Hjörleifur Guttormsson 7. febrúar 2017

Að treysta undirstöður á óvissutímum

Tegundin maður sem við tilheyrum og kallar sig vitiborna, þ.e.Homo sapiens, er undarleg skepna og virðist eiga æ erfiðar með að fóta sig á gististaðnum Jörð. Sá kvistur sem við erum sprottin af er talinn innan við 200 þúsund ára gamall og hóf sig af veiðimannsstiginu við lok síðasta jökulskeiðs fyrir aðeins 10–15 þúsund árum. Vegferð hans síðan hefur verið krókótt og sveiflukennd en það sem hefur einkennt hana síðustu 2-4 aldirnar er hröðun, þeysireið örra breytinga með æ fleiri kollsteypum á æviskeiði hverrar kynslóðar. Efnahagsleg umsvif mannkynsins eru í tíð okkar sem nú lifum farin að setja mark sitt á allt umhverfi jarðar og ógna nú undirstöðum þess lífs sem fyrir er, að mannkyninu meðtöldu. Verkefnið sem við blasir ætli menn sér einhverja framtíð hér á jörð er að stöðva sig af og treysta undirstöður eigin tilvistar og þá um leið þess lífheims og umhverfis sem við erum hluti af. Það er ekki um fleiri gististaði að ræða, hvað sem líður  órum um aðra vist á fjarlægum plánetum..

Skjótt skipast veður

Í pistli hér í blaðinu fyrir hálfum mánuði vék ég að óvissutímum sem séu framundan. Það hefur þegar verið staðfest á þeim dögum sem síðan eru liðnir, þar sem stjórnarathafnir Donalds Trump Bandaríkjaforseta hafa séð fjölmiðlum fyrir uppslætti frá degi til dags. Þar hefur hann gengið hraðar fram í tilskipunum en nokkurn óraði fyrir og eru þær þó að efni til í samræmi við boðskap hans í kosningabaráttunni. Honum hefur á tveimur vikum tekist að setja helstu ráðamenn Evrópusambandsins í uppnám og reitt Kínverja til reiði með stuðningsyfirlýsingum við Japani. Út yfir tók síðan með ferðabanni á fólk frá sjö múslimaríkjum, sem leitt hefur til inbyrðis átaka um túlkun bandarísku stjórnarskrárinnar, sem ekki er séð fyrir endann á þegar þetta er skrifað. Í helstu borgaralegum blöðum austanhafs og vestan eru framtíðarhorfur dregnar dökkum litum, þótt steininn taki úr hjá Der Spiegel um liðna helgi sem sýnir Trump afhausa Frelsistyttuna. Hér er um að ræða forseta í efnahagslega öflugasta ríki veraldar, sem jafnframt heldur um kjarnorkuhnappinn. Næstu mánuðir og ár munu reyna á þolrifin hjá öllum þeim þjóðum, smáum og stórum, sem samskipti eiga við Bandaríkin og þannig er heimsmyndin breytt, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Viðfangsefni Íslendinga sem smáþjóðar .

Sviptingar á alþjóðavettvangi skipta okkur sem aðra miklu máli, þótt ekki teljumst við miklir gerendur á taflbotði alþjóðastjórnmála. Enginn skyldi þó vanmeta getu smáþjóðar til áhrifa hafi hún góðan málstað og reiður á eigin málum. Um það vitnar framganga Íslands í hafréttarmálum og stuðningur við Eystrasaltsríkin á örlagatímum um 1990. Við búum í stóru og einstöku landi og ráðum yfir stóru hafsvæði innan núverandi efnahagslögsögu. Hugsanlega eigum við  möguleika á að færa hana enn frekar út.við skiptingu á óráðstöfuðu landgrunni. Málefni norðurslóða skipta okkur miklu og ánægjulegt var að heyra yfirlýsingu nýs utanríkisráðherra þess efnis að þau eigi að njóta forgangs. Mestu máli skiptir að við nýtum auðlindir lands og sjávar sjálfbært og hættum engu til varðandi mengun og ofnýtingu. Full samstaða virðist skammt undan um að lýsa náttúruauðlindir þjóðareign samkvæmt stjórnarskrá og því þarf að fylgja trygging fyrir að landsvæði komist ekki í eigu útlendinga. Í ljósi reynslu undanfarið kalla ákvæði EES-samningsins hvað þetta varðar á skjóta endurskoðun.. Skipulag alls landsins með vernd og sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi er brýnt viðfangsefni sem koma þarf í annað og betra horf en nú er í samvinnu rikis og sveitarfélaga. Ráðstöfun og meðferð þjóðlendna, einkum á miðhálendinu, kallar á skýr svör og þar ætti náttúruvernd að sitja í fyrirrúmi. – Umbúnaður og stýring ferðamanna, innlendra sem erlendra, þarf að fá allt önnur og betri málstök en hingað til og eiga takmarkanir hvað fjölda snertir einnig að vera hluti af stefumörkun.

Stofnanir lýðveldisins og stjórnmálin

Sviptingar áranna eftir hrun hafa veikt tiltrú almennings á stjórnmálastarfi og stofnunum sem því tengjast. Inn í það fléttast breytt fjölmiðlun og ört minnkandi þátttaka almennings í starfi flokkanna að stefnumótun. Starfshættir þingmanna og ör útskipti eiga eflaust verulegan þátt í þessari þróun. Dæmi um kollsteypur er hrun Samfylkingarinnar sem stjórnmálaafls og þeir sem eftir sitja leita skýringa. Meginástæðan að mínu mati felst í boðskap forystu þess flokks um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Stóra verkefni stjórnmálanna er að ná sammæli sem flestra um að þjóðinni vegni best með því að varðveita sjálfstæði sitt í opnum og góðum samskiptum við aðra, nær og fjær. Alþingi er nú skipað fjölda nýrra þingmanna með sem næst jafna skiptingu karla og kvenna. Á þeim hvílir það ákall að treysta þingið sem grunnstoð og stefnuvita í siglingu Íslendinga inn í óræða framtíð. Jöfnuður, fjölþætt menntun og heilbrigði ættu þar að vera leiðarstef og einörð glíma við þær hættur sem tegundin maður hefur kallað yfir náttstað sinn.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim