Hjörleifur Guttormsson 18. nóvember 2012

Aumt er að sjá í einni lest ...

Inn um dyrnar hjá mér barst fyrir síðustu helgi kynningarbæklingur um forval VG í „Reykjavíkurkjördæmi“ vegna komandi alþingiskosninga. Þar kynna 12 frambjóðendur hugðarefni sín og pólitískar áherslur. Þar kennir að vonum ýmissa grasa og er flest kunnuglegt. Eitt stendur þó upp úr eftir þessa kynningu. Ekki einn einasti frambjóðandi, karl eða kona, dregur fram í þessum bæklingi andstöðu við aðild Íslands að Evrópusambandinu sem eitt af baráttumálum sínum. Nafn Evrópusambandsins ber raunar hvergi á góma hjá því VG-fólki sem hér býður sig fram til þings, með einni undantekningu þó. Sá einstaklingur hefur ekki gert upp við sig hvort kostirnir eða gallarnir við ESB-aðild vegi þyngra. Skyldu ekki fleiri í þessum frambjóðendahópi sem hér kynnir sína pólitísku sýn vera á sömu slóð? Þögnin um þetta stærsta sjálfstæðismál Íslendinga hjá frambjóðendum flokks sem haft hefur andstöðu við ESB-aðild sem stefnumál frá byrjun, er afhjúpandi og dapurleg staðreynd.

Eftir höfðinu dansa limirnir

Margir þeir sem ljáð hafa VG lið síðasta áratuginn hafa allt fram að þessu ekki viljað trúa því að þessi grunnstoð í stefnu flokksins yrði látin falla. Það gerðist hinsvegar við myndun núverandi ríkisstjórnar vorið 2009, þvert ofan í hátíðlega svardaga. Á umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu bera formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, og varaformaðurinn, Katrín Jakobsdóttir, fulla ábyrgð og þeir þingmenn flokksins sem fylgdu þeim að málum í atkvæðagreiðslu á Alþingi 16. júlí 2009. Í þeim hópi voru án undantekninga allir þeir þingmenn VG sem nú sækjast eftir endurkjöri í Reykjavík, sumir með rökstuðningi sem Ragnar Reykás hefði verið fullsæmdur af. Öðru hvoru hafa þessir sömu þingmenn gefið til kynna að þeir væru ekki alveg gengnir í björg og að leiða þyrfti aðildarferlið til lykta á þessum vetri – fyrir kosningar. Á ekkert slíkt er minnst nú, þegar viðkomandi leita eftir stuðningi félaga sinna.

Er tilraunin að mistakast?

Stofnun VG 1999 var djörf aðgerð sem fékk stuðning hugsjónafólks úr ýmsum áttum. Við klassískar vinstri áherslur um jöfnuð bættist umhverfisvernd, kvenfrelsi og baráttan fyrir óháðu Íslandi. Andstaðan við ESB-aðild og ný sýn til umhverfismála greindu skýrt á milli VG og Samfylkingar, sem hafði Evrópusambandsaðild sem meginboðskap. Á þessum forsendum náði VG umtalsverðu fylgi og lengi vel vaxandi  hljómgrunni um land allt. Lifandi starf var í flestum flokkseiningum og góður hugmyndalegur grunnur lagður með virkri þátttöku félags- og stuðningsmanna flokksins. Viðsnúningurinn frá þeirri stöðu sem byggð hafði verið upp fyrir alþingiskosningarnar 2007 og 2009 er hvað innviði snertir hörmulegur. Flokksforystan taldi sér trú um að með þátttöku í ríkisstjórn væri hún komin í skipsrúm til langs tíma. Hún hætti að rækta garðinn og trúnað við umbjóðendur sína, fólkið sem borið hafði hana til valda. Nú þegar andstaðan við aðild að ESB er orðin slíkt aukaatriði að frambjóðendur VG nefna hana ekki á nafn þegar þeir gera grein fyrir sér, er fokið í flest skjól. Flokkurinn sem við stofnuðum um aldamótin er því miður að verða ósjálfbært rekald við hliðina á Samfylkingunni.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim