Hjörleifur Guttormsson 23. ágúst 2012

Framfylgjum stefnu okkar gegn ESB-aðild

Það er góðra gjalda vert að tveir ráðherrar í ríkisstjórn, Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir, virðast orðnar sér meðvitaðar um að Vinstrihreyfingin grænt framboð getur ekki lagt upp í kosningabaráttu með óljósa stefnu í reynd gagnvart Evrópusambandinu. Flokksforysta VG ber ábyrgð á því að sótt var um aðild þvert gegn eigin stefnu og sú mótsögn hefur að vonum reynst það innanmein sem yfirskyggt hefur jákvæðan árangur í margháttuðu björgunarstarfi eftir hrunið 2008. Yfirstandandi viðræðum við ESB um aðild Íslands að sambandinu verður ekki líkt við annað en leikhús fáránleikans, þar sem aðeins einn stjórnmálaflokkur í landinu, Samfylkingin, stendur að baki málinu og fullljóst að meirihluti landsmanna er andvígur aðild. Enginn botn fæst í viðræður um „kaup og kjör‟ í Brussel á þessu kjörtímabili, enda þurfa menn engar viðræður til að setja sig inn í þann grundvöll sem ESB hefur byggt á til þessa og er forsenda aðildar.

Evrópusambandið í sögulegu uppnámi

Ein af grunnstoðum VG hefur frá stofnun flokksins verið að beita sér gegn aðild Íslands að ESB. Um síðustu aldamót var engan veginn ljóst hvert stefndi um þennan afdrifaríka þátt í sjálfstæðisbaráttu okkar. Samfylkingin hafði þá gert ESB-aðild að líftaug sinni og Framsóknarflokkurinn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar stefndi augljóslega í sömu átt. Halldór spáði því áður en hann hvarf af vettvangi að Ísland yrði komið í ESB árið 2015 og hávær öfl innan Sjálfstæðisflokksins lögðust þá á sömu sveif. Þetta landslag hefur breyst hér innanlands en það sem skiptir sköpum er að Evrópusambandið er nú í upplausn vegna innri mótsagna. Pólitískt forræði Þýskalands í ESB með Frakkland í handraðanum blasir nú við skýrar en áður og það sem áður var rætt um sem lýðræðishalla í sambandinu birtist mönnum nú sem „diktat‟ frá Berlín. Bjarghringurinn sem litið er til í Berlín og Brussel felst í yfirtöku ESB á efnahags- og fjármálastjórn aðildarlanda og þannig grundvallarbreytingu í átt að sambandsríki. Hvers konar vitfirring er það við slíkar aðstæður að standa í aðildarviðræðum af Íslands hálfu og aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að ESB?

Hvernig kemst VG út úr ógöngunum?

Ábyrgð VG við þessar aðstæður snertir ekki aðeins sjálfsmynd og líftaug flokksins heldur trúverðugleika stjórnmálanna og þar með lýðræðislegar undirstöður íslenska stjórnkerfisins.
Hvers konar skilaboð eru það til ungra Íslendinga að stjórnmálaflokkur eins og VG sé á kafi í aðildarviðræðum við ESB þvert gegn boðaðri stefnu? Tilraun VG-forystunnar til að skýra fráhvarf frá eigin stefnumiðum fólst í því að þjóðin ætti að lokum að ráða niðurstöðu og VG þannig að gerast einskonar viljalaus ferja í aðildarferli. Stjórnskipulega var sú hugsun rökleysa frá upphafi og inn á við fól hún í sér skilaboð þess efnis að flokkurinn væri aðeins umbúðir utan um ráðherrastóla. Þessi aðferðafræði hefur orðið VG dýrkeypt og vonlaust er að tjalda henni til í aðdraganda ksoninga. Það er rétt sem Svandís Svavarsdóttir segir í eintali sínu við DV um síðustu helgi:

„Er ekki í lagi að staldra aðeins við og ræða það hvort við eigum að halda okkar striki [í ESB-ferlinu] eða breyta taktinum? Hvað gerist ef fólk kýs til þings og þessi mál eru ófrágengin, viljum við hafa það þannig? Ég tel að þá verði hætt við því að kosningarnar muni snúast alfarið um ESB en ekki árangur ríkisstjórnarinnar. Mér finnst að það eigi að halda alþingiskosningunum í skjóli frá þessari umræðu.‟

Alþingi hlýtur að taka í taumana

Alþingi kemur saman á ný innan skamms. Sagt er að sjálfsvirðing þingsins sé í lágmarki. Lykillinn að því að bæta þá ímynd felst ekki síst í því að stjórnmálaflokkarnir taki til í eigin ranni og marki sér skýra og rökstudda stefnu. EES-samningurinn og það færiband með aðsendri löggjöf sem af honum hefur hlotist er hluti af gengislækkun og óskýrri sjálfsmynd þingsins. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem liður í  taflinu um ríkisstjórnaraðild hefur síðan reynst enn afdrifaríkari og laskað ásýnd Alþingis og traust almennings á stjórnmálastarfi. Nú reynir á Alþingi að koma böndum á þennan skollaleik og í þeim efnum þarf VG að svara skýrt. Forysta flokks verður að geta horfst í augu við fólkið sem er ætlað að vera burðarásar í stjórnmálastarfi, að ekki sé talað um að skírskota til trausts manna þegar kemur að kjörklefanum.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim