs þennan sama vetur. Í minnihlutaáliti sem ég stóð að í iðnaðarnefnd rökstuddi ég andstöðu þingflokks óháðra við frumvarpið, ekki síst viðaukann um 40 MW virkjun í Bjarnarflagi. Þar sagði ég m.a.:
„Á bak við óskir Landsvirkjunar vaka hugmyndir um gjörnýtingu háhitasvæðisins og skýrt er gefið til kynna í fyrirliggjandi gögnum að fyrirtækið hafi hug á að reisa aðra virkjun síðar á svipuðum slóðum.‟

Meira en tvöföldun á stærð

Því miður reyndist ég sannspár um það hvað fyrir Landsvirkjun vakti á þessum tíma. Þótt í lagaheimildinni sem knúin var fram á lokadögum þinghalds fyrir alþingiskosningarnar 1999 væri gert ráð fyrir „aðeins‟ 40 MW jarðgufuvirkjun leið ekki á löngu að fyrirtækið færði sig upp á skaftið. Í desember 2003 lagði Landsvirkjun öðru sinni fram matsskýrslu til Skipulagsstofnunar og þá vegna umhverfisáhrifa 90 MW virkjunar. Í inngangi að þeirri skýrslu segir:
„Meginástæða þess að nú er stefnt að 90 MWe virkjun, í stað 40 MWe virkjunar áður, eru nýjar mælingar sem gefa til kynna að jarðhitasvæðið sé stærra og afkastameira en áður var talið og með tengingu við Kröflusvæðið.‟
Skipulagsstofnun féllst á þessum tíma (26. febrúar 2004) á framkvæmdina með tilteknum skilyrðum, en viðurkenndi um leið „að nokkur óvissa ríki um áhrif svo umfangsmikillar vinnslu á jarðhitakerfið vegna skorts á þekkingu og reynslu á langtímarekstri stórra jarðhitavirkjana.‟ Jafnframt tiltók Skipulagsstofnun að til staðar væru margir áhættuþættir af náttúruvá sem hugsanlegt sé að geti valdið skaða á rekstrartíma virkjunarinnar. – Síðan þetta mat lá fyrir eru liðin nær 9 ár og margháttuð og misjöfn reynsla er síðan fengin af rekstri stórra jarðhitavirkjana. Óverjandi er að ætla nú að byggja framkvæmdir við Bjarnarflagssvirkjun á þessu úrelta mati.

Námafjallssvæðið færist í verndarflokk

Rammaáætlun er enn til umfjöllunar í þingnefnd á Alþingi og óvíst hvenær afgreiðslu hennar lýkur. Samt hefur Landsvirkjun með samþykki sveitarstjórnar Skútustaðahrepps hafið framkvæmdir við Bjarnarflagsvirkjun. Með þessu gengur fyrirtækið fram af ótrúlegri óbilgirni og í engu samræmi við yfirlýsingar ráðamanna þess undanfarið um að þeir vilji sýna tillitssemi og fara í hvívetna að lögum. Meðal umsagna sem liggja fyrir um Rammaáætlun er erindi mitt frá 11. nóv. 2011 þess efnis að háhitasvæðið við Námafjall með Bjarnarflagsvirkjun færist úr nýtingarflokki í verndarflokk. Í rökstuðningi fyrir þeirri tillögu segir:
Engu má hætta til um mengun í Mývatn frá slíkri virkjun, og hugsanleg skáborun undir Námafjall myndi setja jarðhitasvæðið við Hverarönd í hættu þannig að hætta er á að því verði raskað.
Laumuspil Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi fyrir „landmótun á stöðvarhússlóð og hluta vegar í Bjarnarflagi‟,sem sveitarstjórn samþykkti með tölvupósti 3. júlí sl. en staðfesti síðan á fundi 30. ágúst sl., er hvorugum aðilanum samboðin.
Allir þeir sem láta sér annt um íslenska náttúru og verndun Mývatns og Laxár þurfa að fylkja liði með því að skrifa undir hógværa áskorun stjórnar Landverndar.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim