Hjörleifur Guttormsson 27. ágúst 2012

Umsögn
 vegna endurskoðunar laga um skógrækt og landgræðslu

Undirritaður hefur kynnt sér eftir föngum tillögur nefnda á vegum umhverfisráðuneytis um efni nýrra landgræðslulaga og nýrra skógræktarlaga. Umræddir lagabálkar eru um og yfir hálfrar aldar gamlir og margar tilraunir til endurskoðunar þeirra hafa ekki náð fram að ganga. Nauðsyn nýrrar löggjafar á sviði gróður- og jarðvegsverndar er augljós og hún þarf að endurspegla fjölþætta reynslu og áunna þekkingu ásamt með alþjóðlegum viðmiðum og skuldbindingum sem Ísland hefur gerst aðili að. 

Tillögur 1994–1999.

Sem alþingismaður flutti ég á árunum 1994–1998 ásamt með tveimur meðflutningsmönnum (Össuri Skarphéðinssyni og Kristínu Halldórsdóttur) frumvarp til breytinga á lögum um landgræðslu og náðu fáein ákvæði þess þá inn í endurskoðuð lög um náttúruvernd (nr. 44 1999), þ.e. varðandi notkun innfluttra tegunda til landgræðslu. Jafnframt gerði tillaga okkar ráð fyrir heildarendurskoðun landgræðslulaganna með sérstakri áherslu á jarðvegs- og gróðurvernd. Voru sett fram viðmið þar að lútandi og fylgja þau til hliðsjónar með umsögn þessari,sjá fylgiskjal I.

Ábyrgð nýs auðlindaráðuneytis.

Sú nálgun sem umhverfisráðuneytið, nú umhverfis- og auðlindaráðuneyti, hefur valið við endurskoðun umræddra lagabálka veldur vonbrigðum. Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands sem umhverfisráðuneytið stóð að og gaf út á árinu 2011 vakti vonir um  heildstæðari efnistök en tíðkast hafa hingað til í löggjafarstarfi á þessu sviði. Þótt vinna nefndarinnar sem þá skilaði af sér hvítbókinni beindist öðru fremur að endurskoðun laga um náttúruvernd voru þar settar fram hugmyndir og tillögur um vernd, nýtingu og vöktun náttúrugæða sem byggja hefði mátt á tillögur að frekari endurskoðun laga á auðlindasviði. Þessa sjást því miður alltof lítil merki í þeim tillögum sem hér eru til umræðu.

Stefnumörkun VG frá 2007 sniðgengin.  

Vorið 2007 birtist stefnumörkun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um sjálfbæra þróun undir heitinu Græn framtíð,  sjá fylgiskjal II. Byggði hún á starfi margra innan flokksins. Þar er í 18 köflum farið yfir helstu svið umhverfis- og auðlindamála og sett fram markmið til 5 ára og jafnframt til lengri tíma. Í ritinu á síðu 19–20 er sérstakur kafli um gróður- og jarðvegsvernd og þar er fyrsta markmiðið orðað þannig:

  • Að sett verði ný löggjöf um gróður- og jarðvegsvernd sem byggi á bestu fáanlegri þekkingu, ákvæðum alþjóðasamninga og reynslu hér heima og erlendis. Löggjöfin taki einnig til skógverndar, skógræktar og landgræðslu.
  • Síðan er kveðið á um auknar rannsóknir, skýra verkaskiptingu opinberra aðila, ráðuneyta, ríkis og sveitarfélaga á sviði gróður- og jarðvegsverndar og samvinnu við heimamenn. Og í lokin segir:
  • Fella verður ákvæði skipulagslaga og laga um mat á umhverfisáhrifum eftir því sem við á að ofangreindri stefnumörkun.

Í kaflanum um landnýtingu (s. 21–23) segir m.a. um markmið til næstu 5 ára:
-           Að gerður verði greinarmunur á uppgræðslu til ræktunar og vistheimtar og við ræktun nytjaskóga og landgræðsluskóga.
-           Að meginhluta til verði innlendar tegundir notaðar við endurheimt landgæða og í landgræðsluskógum en erlendar trjátegundir við nytjaskógrækt.

Heildarlöggjöf um gróður- og jarðvegsvernd. Í stað þess að ráðast í endurskoðun sérlaga um skógrækt og landgræðslu ætti að nálgast málið út frá auðlindinni gróður og jarðvegur og tengja það við skipulag, náttúruvernd og ákvæði um landnýtingu. Hliðsjón þarf jafnframt að hafa af ferskvatnsauðlindinni og vatnsvernd, sem þessu er nátengd. Þannig þarf að verða til heildarlöggjöf um gróður- og jarðvegsvernd, þar sem síðan er fjallað um einstaka undirþætti eftir því sem þörf er talin á, þar á meðal um skógvernd og nýtingu gróðurlenda.
Ekki er við þær nefndir að sakast sem settar voru til verka við að endurskoða umrædda lagabálka heldur er það forsögn ráðuneytisins ásamt samsetningu nefndanna sem leiðir af sér umræddar álitsgerðir. Þær fela í sér alltof þrönga og sértæka nálgun auk marháttaðs ósamræmis. Í tillögunum er þó víða að finna góðar hugmyndir og ásetning til úrbóta frá gildandi lögum sem fella mætti að heildstæðri löggjöf.

Tengsl við löggjöf á skyldum sviðum. Tengsl hugmynda og tillagna sem fram koma í álitsgerðum nefndanna við skipulagsmál og landnýtingu eru harla óljósar og vekja upp margar spurningar sem svara þarf áður en til lögfestingar kæmi. Þörf er m.a. á aðgreiningu milli almennrar gróðurverndar, að skógvernd meðtalinni, og nytjaskógræktar.
Þá er í tillögunum að mestu horft framhjá lagaákvæðum og stefnumörkun um  náttúruvernd og stofnanir, sem stýra meðal annars friðlýstum svæðum, friðlöndum og þjóðgörðum. Svipuðu máli gegnir um rannsóknir á gróður- og jarðvegsauðlindinni, t.d. er  rannsóknahlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa vart nefnt á nafn þótt þar sé verið að leggja grunn að vistkerfisnálgun.

Sveigjanlegri stjórnsýsla og stofnanir. Í tilögum nefndanna virðist gengið út frá sömu stofnunum á sviði landgræðslu og skógræktar og verið hafa við líði í heila öld. Eins og nefndirnar voru skipaðar var þaðan tæpast að vænta róttækra hugmynda um breytingar á þessu sviði. Sama á við um mörg álitamál sem eðlilega hafa komið upp í tímans rás, bæði varðandi markmið og leiðir í þessum málaflokkum. Nægir þar að minna á ágengar tegundir í landgræðslu og áleitnar spurningar um óljósa samtvinnun skógverndar og nytjaskógræktar. Hér verður ekki mælt fyrir um æskilegar breytingar, aðeins lögð áhersla á að álitamál séu skoðuð opnum huga og í ljósi reynslu og bestu þekkingar.

Ný málstök áður lengra er haldið. Ég tel óráð að stefna að lögfestingu umræddra lagabálka einangrað og á þeim grunni sem hér er kynntur, þótt ýmislegt megi nýta úr fyrirliggjandi álitsgerðum. Þess í stað þarf að setja heildstæð lög um jarðvegs- og gróðurvernd með hliðsjón af væntanlegri löggjöf um náttúruvernd og æskilegum skipulagsákvæðum. Innan slíkrar löggjafar verði jafnframt, eftir því sem við getur átt, m.a. kveðið á um landgræðslu, skógvernd og skógrækt, svo og sjálfbæra landnýtingu og rannsóknir til að treysta auðlindagrunninn. Heildstætt mat á þessum þáttum öllum gefur jafnframt tækifæri til að endurmeta stjórnsýslu- og stofnanauppbyggingu kringum þessa málaflokka með hliðsjón af markmiðum um náttúruvernd og sjálfbæra þróun.

Hjörleifur Guttormsson
náttúrufræðingur

 

 

Fylgiskjal I:

Heildarendurskoðun laga um landgræðslu. [Hugmyndir settar fram 1998]
Úr greinargerð með frumvarpi til breytinga á lögum um landgræðslu, þingmál 111 á 123. löggjafarþingi 1998–99. Þskj. 111. Flutningsmenn Hjörleifur Guttormsson, Össur Skarphéðinsson og Kristín Halldórsdóttir.
Lögin um landgræðslu eru að stofni til 30 ára gömul og viðhorf til gróðurverndarmála hafa breyst mikið frá þeim tíma og þekkingu hefur fleygt fram. Nægir að minna á þá byltingu í viðhorfum til náttúruverndar sem síðan er orðin og að lítið var farið að huga að jarðvegsvernd og gróðurvistfræði hérlendis á þeim tíma. Við mótun nýrrar löggjafar á þessu sviði er m.a. æskilegt:
— að samþætta lagaákvæði um verndun jarðvegs og gróðurs,
— að gera vistfræðileg og siðræn gildi að undirstöðu í verndun og nýtingu,
— að hafa að leiðarljósi ákvæði alþjóðasáttmála, m.a. um baráttu gegn eyðimerkurmynd un og verndun líffræðilegrar fjölbreytni,
— að tengja ákvæði löggjafar um jarðvegs- og gróðurvernd ásamt landgræðslu við aðra umhverfislöggjöf, m.a. lög um skipulagsmál og lög um náttúruvernd,
— að festa í sessi ákvæði um að landnotandi beri ábyrgð á meðferð og ástandi lands og að eftirlit á þessu sviði verði vel skilgreint og gert virkt.
Þótt flutningsmenn þessa frumvarps telji sig þannig geta bent á ýmislegt sem betur mætti fara til viðbótar því sem tillaga er gerð um í frumvarpi þessu þykir rétt að fleiri komi að heildarendurskoðun laganna. Hér verður til viðbótar bent á nokkur atriði sem augljóslega þurfa athugunar við í slíkri endurskoðun:
— Skipan gróðurverndarmála og landgræðslu í stjórnkerfinu.
— Tengsl við stofnanir er fjalla um skógrækt og skógvernd.
— Innra skipulag í málaflokknum, m.a. tengsl við skyld málefni.
— Menntunarkröfur til starfsmanna.
— Tilhögun rannsókna- og þróunarstarfs og yfirstjórn þess.
— Svæðisbundin tengsl í stað eða til viðbótar núverandi gróðurverndarnefndum.
— Áætlanagerð og annar undirbúningur landgræðsluaðgerða, þar á meðal mat á umhverf isáhrifum vegna fyrirhugaðrar landnotkunar.
— Fjármögnun fyrir málaflokkinn, tengd framkvæmdaáætlun.
— Samningar og tengsl við umráðaaðila yfir landi og sveitarfélög.
— Skilyrði fyrir styrkjum til landgræðslu og meðferð lands í kjölfar aðhlynningar.
— Beitarmálefni, þar með talin lausaganga sauðfjár og hrossa.
— Tengsl við rannsóknaraðila.
— Almennt eftirlit með jarðvegi og gróðri.
— Áætlanir um rannsóknaþörf og fjármögnun rannsókna.
— Tengsl og samstarf við frjáls félagasamtök.
Æskilegt er að hraða setningu nýrrar löggjafar um gróðurvernd og landgræðslu þar eð margþætt verkefni blasa við á þessu sviði.

Fylgiskjal II (rafrænt sem viðhengi)
Græn framtíð. Rit Vinstrihreyfingarinnar – græns framboð um sjálfbæra þróun, útgefið vorið 2007.  Sjá sérstaklega tilvitnaðar blaðsíður 19-23.  

Hjörleifur Guttormsson



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim