Hjörleifur Guttormsson 3. október 2017

Stækkum Þingvallaþjóðgarð fyrir fullveldisafmælið 2018

Á árinu 2018 er öld liðin frá því íslenska þjóðin endurheimti sjálfstæði sitt. Á því sama ári verða liðin 90 ár frá því sett voru lög um friðun Þingvalla en samkvæmt þeim „skulu Þingvellir við Öxará og grenndin þar vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.“ Lögin um Þingvelli voru síðast endurskoðuð vorið 2004 og stækkað friðlýst svæði þá skilgreint sem þjóðgarður undir vernd Alþingis og stjórn nefndar sjö alþingismanna í stað þriggja áður. Forsætisráðuneytið fór með málefni þjóðgarðsins frá upphafi þar til í apríl sl. að hann fluttist með forsetaúrskurði til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Fyrstu hálfa öldina gekk á ýmsu um stjórnsýslu á þessum helgistað og ekki allt í anda laganna. Á þessu varð breyting eftir 1970 og með fyrstu stefnumörkun í skipulagsmálum fyrir þjóðgarðinn og umhverfi hans 1988 fékkst loks kjölfesta um málsmeðferð. Sú stefnumörkun var endurskoðuð upp úr aldamótum, samhliða því að Þingvellir fengu sess á heimsminjaskrá UNESCO.

Breyttar ytri og innri forsendur

Þeir sem leiddu ofangreinda stefnumörkun um Þingvallaþjóðgarð 1988 og 2004 gerðu sér grein fyrir að hana þyrfti að endurskoða reglulega. Um fyrra skipulagið sagði m.a.: „Núverandi þjóðgarður myndar þungamiðju í mun stærra landsvæði, sem er jarðfræðileg heild og nær frá Langjökli í norðri til Hengils í suðri. ... Hugmyndir um friðun stærra landsvæðis við Þingvallavatn  eiga því fyllilega rétt á sér.“ Og stefnumörkunin 2004 gerir ráð fyrir reglubundnu endurmati: „Búast má við að á 20 ára tíma breytist ýmis ytri skilyrði sem ekki eru á valdi þjóðgarðsins og kunna að hafa áhrif á stefnuna og þá forgangsröðum sem á henni byggist.“ Stærsta breytingin síðan er gífurlega aukið álag ferðamanna, sem bregðast hefur þurft við. Tvennt hefur þar auðveldað málstök: Uppbygging þjónustumiðstöðvar við Hakið austan við Þingvallalægðina og dugmikið og öflugt starfsfólk þjóðgarðsins. Blasir nú við hversu rétt var sú stefna að flytja aðalmóttöku ferðamanna út fyrir sigdalinn og hverfa frá hugmyndum um enduruppbyggingu Hótels Valhallar eftir bruna.

Þjóðlendan og stækkun Þingvallaþjóðgarðs

Tveir áratugir eru senn liðnir frá setningu laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og afmörkun eignarlanda og afrétta. Meðal fyrstu svæða sem úrskurðað var um í héraði og fyrir Hæstarétti voru afréttir og heiðalönd norður og austur af Þingvöllum allt að Langjökli. Sveitarfélagið Bláskógabyggð varð til vorið 2002 við sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps.  Nýtt nafn sveitarfélagsins var sótt til Þingvallasveitar og tengist birkinu og bláma vatnsins. Þingvallaþjóðgarður og þjóðlendan stóra með afréttum er innan skipulagssviðs Bláskógabyggðar. Fjölmargt mælir með því að þjóðlendan samkvæmt ofangreindum úrskurðum verði hluti af stækkuðum Þingvallaþjóðgarði, sbr. meðfylgjandi uppdrátt. Þegar kemur að þjóðgarði á Miðhálendinu gætu mörk á milli fylgt núverandi raflínu, sem kennd er við Sultartanga.  Engin hefðbundin afréttarnot þyrfti að skerða vegna þjóðgarðs sem næði yfir þetta svæði. Þar myndu hins vegar bætast við gersemar, m.a. fjallið Skjaldbreiður og hraunið umhverfis, Tindaskagi, Þjófahraun með gossprungu og móbergsstaparnir glæsilegu Skriðan og Hlöðufell. Sýn Jónasar Hallgrímssonar gengi hér í endurnýjun lífdaga; „Búinn er úr bálastorku/ bergkastali frjálsri þjóð.“ Fyrir utan útivistar- og fræðslugildi myndi þessi stækkun þjóðgarðsins styrkja til muna stöðu Þingvalla á heimsminjaskrá.

Þingvallanefnd og Þjóðgarðastofnun

Nú er rætt um að koma á fót Þjóðgarðastofnun sem samræmi af hálfu ríkisins umsýslu friðlýstra svæða. Það væri farsælt skref, en tryggja þarf áfram tengslin við aðliggjandi svæði og sveitarfélög. Í tilviki Þingvalla er eðlilegt að Alþingi komi áfram að málum um sjálfa þinghelgina, en að öðru leyti falli stjórnsýsla þjóðgarðsins í almennan farveg. Ég átti sæti í Þingvallanefnd í 12 ár, 1980-1992. Fyrstu þrjú árin var þá í nefndinni Steinþór Gestsson á Hæli, gamalreyndur þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Í bréfi sem hann sýndi okkur samnefndarmönnum og sendi sínum þingflokki vorið 1983 lagði hann m.a. til, að þjóðgarðurinn yrði stækkaður verulega, almenn þjónustustarfsemi yrði færð  út fyrir þinghelgina og að Alþingi einskorði umsjón sína við sjálfa þinghelgina.

Sundurlyndisfár hefur um of sett mark sitt á þjóðmálaumræðu hérlendis um skeið. Til mótvægis þurfum við á sameinandi táknrænum aðgerðum að halda. Stækkun Þingvallaþjóðgarðs er kjörið skref í þá átt.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim