Hjörleifur Guttormsson 28. desember 2012

Utanríkisráherra í hlutverki loddara

Þeir sem lagt hafa hlustir við orðræðum Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra að undanförnu, gera sér ljóst að þar er á ferðinni maður sem tæpast getur ætlast til að vera tekinn alvarlega. Það sem meira er, þar rausar ráðherra sem er í slíku ójafnvægi þegar kemur að afdrifaríkasta máli sem hann fer með þessi árin, aðildarumsókinni að ESB, að háskalegt verður að teljast. Daginn sem ríkjaráðstefna ESB kom saman í Brussel 18. desember sl. til þess m.a. að fjalla um stöðuna í aðildarumsókn Íslands sagði ráðherrann að aðild Íslands yrði sérstök „guðsgjöf“ fyrir landsbyggðina og tiltók þrjá landsfjórðunga þar sem allt myndi snúast til betri vegar í kjölfar inngöngu. Í löngu einkaviðtali við Össur í þætti RÚV „Í vikulokin“ 22. des. bætti hann um betur. Nú var það ekki aðeins landsbyggðin sem myndi blómstra við inngöngu og upptöku evru, öll vandræði Íslands væru þar með fyrir bí. Við ungu fólki myndi blasa framtíð með „lægri vöxtum, aukinni fjárfestingu, fleiri störfum, og svo náttúrulega að losna við verðtrygginguna.“

Samfylkingin sem einsmálsflokkur

Allt frá stofnun Samfylkingarinnar fyrir síðustu aldamót hefur blasað við að þar er á ferðinni flokkur þar sem eitt meginmarkmið ræður för: Að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Þetta stefnumið tók Samfylkingin í arf frá Alþýðuflokknum og undir það beygðu sig þá ýmsir einstaklingar úr Alþýðubandalagi og fyrrum Kvennalista. Bakgrunnur þessa voru átökin um EES-samninginn í byrjun 10. áratugarins, en á þann samning leit forysta Alþýðuflokksins sem fordyri aðildar. Andstæðingar EES-samningsins bentu ítrekað á að það valdaframsal sem í honum fælist bryti gegn íslensku stjórnarskránni. Á það var ekki hlustað á þeim tíma, en nú snýr utanríkisráðherra dæminu í hring og segir að bregðast verði við reglugerðafæribandi EES með því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Svipuð gagnrýni á EES fer nú vaxandi í Noregi og þeim fer fjölgandi þarlendis sem telja ráðlegt að segja þeim samningi upp og leita þess í stað eftir tvíhliða samningi Noregs við ESB, en ella tryggi reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) frá 1995 helstu viðskiptahagsmuni gagnvart Evrópusambandinu.

Háskalegur málflutningur

Utanríkisráðherra og aðrir sem halda því fram að í boði geti verið allskyns undanþágur fyrir Ísland frá grunnsáttmálum Evrópusambandsins ættu að íhuga í hvaða stöðu þeir setja sig og  samninganefndarmenn Íslands með einhliða málflutningi um eðli yfirstandandi aðildarviðræðna og þann voða sem við Íslandi blasi ef aðild verði ekki samþykkt. Ekkert spurningarmerki er af hálfu ráðherra sett við það hvort gerður verði aðildarsamningur, verkefnið sé aðeins að „koma heim“ með það sem í boði sé af hálfu ESB og láta greiða um það þjóðaratkvæði. Á fundinum með ESB rétt fyrir jólin fullyrti Össur „að senn sæist til lands“ þótt viðræður séu hvorki hafnar um landbúnaðarmál né sjávarútveg. Þegar hann er minntur á stöðuna heima fyrir þar sem meirihluti utanríkismálanefndar leggst gegn  áframhaldi viðræðna, kemur það honum ekki við, umboð Alþingis muni halda hvað sem tautar og raular. Engin ríkisstjórn „leggi í það feigðarflan að slíta viðræðum“.

Umhugsunarefni fyrir VG

Framganga utanríkisráðherra heima sem erlendis er stöðug storkun við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, að ekki sé minnst á stjórnarandstöðuna. Langt er síðan það lá fyrir að engar lyktir yrðu á aðlögunarferli Íslands að ESB á kjörtímabilinu og engin drög að samningi til að taka afstöðu til af núverandi ríkisstjórn. Aðildarsamningur við ESB verður aldrei gerður eingöngu á ábyrgð utanríkisráðherra sem stjórnvalds, heldur þarfnast hann hið minnsta samþykkis ríkisstjórnar í umboði meirihluta Alþingis áður en til greina komi að vísa honum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samninganefnd Íslands starfar ekki í tómarúmi. Samningsdrög af hennar hálfu hafa ekkert gildi nema ríkisstjórn og þeir flokkar sem að henni standa, tækju á þeim pólitíska ábyrgð. Forysta VG hefur hingað til ekki viljað horfast í augu við þá augljósu stöðu og látið sem „þjóðin“ leysi hana undan að bera pólitíska ábyrgð á hugsanlegum samningi. Á slíkt mun hins vegar ekki reyna úr þessu. Taki Alþingi ekki af skarið fyrir kosningar og bindi enda á núverandi loddaraleik með fjöregg lands og þjóðar, blasir það verkefni við nýju Alþingi og ríkisstjórn að kosningum loknum.Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim