Hjörleifur Guttormsson 30. september 2012

Umsögn um drög að frumvarpi til náttúruverndarlaga
send umhverfisráðuneyti 25. september

Undirritaður hefur kynnt sér fyrirliggjandi drög og leyfir sér hér á eftir að koma með ábendingar sem málinu tengjast og varða efni frumvarpsins.

Á Alþingi, 140. löggjafarþingi, flutti ríkisstjórnin frumvarp til laga um breytingar á nokkrum greinum gildandi laga um náttúruvernd (225. mál). Varðaði það m.a. akstur utan vega og sérstaka vernd vissra jarðmyndana og vistkerfa. Þar eð frumvarp þetta hlaut ekki afgreiðslu leyfi ég mér að senda öðru sinni athugasemdir mínar þar að lútandi, en efnislega munu ákvæði þess frumvarps hafa verið tekin upp lítið sem ekkert breytt í fyrirliggjandi tillögudrögum að heildarlöggjöf. (Sjá fylgiskjal I)

Almennt um fyrirliggjandi tillögu

Þau drög að frumvarpi sem hér eru kynnt eru að ýmsu leyti jákvæð sem tillaga að nýrri löggjöf um náttúruvernd. Umfangsmikið starf hefur verið unnið á vegum ráðuneytisins með samantekt Hvítbókar um náttúruvernd sem kynnt var á síðasta ári, og endurspegla frumvarpsdrögin um margt þann hugmyndabanka. Leitast er við að taka mið af þekkingaröflun og alþjóðasamningum síðustu áratuga allt frá Ríó-ráðstefnunni 1992, þar á meðal meginreglum umhverfisréttar sem áður hefur verið reynt að færa inn í íslenska löggjöf. Að þessu leyti eru frumvarpsdrögin skref í rétta átt. Hins vegar vantar enn mikið á að íslensk löggjöf  hafi á mörgum sviðum umhverfismála hlotið þá endurskoðun sem brýn þörf er á og gerir það heildarmyndina óskýra og þar með óljóst inn í hvaða heildarramma fyrirhuguð sérlög um náttúruvernd eigi að falla. Hér á eftir beini ég sjónum að nokkrum mikilvægum þáttum sem á vantar en þyrftu að liggja fyrir í meginatriðum samhliða væntanlegu frumvarpi. Auk þess legg ég til efnislegar breytingar á ýmsum atriðum við frekari vinnu að frumvarpinu.

Skýra heildarmynd vantar

Sérlög um náttúruvernd taka aðeins á hluta þess lagaumhverfis sem varðar verndun og nýtingu náttúrunnar. Af 1. markmiðsgrein frumvarpsdraganna, einkum a-lið, er þó gefið til kynna langtum víðara svið en endurspeglast í texta frumvarpsins. Þar segir m.a.: „Lögin eiga að: a. stuðla að samskiptum manns og náttúru þannig að hvorki spillist líf eða land, loft eða lögur,‟. Af þessu tilefni er brýnt að í greinargerð væntanlegs frumvarps verði dregin upp mynd af helstu löggjafarþáttum sem að er stefnt til verndar íslensku umhverfi og hvernig tillögur að nýju lögum um náttúruvernd eiga að falla inn í þann ramma. Í því samhengi er m.a. rétt að minna á nýlega samþykkt skipulagslög (nr. 123/2010) og lög um stjórn vatnamála (nr. 36/2011), vatnalög nr. 132/2011,  sem og  óafgreidd löggjöf sem unnið er að endurskoðun á í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu (t.d. lög um landgræðslu og skógrækt, lög um auðlindir sem og fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála). Brýnt er að Alþingi sem og almenningur fái sem heildstæðasta sýn til umhverfismálanna, því að allir þessir þættir tengjast og þurfa að ríma saman ef vel á að takast til. Það sama á við um stofnanir og almenna stjórnsýslu á þessu víðfeðma sviði.

Hættur sem steðja að íslenskri náttúru

Brýnt er að dregnar verði fram í greinargerð væntanlegs frumvarps helstu hættur og áhættuþættir sem steðja að íslensku umhverfi sem og alþjóðlega. Slíkt yfirlit myndi auðvelda skilning og skerpa sýn til nauðsynlegra lagabóta, þar á meðal hvað vanti inn í fyrirliggjandi frumvarpsdrög. Margt um þetta efni er að finna í Hvítbók ráðuneytisins, en hún er hvorki öllum handbær né í fersku minni. Hlutverk löggjafarstarfs er m.a. að fræða, og rökstyðja um leið þörfina á tilteknum lagaákvæðum. Yfirstandandi loftslagsbreytingar af mannavöldum eru slíkur þáttur sem hafa mun í för með sér þegar á næstu áratugum víðtækar breytingar á íslensku umhverfi. Jöklar eru að hörfa og hverfa og sjór mun ganga á land með hrikalegum afleiðingum fyrir þéttbýl svæði og önnur sem fyrirhugað er að skipuleggja undir byggð. Sú spurning er nærtæk hvernig bregðast eigi við hækkun sjávarborðs, etv. um 1-2 metra á þessari öld og þaðan af meira til lengri tíma litið. Þessi vá snertir í senn skipulagsmál og náttáuruvernd.

Gróður- og jarðvegsvernd 

Eitt af framsettum markmiðum í frumvarpsdrögunum er að viðhalda fjölbreytni vistgerða og standa vörð um og efla vistkerfi landsins (2. gr.). Jarðvegur er ein af undirstöðum þess að þetta megi takast, en um jarðvegsvernd er ekki fjallað í drögunum né heldur gróðurvernd nema í tengslum við umferð og framandi tegundir. Ráðuneytið boðar nýja löggjöf um landgræðslu og skógrækt og kynnt hafa verið aðföng í slíka endurskoðun. Fyrirliggjandi drög þar að lútandi eru meingölluð. Í stað sérstakra lagabálka um landgræðslu og skógrækt ætti að setja víðtaka löggjöf um jarðvegs- og gróðurvernd, með þessa þætti sem undirkafla eftir því sem þörf er á. Um þetta hef ég nýlega skilað umsögn til ráðuneytsins og læt hana fylgja hér með sem fylgiskjal 2. A.m.k. drög að slíkri löggjöf þurfa að vera fyrirliggjandi þegar fjallað er um frumvarp til náttúruverndarlaga, svo samofin sem jarðvegs- og gróðurauðlindin og meðferð hennar er öðrum náttúrufarsþáttum landsins.

Hafið og hafsbotninn

Þótt væntanlegu frumvarpi sé ætlað að taka til hafsins innan íslenskrar efnahagslögsögu er sáralítil umfjöllun um útfærslu þeirra ákvæða sem um þetta fjalla (4. og 51. gr. ásamt greinargerð, sem og friðlýsingarákvæði VII. og VIII. kafla). Hafsbotninn er stór hluti af umhverfi landsins og sameign landsmanna. Með lögum nr. 73/1990 varð íslenska ríkið eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Verndun og nýting auðlinda hafsbotnsins er stórmál sem snertir náið lífríki sjávar og loftslagsbreytingar, þar á meðal hugmyndir um olíuvinnslu á Drekasvæði og víðar. Unnt væri að friðlýsa stóran hluta efnahagslögsögunnar, haf og sjávarbotn, án þess að það kæmi niður á fiskveiðum.
Margvíslegar hættur steðja að vistgerðum og vistkerfum sjávar, m.a. vegna veiða og veiðarfæra, mengunar og loftslagsbreytinga. Jafnframt snerta breytingar á vatnafari þurrlendis sjóinn við strendur landsins, m.a. vegna virkjana í jökulám og minnkaðs aurburðar í sjó fram, þar eð hann sest til í miðlunarlónum,. Þýðing sjávarlífs fyrir dýrastofna í landi, einkum fugla, hefur minnt óþyrmilega á sig að undanförnu. Eyðing kóralsvæða og skerðing á búsvæðum svampa er mikil og má ekki dragast að við þeim þáttum sé brugðist með verndaraðgerðum.
Aðborin mengun efna (m.a. geislavirkur úrgangur) og stöðugt yfirvofandi vá af umferð kjarnorkuknúinn skipa og skipa með kjarnorkuvopn innanborðs er veruleiki sem ekki hefur enn verið brugðist við með lagasetningu  af Íslands hálfu. Þó lögðu 15 þingmenn úr fjórum þingflokkum fram frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja (18. mál á 139. löggjfarþingi). Þar sagði í 1. gr.:  „Lög þessi gera Ísland að friðlýstu svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorkuvopn. Umferð kjarnorkuknúinna farartækja er bönnuð á hinu friðlýsta svæði og einnig flutningur eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs.‟ Að þessu máli stóðu á fyrri stigum oddvitar í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi og því var af meirihluta utanríkismálanefndar vísað til ríkisstjórnarinnar í ágústmánuði 2011. Þaðan hefur það ekki komið á ný inn á vettvang Alþingis.

Umferðarálag og þolmörk íslenskrar náttúru

Álag á náttúru landsins af völdum hvers kyns umferðar hefur farið stigvaxandi síðustu hálfa öld og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Þótt ýmis ákvæði frumvarpsdraganna séu hugsuð til að bregðast við þeirri þróun eru eftir sem áður alltof víða skildar eftir smugur fyrir undanbrögð og önnur ákvæði eru óljós og matskennd. Á það við um umferð hjólandi manna og ríðandi (20. gr.), umferð um vötn (21. gr.), skipulegar hópferðir 24. gr.) og akstur utan vega og á vegslóðum (V. kafli). Reynsla sýnir að brýnt er að orða lagafyrirmæli um þessi efni skýrt, jafnframt því sem herða þarf viðurlög og auka eftirlit og vöktun.  
Ákvæði um almannarétt eru mikilvæg en spurning er hvort ákvæði frumvarpsdraganna þar að lútandi, m.a. um gangandi umferð og tjöldun utan viðurkenndra tjaldsvæða ganga ekki í sumum greinum of langt í frjálsræðisátt miðað við aukningu slíkrar umferðar og vöntun á lágmarksaðstöðu. Hvað um gönguhópa sem fara um landið og hafa heimild til að tjalda hvar sem er, þótt engin hreinlætisaðstaða sé til staðar? Um þetta segir í 22. gr.: Utan alfaraleiðar, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að setja niður göngutjöld nema annað sé tekið fram í sérreglum sem kunna að gilda um viðkomandi landsvæði.‟ Svipað blasir við í 24. grein „Skipulegar hópferðir‟: „Þegar skipulagðar eru hópferðir í atvinnuskyni um eignarlönd [hvað um þjóðlendur?] skal hafa samráð við eiganda lands eða rétthafa um umferð manna og dvöl á landi hans. – Eftir því sem við verður komið skal tjalda á skipulögðum tjaldsvæðum sé gert ráð fyrir að gista í tjöldum í slíkum ferðum.‟ Hvað um hreinlætisaðstöðu utan alfaraleiða í óbyggðum, sem hér er m.a. vísað til?
Mér virðist sem talsvert skorti á að texti frumvarpsdraganna taki mið af auknum ferðamannastraumi um landið og þeim augljósu þolmörkum sem þegar er náð þar sem mest er álag.

Náttúruminjaskrá og friðlýsing svæða

Í greinargerð, tl. 6 á s. 35, segir: „Lagt er til að náttúruminjaskrá, þar á meðal framkvæmdaáætlun hennar, verði meginstjórntæki náttúruverndar á Íslandi og eru sett ítarleg ákvæði um val minja á skrána sem og um undirbúning hennar og kynningu.‟  Hér er rétt að staldra við.
 Í náttúruverndarlöggjöf frá 1956 (17. gr.) og 1971 (28. gr.) voru ákvæði um skráningu náttúruminja á vegum Náttúruverndarráðs sem ekki höfðu aðrar beinar lögfylgjur en að ríkið tryggði sér forkaupsrétt að slíku landsvæði næst á eftir sveitarfélagi eða öðrum með hliðstæðan rétt. Um skráninguna sagði að þetta væru svæði „ ... sem ástæða kann að verða til að lýsa friðlönd eða leggja til þjóðgarða eða fólkvanga.‟ Á grundvelli slíkra ákvæða voru sett á skrá fjölmörg svæði, stór og smá, um allt land. Á árinu 1996 nam fjöldi slíkra skrásettra náttúruminja sem ekki höfðu verið friðlýstar samtals 325. Að tillögugerð um slíka skráningu stóðu m.a. áhugamannasamtök um náttúruvernd í öllum landshlutum auk sérfróðra og fulltrúa í Náttúruverndarráði. Í skráningunni einni og sér reyndist fólgin óbein vernd, þar eð þeir sem hugðu á mannvirkjagerð stöldruðu við slíka skráningu ekki ósvipað og um friðlýsingu væri að ræða. – Náttúruverndaryfirvöld notuðu síðan skrána sem grunn í viðleitni sinni til friðlýsingar eða annarra verndaraðgerða og sættu lagi, í samráði við rétthafa lands og skipulagsyfirvöld (sveitarstjórnir), að fá svæðin friðlýst. Á grundvelli slíkrar nálgunar tókst að friðlýsa fjölmörg verðmæt náttúrusvæði fram til ársins 1996. Þá var gerð breyting á náttúruverndarlögum, einkum varðandi stjórnsýslu. Náttúruvernd ríkisins sem stofnun tók þá við af skrifstofu Náttúruverndarráðs og í stað þess að meirihluti ráðsins væri kjörinn af Náttúruverndarþingi tilnefndi nú ráðherra 6 af 9 fulltrúum í ráðið. „Náttúrminjaskrá‟ hafði komið reglulega út í sérriti á vegum Náttúruverndarráðs, síðast 7. útgáfa árið 1996. Síðan hefur engin hliðstæð skrá verið gefin út þrátt fyrir margföldun mannafla og stofnanavæðingu kringum málaflokkinn!
Með breytingu á náttúruverndarlögum 1999 voru sett inn ný ákvæði í VIII. kafla um Náttúruverndaráætlun og náttúruminjaskrá (gr. 65–69). Þar var kveðið á um að ráðherra og síðan Alþingi skyldi ganga frá náttúruverndaráætlun til 5 ára í senn með tillögum og upplýsingum um svæði sem ástæða þykir til að friðlýsa, en undirbúningur skyldi vera í höndum Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofa ofl. Slík áætlun hefur verið samþykkt tvívegis, þ.e. fyrir tímabilin 2004–2009 og 2009–2013. Reynslan af þessu ferli hefur hingað til verið harla dapurleg, þar sem aðeins örfá svæði af þeim sem samþykkt hafa verið inn á náttúruverndaráætlun hafa verið friðlýst. Um þessi efni var ítarlega fjallað í Hvítbók 2011, s. 257–273 og auðsætt er að brotalamir í þessu ferli hafa verið fjölmargar. Ástæða væri til langtum ítarlegri greiningar en fyrir liggur á því, hvað úrskeiðis hefur farið í þessum efnum síðustu 10–15 árin, ekki síst í ljósi þess að fyrirhugað er samkvæmt frumvarpsdrögunum að gera náttúruminjaskrá að meginstjórntæki náttúruverndar hérlendis og ofangreindar stofnanir að burðarási í því samhengi.

Rannsóknir og fræðsla.

Rannsóknum á náttúru Íslands hefur fleytt fram á síðustu áratugum og vantar þó mikið á að traust almennt yfirlit liggi fyrir um náttúru lands og hafsvæða innan efnahagslögsögu Íslands. Er þar ólíku saman að jafna við flest önnur Evrópulönd. Ísland er orðið aðili að flestum meiriháttar alþjóðasamningum og sáttmálum á sviði náttúrufræða og náttúruverndar og reynt er að nýta þá sem stjórntæki hér sem annars staðar. Grunnurinn hérlendis er þó enn sem komið er um margt ófullkominn. Dæmi um þetta er að flokkun og skráning lands eftir vistgerðum sem enn liggur aðeins fyrir á takmörkuðum hluta landsins. Samt er nokkuð síðan farið að beita hugtakinu við mat á verndargildi lands. Mikið vantar á að þetta hugtak eins og mörg önnur nýmæli, svo sem líffræðileg fjölbreytni, hafi náð þeirri fótfestu meðal almennings sem skyldi. Þetta undirstrikar þörfina á stórefldri almennri sem og sértækri fræðslu um náttúru landsins og náttúruvernd. Á þessu sviði hafa fræðslu- og náttúruverndaryfirvöld brugðist sem og rannsóknastofnanir, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands þar ekki undanskildar. Öflug fræðsla á þessu sviði er þó lykill að því að hafa áhrif á almenningsálit og ná árangri í náttúruvernd. Fyrirliggjandi frumvarpsdrög bæta lítið úr á þessu sviði og er afar brýnt að úr því verði bætt í frumvarpi á grundvelli þeirra. Réttast væri að lögbinda að ákveðið hlutfall af fjárveitingum til umhverfis- og auðlindaráðuneytis og helstu rannsóknarstofana á þess vegum renni til fræðslustarfsemi sem löng reynsla sýnir að orðið hefur útundan við ráðstöfun fjármuna. – Þessu tengist sú dapurlega staða sem uppi er um Náttúruminjasafn Íslands sem lögum samkvæmt á að vera höfuðsafn á þessu sviði. Ábyrgðaraðili safnsins er mennta- og menningarmálaráðuneytið, en brýnar úrbætur í málefnum þess varða ekki síst grundvöll til kynningar og eflingar á náttúruvernd hérlendis.

Stofnanir og stjórnkerfi náttúruverndarmála

Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands eru þær stofnanir ráðuneytisins sem langmest tengjast náttúruverndarmálum og er ætlað þar mikið hlutverk. Í Hvítbók ráðuneytisins er um þær fjallað en þó engan veginn lagt það mat sem vert væri á starf þeirra hingað til. Veikleiki í starfi þessara stofnana að náttúruverndarmálum starfar sumpart af staðsetningu höfuðstöðva þeirra í Reykjavík og ríkjandi tortryggni marga úti um land í þeirra garð, með réttu eða röngu. Ég tel að tilkoma Umhverfisstofnunar árið 2002, þar sem  sameinaðir voru margir harla ólíkir málaflokkar, hafi verið vanhugsuð og illa undirbúin og hafi engan veginn skilað þeim árangri sem aðstandendur væntu. Stofnunin hefur ekki náð að byggja upp þá tiltrú sem þyrfti og að verða öflugur málsvari náttúruverndarstarfs við hlið ráðuneytisins. Sjálft ráðuneytið hefur á sama tíma verið afar veikt hvað mannafla snertir, ekki síst að því er snýr að nátúruverndarþættinum. Úr hvorutveggja er brýnt að bæta og að vel takist til við þá endurskipulagningu ráðuneytisins sem nú fer í hönd. Brýnt er jafnframt að marka heildstæða stefnu um umsýslu þjóðgarða og annarra verndarsvæða, en í því efni vísa frumvarpsdrögin fyrst og fremst til Umhverfisstofnunar. Eigi það að verða niðurstaðan þarf að verða mikil breyting á starfsháttum og aðbúnaði þeirrar stofnunar.  Hinn möguleikinn sem líta ber á er að skipta Umhverfisstofnun upp og leggja náttúruauðlindadeild hennar saman við umsjá og umsýslu friðlýstra svæða, að þjóðgörðum meðtöldum.

Náttúrustofur fái stóraukið hlutverk í náttúruvernd

Náttúrustofur eru nú orðnar átta talsins og ná til landsins alls og hafa þær skipulegt samband sín á milli. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 60/2992 eru helstu hlutverk þeirra eftirfarandi:
a. að safna gögnum, varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar,
b. að stuðla að æskilegri landnýtingu og náttúruvernd og veita fræðslu um umhverfismál og náttúrufræði og aðstoða við gerð náttúrusýninga,
c. að veita náttúruverndarnefndum á starfssvæði stofunnar upplýsingar og ráðgjöf á verksviði stofunnar samkvæmt ákvörðun stjórnar náttúrustofu hverju sinni,
d. að veita ráðgjöf, sinna rannsóknum og sjá um vöktun gegn greiðslu á verksviði stofunnar að beiðni sveitarfélaga, ríkis eða stofnana þeirra, einstaklinga, fyrirtækja eða annarra aðila,
e. að annast almennt eftirlit með náttúru landsins, sbr. 7. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar; Umhverfisstofnun skal gera samning um slíkt eftirlit við náttúrustofur sem staðfestur er af ráðherra.
            Eins og af þessu sést er náttúrustofunum ætlað verulegt hlutverk í náttúruverndarmálum, jafnt í rannsóknum og stjórnsýslu, með áherslu á viðkomandi landshluta. Þetta hefur hins vegar ekki gengið eftir sem skyldi,  bæði af fjárhagsástæðum en ekki síður vegna tregðu stjórnvalda, ráðuneytis og stofnana þess, að nýta sér stofurnar með skipulegum hætti í náttúruverndarstarfi. Í frumvarpsdrögunum er enga teljandi áherslubreytingu að finna hvað þetta varðar. Á því þarf að verða skýr og ákveðin breyting í endanlegu frumvarpi. Með því vinnst einkum tvennt:
 1) Vinna að náttúruverndarmálum færist í aukum mæli inn á viðkomandi starfssvæði, mjög í anda Dagskrár 21;
2) Tryggja má þannig mun nánari tengsl í starfsemi að náttúruverndarmálum við aðila í héraði, áhugamannasamtök, sveitarstjórnir og nefndir á þeirra vegum.
Árangursrík náttúruvernd þarf að hvíla á þremur stoðum, góðri fræðilegri uppbyggingu og fræðslu, félagslegum tengslum sem næst vettvangi og fjármagni til starfseminnar. Að öllum þessum þáttum geta náttúrustofurnar komið með jákvæðum og uppbyggilegum hætti, og ríkisvaldið þarf nú að nota tækifærið til að styrkja grundvöll þeirra.
 
Náttúruverndarsvæði og umdæmislandverðir

Frumvarpsdögin gera ráð fyrir að landinu verði skipt í náttúruverndarumdæmi eftir ákvæðum sem ráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar (14. gr.). Í umfjöllun um greinina segir að með þessu sé ætlunin að efla skipulag umsjónar og eftirlits, ekki síst á landsbyggðinni. Ég tel einboðið að við umdæmaskiptinguna verði tekið mið af starfssvæðum náttúrustofanna og viðkomandi verkefni verði unnin á stofunum í góðum tengslum við viðkomandi ríkisstofnun. Í 80. grein frumvarpsdraganna er síðan gert ráð fyrir umdæmislandvörðum sem starfi í náttúruverndarumdæmum og skipuleggi þar starf landvarða og hafi umsjón með því. Einnig þessa umsýslu er einboðið að tengja náttúrustofunum.
            Með hliðsjón af þessu tel ég einnig rétt að náttúrustofurnar í gegnum samtök sín fái beina aðild að ráðgjafanefnd náttúruminjaskrár (skv. 16. gr.) sem og fagráði sem gert er ráð fyrir að ráðherra skipi til fimm ára í senn.
            Með ofangreindum aðgerðum væri stigið stórt skref í anda gildandi laga til eflingar starfsemi náttúrustofnanna og sköpuð tengsl við heimavettvang í öllum landshlutum sem brýnt er að styrkja frá því sem nú er.

Þjóðlendur sem náttúruverndarsvæði

Þjóðlendur eru skilgreindar sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi (5. gr. 25. tl.). Skipting alls landsins skv. þjóðlendulögum nr. 58/1998 er nú að heita má lokið á um 2/3 hlutum landsins og aðeins fá ár uns heildarmynd liggur fyrir. Á þjóðlendum hefur ríkið forræði og réttarfarsleg aðstaða til skipulegra verndaraðgerða er þar önnur og einfaldari heldur en þar sem eignarráð og umsýsla er á margra hendi. Í ljósi þessa sakna ég meiri umfjöllunar í Hvítbók og frumvarpsdrögunum um þjóðlendurnar og hversu með þær skuli farið í tengslum við skipulega náttúruvernd. Að langmestu leyti eru þegar skilgreindar þjóðlendur á miðhálendinu eða landfræðilega tengdar því. Sívaxandi krafa er um að miðhálendið í heild verði skilgreint sem náttúruverndarsvæði, enda má heita að ríkið sem fulltrúi almennings hafi þar sjálfdæmi um ráðstöfun lands, þó með tengslum hvað skipulag snertir við aðliggjandi sveitarfélög. Ekki má dragast að mörkuð verði skýr stefna um meðferð þjóðlendna sem náttúruverndarsvæða, enda felst í víðernum óbyggðanna, sem þjóðlendur eru stór hluti af, ein mesta og dýrmætasta sérstaða Íslands.

            Í von um að umsögn þessi leiði í ýmsum greinum til breytinga á fyrirliggjandi frumvarpsdrögum.


Hjörleifur Guttormsson

Fylgiskjöl;

  1. Umsögn dags. 20. janúar 2011 um drög að breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum (akstur utan vega, sérstök vernd, innflutningur og dreifing lifandi og framandi lífvera). Sjá hér.
  2. Umsögn dags. 27. ágúst 2012 vegna endurskoðunar laga um skógrækt og landgræðslu. (sjá eldri vettvangsgreinar 27. ágúst 2012)

 

 

 

 


Til baka | | Heim