Hjörleifur Guttormsson 19. janúar 2012

Að fara úr öskunni í eldinn

Viðamikil úttekt norskra stjórnvalda á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem gekk í gildi í ársbyrjun 1994, hefur nú verið kynnt og vakið athygli. Þar er dreginn fram sá mikli lýðræðishalli sem fylgt hefur samningnum frá byrjun en  honum jafnframt talið efnahagslega margt til tekna. Hvorugt á að koma á óvart, né heldur síendurteknar tilraunir Samfylkingarinnar að nota nú EES-samninginn sem rök fyrir inngöngu í Evrópusambandið.

Andstæðingar EES bentu á ágallana

Hugmyndin að EES-samningnum varð til fyrir aldarfjórðungi í smiðju nokkurra forystumanna sósíaldemókrata á meginlandinu með Jacques Delors yfirkommissar og Gro Harlem Bruntland forsætisráðherra Noregs í fararbroddi. Forystumenn norskra krata höfðu lengi leitað lags til að hefna harma frá árinu 1972 þegar aðildarsamningur Noregs og EB var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi. EES-samningurinn átti að vera lykillinn að því að taka málið upp öðru sinni og sigrast á andstöðunni við EB-aðild í Noregi. Sem fulltrúi í Evrópustefnunefnd Alþingis og utanríkismálanefnd á þessum árum fylgdist ég með framvindu mála og benti m.a. á að með EES væri í aðsigi veruleg skerðing á stjórnarfarslegu sjálfstæði Íslands. Í nefndaráliti til Alþingis 1990 sagði ég um samningsdrögin: „Hér blasir því við valdaafsal sem vart gæti orðið að veruleika nema að undangenginni stjórnarskrárbreytingu.‟ Undir þetta var tekið af Samstöðu um óháð Ísland sem krafðist þjóðaratkvæðis um samninginn.

Heyr á endemin!

Nú láta þeir sem fastast sækja að koma Íslandi í ESB sem þeim hafi verið ljós frá upphafi ólýðræðisleg áhrif EES á íslenskt stjórnkerfi.  Össur utanríkisráðherra tekur nú undir niðurstöðu norsku skýrslunnar um fullveldisframsal og hefur fréttamaður eftir honum að fyrir 18 árum hafi EES-samningurinn „verið nálægt því‟ að standast ekki stjórnarskrána. Orðrétt sagði Össur í sjónvarpsviðtali 17. janúar sl.:

„Ég held að þróunin hafi verið svo hröð síðan að við séum komin út fyrir það, að það sé algjörlega nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni til að heimila í reynd þessar ákvarðanir og þetta valdaframsal sem er í dag.‟

Við samþykkt EES-samningsins 1993 höfðu hvorki Össur Skarphéðinsson né Jón Hannibalsson sem ráðherrar og þingmenn minnstu efasemdir um að hann stæðist stjórnarskrá og andmæltu því að með honum yrði Alþingi í ríkum mæli svipt áhrifum á lagasetningu. Nú taka þeir báðir fagnandi mati norsku skýrslunnar um fullveldisframsal vegna EES og vilja nýta það til að opna allar gáttir fyrir aðild að Evrópusambandinu. Einnig á þessa úthugsuðu leikfléttu bentu andstæðingar EES-samningsins þráfaldlega fyrir tveimur áratugum.

Vörslumaður í hlutverki trúðsins

Þegar fjölmargir lýstu í aðdraganda EES-samningsins yfir áhyggjum út af óviðunandi valdaafsali brugðust talsmenn samningsins með forystu Alþýðuflokksins í fararbroddi við með því að staðhæfa, að í samningnum sjálfum sé að finna innbyggð ákvæði sem geri kleift að hafa áhrifa á tilskipanir frá Brussel, bæði á mótunar- og framkvæmdastigi. Þetta átti að gerast innan EES-ráðsins, með sameiginlegri EES-nefnd og sérstakri þingmanna- og ráðgjafanefnd (89.–96. gr. EES-samningsins), með ákvæðum um ákvarðanatöku (97.–104. grein), að ógleymdum „öryggisráðstöfunum‟ (112.–114. grein) sem veiti samningsaðilum neitunarvald ef í harðbakka slær. Nú heyrum við frá Össuri utanríkisráðherra, vörslumanni samningsins fyrir Íslands hönd, að þetta hafi allt verið í plati frá upphafi. Í sjónvarpsviðtalinu 17. janúar sl. sagði hann orðrétt:

„Sjálfum finnst mér því töluvert niðurlægjandi fyrir íslenska þingið að þurfa að taka nánast vikulega við einhverjum ákvörðunum, tilskipunum, reglum, mjög oft lagafrumvörpum og samþykkja það meira og minna eins og allir vita án þess að geta haft áhrif á þessar niðurstöður.‟

Það væri ekki úr vegi að Alþingi beiti sér svipað og Norðmenn fyrir óháðri rannsókn á því, hvernig framkvæmdavaldið og íslenska utanríkisþjónustan hafi rækt hlutverk sitt innan EES-samningsins frá upphafi. Ekki er umdeilt að kostnaðurinn við allt það kerfi hefur numið háum fjárhæðum.

Tilgangurinn helgar meðalið

Ef Jón Hannibalsson sem utanríkisráðherra og síðan arftaki hans Halldór Ásgrímsson hefðu mátt ráða í samstjórn með Sjálfstæðisflokknum 1991–2006 væri Ísland löngu farið úr öskunni í eldinn og orðið aðili að Evrópusambandinu. Þrátt fyrir augljósar takmarkanir og ágalla EES-samningsins þarf sérstakt hugarástand og ósvífni til að staðhæfa að í honum felist meira framsal á fullveldi en innganga í ESB.  Össur segir þetta nú eitt af sterkustu rökunum fyrir að leita þar inngöngu

„ ... þar sem að við getum að minnsta kosti stappað niður fæti, beitt neitunarvaldi, læst okkur saman við aðrar smáþjóðir eftir atvikum um okkar hagsmunamál.”

Það er ekki ónýtt fyrir ESB sem samningsaðila um inngöngu Íslands í Evrópusambandið að vita af rétttrúuðum viðmælendum hér í norðri. Spurningin er hversu lengi Vinstrihreyfingin - grænt framboð sem ábekingur aðildarumsóknar ætlar að halda vegferðinni áfram undir slíkri forystu.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim