Hjörleifur Guttormsson 4. maí 2017

Hvað veldur hruninu hjá sósíaldemókrötum víða um lönd?

Síðustu ár höfum við verið vitni að því að stjórnmálaflokkar sem telja sig til vinstri í litrófinu hafa verið að missa fylgi og tapa fótfestu í einu landinu af öðru. Þetta á einkum við um flokka sósíaldemókrata í mörgum löndum Vestur-Evrópu að Norðurlöndum meðtöldum, nú síðast í Frakklandi þar sem áður öflugur Sósíalistaflokkur skilaði forsetaefni sínu aðeins 6% um næstliðna helgi. Svipuð var útreiðin í Hollandi nýlega og í Svíþjóð dregst saman fylgið hjá gamalgrónum valdaflokki krata. Verst er þó staða þeirra hérlendis ef litið er til þess að Samfylkingin náði engum manni á þing á þéttbýlissvæðinu suðvestanlands. Það ber vott um ótrúlega hugmyndalega deyfð að sáralítil umræða virðist vera um orsakir þessara hamfara af hálfu fyrrum forystumanna, ekki aðeins hérlendis heldur einnig litið út fyrir landssteina.

Tálsýnin um aðild að Evrópusambandinu

Að mínu mati hefur þróun Evrópusambandsins allt frá  því um 1990 og þáttur sósíaldemókrata í vaxandi samruna innan þess með sameiginlegri mynt og skerðingu sjálfsforræðis aðildarríkja átt verulegan þátt í minnkandi tiltrú og stuðningi við flokka þeirra undanfarið. Stofnun Samfylkingarinnar um aldamótin var ekki síst tilraun til að knýja á um aðild Íslands að ESB og á þeim tíma var forysta Framsóknarflokksins á sama róli. Stofnun VG 1999 var andsvar við þeirri stefnu samhliða því að græn hugsun með sjálfbæra þróun og gagnrýni á óheft kapítal var fléttuð inn í stefnu flokksins. Það var því með ólíkindum þegar forysta VG lét undan Samfylkingunni vorið 2009, þvert á eigin stefnu og yfirlýsingar, og tók þátt í að sækja um aðild að ESB. Sú sneypulega vegferð hefur þó komið Samfylkingunni meira í koll, en eftir sem áður halda leifarnar af flokknum fast við fyrri stefnu. Svipuðu máli gegnir um þátt þeirra í aðild Íslands að Schengen-samkomulaginu sem nú hefur ítrekað rekið í strand.

Samþjöppun fjármagns tímanna tákn

Hnattvæðingin eins og hún birtist með frjálsum fjármagnsflutningum hefur fært heimsbyggðinni langtum meiri vandamál en fyrir voru. Sósíaldemókratar hafa stutt það ferli eindregið, m.a. innan Evrópusambandsins. Bilið milli ríkra og fátækra stækkar stöðugt og opinber skuldsetning ríkja hefur víðast hvar vaxið hröðum skrefum. Thomas Piketty minnir á (Information 21. mars 2017) að á sama tíma og prívateignamyndun hefur vaxið hröðum skrefum hefur opinber skuldsetning flestra þróaðra ríkja stöðugt farið vaxandi eftir 1970 og er nú neikvæð í löndum eins og Bandaríkjunum, Japan og Bretlandi og vegur salt í Frakklandi og Þýskalandi. Með því minnka möguleikar ríkisstjórna til að bregðast við samdrætti í efnahagslífi og að færa til fjármagn í formi skatta og opinberra framlaga til þeirra sem fara halloka vegna afleiðinga hnattvæðingarinnar. Við þetta bætist sú hraða tilfærsla sem orðið hefur á atvinnustarfsemi frá áður grónum iðnaðarsvæðum til stórborga og skilur milljónir manna eftir atvinnulausar og á vonarvöl. Það eru slíkar aðstæður sem skilað hafa lukkuriddurum eins og Trump á valdastóla og eru bakgrunnur þeirrar miklu spennu sem nú ríkir m.a. í frönskum stjórnmálum.

Flóttamannastraumurinn úr suðri

Flutningur fólks milli landa og heimsálfa er ekki nýtt fyrirbæri, eins og Íslendingar og aðrar Norðurlandaþjóðir þekkja vel frá liðinni tíð þegar fjöldi fólks flykktist til Norður-Ameríku í leit að betra lífsviðurværi. Margir fengu þar jarðnæði og störf á svæðum sem voru hálfnumin. Vestur-Þjóðverjar fluttu inn vinnuafl í stórum stíl á árunum eftir stríð og þar búa nú milljónir Tyrkja með tvöfalt ríkisfang. Svipað gerðist í Frakklandi með flutning fólks þangað frá fyrrum frönskum nýlendum í Norður-Afríku og víðar. Lengi vel gekk þetta árekstralítið, en með minnkandi hagvexti og vaxandi atvinnuleysi hafa aðstæður breyst mikið frá því sem áður var. Þáttaskil urðu í þessum efnum með innrásinni í Írak, íhlutun í Líbíu og borgarastríðinu í Sýrlandi. Ör fólksfjölgun í Afríku sunnan Sahara, samhliða arðráni og efnahagslegri stöðnun, veldur því að milljónir freista þess að komast til Evrópu í von um skárra líf. Ríkar þjóðir hafa brugðist í að leggja verulegt fjármagn í þróunaraðstoð og Íslendingar sitja þar uppi með svartapétur. Fátt veldur nú meiri spennu í Evrópu vestanverðri en afstaðan til innflytjenda. Sósíaldemókratar sem aðrir hafa vanrækt að horfast í augu við þann vanda sem við blasir og á það þátt í fylgistapi þeirra til hægri. Nýleg nálgun danskra sósíaldemókrata og  Danska þjóðarflokksins í innflytjendamálum hefur vakið athygli en er að vonum afar umdeild.

Fleiri ástæður en hér hafa verið ræddar eru fyrir hruni í fylgi við sósíaldemókrata og þeir eru alls ekki þeir einu sem þurfa að hugsa sinn gang. Vöntun á samfélagslegri greiningu og aðgerðum blasir við á fjölmörgum sviðum, vilji menn taka á þeim stórfellda vanda sem mannkynið hefur safnað að höfði sér.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim