Hjörleifur Guttormsson 4. júlí 2017

Lúpínuplágan og framtíð gróðurríkis Íslands

Í  aldarþriðjung hefur blasað við að dreifing alaskalúpínu hérlendis stefndi gróðurríki landsins í mikla hættu, sem erfitt gæti reynst að sporna við. Þessi stórvaxna og blómfagra tegund sem flutt var til landsins í góðri trú frá Alaska árið 1945 hefur sem ágeng planta hérlendis reynst vargur í véum. Eftir að hafa komið sér fyrir og hafið fræmyndun dreifist hún hratt um auðnir og gróið land og gjörbreytir ásýnd þess og aðstæðum fyrir náttúrulega gróðurframvindu. Frá aldamótum hefur verið heimilt að banna að  flytja inn og rækta  framandi plöntutegundir en þeim ákvæðum hefur lítið verið fylgt eftir í reynd. Enn framleiðir Landgræðsla ríkisins lúpínufræ til dreifingar undir merkjum landgræðslu. Skógræktin og tengdir aðilar hafa lengi átt stóran hlut í dreifingu lúpínu um landið og með því skellt skollaeyrum við aðvörunum og augljóst vaxandi hættu. Þegar þannig er staðið að málum er skiljanlegt að almenningur sé ráðvilltur, og almenn leiðsögn og fræðsla um gróðurríkið er þess utan af skornum skammti.

Horft frá hringveginum

Umhverfi Reykjavíkur segir sína sögu um yfirtöku lúpínunnar og þeir sem aka hringveginn árlega á blómgunartíma hennar fá glögga mynd af hversu hratt hún breiðist út, t.d. á söndunum sunnanlands og í Öræfum. Löngu er þekkt baráttan við lúpínu í Morsárdal sem dreifðist út frá einum hnaus sem þar var komið fyrir vorið 1954. Á Skeiðarársandi þar sem hægt er að fylgjast með og dást að sjálfgræðslu með birkinýgræðingi er lúpína nú að hefja sitt landnám. Stóralda framan við Svínafellsjökul er á röskum áratug orðin alþakin lúpínu og þaðan á hún greiða leið áfram vestur yfir þjóðgarðinn framan við Skaftafellsjökul. Klettabjörgin suður af Hofi í Öræfum, sumpart með  fágætum tegundum eins og munkahettu, verða innan tíðar alþakin lúpínu sem þangað berst frá landgræðslusvæðinu við Fagurhólsmýri. Sandar og aðrar jökulminjar eftir skriðjöklana sunnan Vatnajökuls eru meðal einstæðra verðmæta í jarðfræðisögu Íslands eins og skýrt er dregið fram í nýlegu riti David Evans, 2016: Vatnajökull National Park (South Region). Guide to a glacial landscape legacy. Kroppað hefur verið í slík ar minjar á nokkrum stöðum með efnistöku, en alvarlegri ógn stafar þeim af því að lenda undir lúpínubreiður. – Staðan á Austfjörðum blasir við sjáendum, þar sem fjarðaþorpin eru flest þegar umkringd lúpínu, sem tekur yfir berjalönd og ógnar friðlýstum svæðum eins og Hólmanesi og Fólkvangi Neskaupstaðar. Einna örust er útbreiðsla lúpínu víða fram með lækjum og ám, t.d. við Grímsá á Héraði og á Vesturlandi meðfram Norðurá og Hvítá í Borgarfirði. – Samkvæmt nýlegri kortlagningu Náttúrufræðistofnunar er lúpína nú talin þekja nær 400 ferkílómetra hérlendis og finnst hún í öllum landshlutum, m.a. á nokkrum stöðum á hálendinu allt upp í 900 m hæð. Langmest er útbreiðslan á Suðurlandi og Norðausturlandi, en minnst á Vestfjörðum. Sauðfjárbeit heldur henni niðri, m.a. í Húnaþingi, en hún tekur fljótt við sér ef beit leggst af. Fari fram sem horfir mun lúpína þannig á næstu áratugum leggja undir sig stóran hluta Reykjanesskagans.

Hættuspil sem verður að linna

Náttúrufræðistofnun Íslands er fyrir Íslands hönd þátttakandi í samstarfsverkefni þjóða í Norður-Evrópu um ágengar tegundir undir heitinu NOBANIS. Þar er mikill fróðleikur saman dreginn, sem undirstrikar að hér er alþjóðlegt og vaxandi vandamál á ferðinni, bæði varðandi jurta- og dýraríkið. Íslensk náttúruverndarsamtök hafa lengi gagnrýnt skort á árvekni gagnvart ágengum tegundum og náttúrustofur landshlutanna hafa reynt að hamla gegn útbreiðslu þeirra, fremst í flokki Náttúrustofa Vesturlands í samvinnu við Stykkishólmsbæ.  Ljóst er að talsmenn Landgræðslu ríkisins gera sér nú, a.m.k. í orði, grein fyrir neikvæðum áhrifum alaskalúpínu á umhverfið (sjá heimasíðu LR, 22. jan. 2016). Þessu þarf að fylgja eftir með raunverulegri stefnubreytingu þar sem lúpínan verði tekin af lista stofnunarinnar sem æskileg landgræðsluplanta og hætt verði að nýta hana sem slíka.  Áframhaldandi hlýnun hérlendis ýtir enn frekar undir útbreiðslu lúpínunnar, þar sem allt miðhálendið utan jökla getur fyrr en varir orðið vettvangur hennar, sé ekki rönd við reist.

Fjölþætt úrræði þurfa að koma til

Ágengar tegundir eru alþjóðlegt vandamál sem undirritaður hefur séð dæmin um erlendis allt frá Írlandi til Suður-Afríku. Samningurinn um verndun líffræðilegrar fjölbreytni myndar ramma til að hamla gegn dreifingu þeirra. Ísland sem eyland er um margt sérstætt og hrörnun gróðurvistkerfa landsins vegna ofnýtingar um aldir hefur skapað hér aðstæður sem kalla á sérstaka árvekni þegar innfluttar tegundir eiga í hlut. Brýnt er að stilla saman strengi opinberra aðila og almennings með fræðslu og fjölþættum aðgerðum. Lög og reglur hérlendis um samskipti manna við gróðurríkið eru í senn gloppótt og löngu úrelt. Líta þarf samþætt á gróður- og jarðvegsvernd og fella ákvæði um beit, landgræðslu og skógrækt undir heildstæð markmið með vistheimt og náttúruvernd að leiðarljósi. Aðeins þannig fæst sú sýn sem brýnt er að hafa að leiðarljósi gegn aðsteðjandi röskun vegna ágengra tegunda.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim