Hjörleifur Guttormsson 17. desember 2012

Breskir kjósendur snúast gegn ESB-aðild

Á sama tíma og forysta ESB leggur höfuðáherslu á að auka miðstýringu innan sambandsins, nú síðast á fjármálasviði með sameiginlegu bankaeftirliti sem skrefi í átt að sameiginlegri fjármálastjórn (Fiscal union), vex andstaða við aðild í ESB-ríkjum sem ekki hafa tekið upp evru. Svíar virðast staðráðnir í standa utan við slíka yfirstjórn að ekki sé talað um Breta sem standa staðfestir gegn auknum samruna. Almenningsálitið í Bretlandi verður æ gagnrýnna á áframhaldandi aðild að ESB og þrýstingurinn á David Cameron að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild, af eða á, fer ört vaxandi.

Stóraukið fylgi mælist nú við Breska sjálfstæðisflokkinn UKIP (UK Independence Party) sem virðist í góðri leið með að verða þriðja stærsta aflið í breskum stjórmálum ef marka má skoðanakannanir og úrslit í aukakosningum á síðustu vikum. Flokkurinn sem hefur að meginmarkmiði úrsögn Bretlands úr ESB var stofnaður 1993 í andstöðu við Maastricht-sáttmálann. Hann á nú þrettán fulltrúa á Evrópuþinginu í Strassburg og fékk 16,5% atkvæða í þeim kosningum 2009. Almenn stefna hans er af andstæðingum sögð hægri sinnuð og pópúlísk, en flokkurinn boðar m.a. aukið beint lýðræði að svissneskri fyrirmynd.

Vikuritið Economist, sem almennt er hallt undir ESB-málstaðinn, fjallaði í liðinni viku í leiðara og sérstakri úttekt um breytinguna á afstöðu Breta til ESB undir fyrirsögninni „Goodbye Europe“. Telur ritstjórnin að æ erfiðara verði fyrir David Cameron að standast  þrýsting úr eigin flokki gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að sambandinu. Sjálfur vilji hann helst halda Bretum áfram innan ESB en skilyrði fyrir því sé að dregið verði úr völdum Brussel-stjórnarinnar, andstætt við það sem er að gerast í reynd.

En breskir íhaldsmenn eru ekki þeir einu sem gerast ókyrrir vegna breytts almenningsálits heima fyrir. Einnig innan Verkamannaflokksins sækja andstöðuöfl við ESB-aðild í sig veðrið. Þannig lögðust breskir krataþingmenn á sveif með gagnrýnum íhaldsmönnum sl. haust við afgreiðslu á fjárlagafrumvarpi ESB og náðu sameiginlega að knýja fram breytingu til lækkunar. Þessi staða eykur enn þrýsting á breska forsætisráðherrann að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild.

Breskir græningjar (Green Party of England and Wales) eru gagnrýnir í afstöðu sinni til ESB. Flokkurinn fékk 0.9% í þingkosningunum 2010 og náði formaðurinn, Caroline Lucas, kjöri í Neðri málstofunni. Flokkurinn hefur verið að vinna á í sveitarstjórnum.

Í Bretlandi færast nú í aukana bollaleggingar um aðra kosti en beina aðild í samskiptum við ESB. Sumir nefna í því sambandi að Bretar gætu sóst eftir aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, en þegar andstæðingum aðildar verður ljóst hvernig EES virkar með skylduáritun á tilskipanir frá Brussel, gerast þeir fráhverfir. Samningur Svisslendinga við ESB kemur einnig inn í þessa umræðu og jafnvel að hverfa eigi að nýju að EFTA-aðild, sem Bretar sögðu sig frá 1973 um leið og þeir gengu í ESB.

Í ESB takast þannig á afar ólík sjónarmið nú þegar harðnað hefur á dalnum hjá sambandinu vegna skuldakreppunnar, sem ekkert lát er á. Jólaglaðningurinn frá hagfræðingum Evrópska seðlabankans er ekki beint uppörvandi þessa dagana. Samdráttur í vergri þjóðarframleiðslu á ESB-svæðinu ætlar að reynast 0,5% á árinu 2012 og stefnir áfram niður á við á því næsta.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim