Hjörleifur Guttormsson 21. nóvember 2012

Að semja um ESB-aðild til að fella hana!

Í „opnu bréfi“ til mín í gærmorgun reynir Svandís Svavarsdóttir að réttlæta það fyrir sjálfri sér og öðrum að enginn frambjóðandi VG til forvals í Reykjavík nefnir andstöðu við aðild að Evrópusambandinu í kynningu á baráttumálum sínum. Skýringuna á þessari þögn segir hún vera „að í 200 orða kynningum okkar nefnum við ekki þetta grundvallaratriði í stefnu VG vegna þess að við teljum það skýrt og sjálfsagt.“ Samt er það svo að hún og flestir aðrir tiltaka aðrar helstu stefnuáherslur VG í þessum stuttu pistlum, en ESB-andstaðan liggur í þagnargildi. Sjálf leggur Svandís áherslu á „félagslegt réttlæti og jöfnuð, skýra sýn í umhverfis- og náttúruverndarmálum og sterka kvenfrelsisrödd í öllum málaflokkum.“ Katrín Jakobsdóttir ætlar að vinna að „kvenfrelsi, umhverfisvernd og félagslegu réttlæti“.Árni Þór Sigurðsson segir: „Baráttan í næstu alþingiskosningum mun snúast um leiðarval, hvort áfram eigi að feta leiðina til jöfnuðar og félagshyggju ...“,   Álfheiður Ingadóttir segir „Réttlæti, kvenfrelsi og umhverfisvernd eru mín leiðarljós í pólitík ...“, og Björn Valur Gíslason segir brýnustu hagsmunamálin vera „að efla velferðarkerfið, auka jöfnuð, umhverfismál og tryggja þjóðareign á auðlindum landsins.“ Nokkrir aðrir frambjóðendur nefna úrsögn úr Nató og friðarstefnu. Eru tilvitnuð sýnishorn ekki „skýr og sjálfsögð“ grundvallaratriði í stefnu VG? Í ljósi þessa er þögn frambjóðenda flokksins um Evrópusambandið hrópleg, ekki síst í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem VG ber ríka ábyrgð á með aðildarumsókn.

„Að ljúka umsóknarferlinu“

„ ... ég vil ljúka umsóknarferlinu svo við getum fellt umsóknina í þjóðaratkvæðagreiðslu.“ er stefnuyfirlýsing af hálfu Svandísar í þessu bréfi. Hér er ekki lengur talað um að gera þurfi málið upp fyrir kosningar, eins og hún og Katrín og jafnvel Árni Þór voru að orða síðsumars. Nú er boðskapurinn að gera aðildarsamning við ESB fyrir hönd Íslands svo að „við“ getum fellt hann í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fátt sýnir betur þann gapastokk sem VG-forystan sem aðili að ríkisstjórn hefur komið flokknum og þjóðinni í með framferði sínu, ábyrgð meirihluta Alþingis ekki undanskilin. Ríkisstjórn sem gerir skuldbindandi aðildarsamning við ESB er að sjálfsögðu ábyrg fyrir honum ásamt þeim stjórnmálaflokkum sem að henni standa. Enginn ágreiningur er um það hérlendis að slíkan samning, ef gerður yrði, beri að staðfesta eða fella í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að stofna til slíkrar vegferðar af stjórnmálaflokki sem er andvígur aðild ber hins vegar vott um alvarlegan geðklofa. Á síðasta landsfundi VG haustið 2011 var m.a. samþykkt: „Landsfundurinn telur það eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar.“ Þeir vita sem vilja að engar efndir hafa orðið á því fyrirheiti.

Grafalvarleg staða

Það líður að alþingiskosningum þar sem kjósendur gera upp við frambjóðendur og flokka vegna stefnu þeirra og efnda á gefnum yfirlýsingum. Umsókn Íslands að Evrópusambandinu verður eitt stærsta málið í aðdraganda kosninganna. Menn munu rifja upp yfirlýsingar og efndir forystumanna í því máli sem öðrum. VG hefur þegar misst fjölmarga úr sínum röðum vegna þess hvernig á þessu stórmáli hefur verið haldið af forystu flokksins á Alþingi og í ríkisstjórn á kjörtímabilinu. Þögn frambjóðenda nú bætir þar ekki úr skák. Það eru síðustu forvöð fyrir VG að standa við yfirlýsta stefnu gegn aðild að ESB í stað þess að láta draga sig lengra út í ófæruna. Eftir kosningar verður það um seinan.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim