Hjörleifur Guttormsson 7. september 2017

Góður áfangi í stóra Vatnajökulshringnum

Nýliðinn ágústmánuður fór veðurfarslega mildum höndum um fólk víðast hvar á landinu. Ég minnist vart annarrar eins blíðu og ríkti á hálendinu norðan Vatnajökuls síðustu viku mánaðarins og sólbjört kyrrð heilsaði mönnum einnig í Hornafirði 31. ágúst þegar opnaður var hátíðlega nýr áfangi gönguleiðar um hengibrú á Kolgrafardalsá frá Haukafelli á Mýrum til vesturs. (Sjá mynd KG) Með henni bætist við góður viðauki í 22 km slóð sem ganga má eftir þurrum fótum við rætur þriggja stórbrotinna skriðjökla allt vestur í Skálafell, austasta bæ í Suðursveit. Þótt ekki þurfi hér lengur að vaða ár er stígurinn flokkaður sem rauð gönguleið, þ.e. krefjandi, enda  liggur hún um óslétta jökulaura og jökulöldur framan við Fláajökul, Heinabergsjökul og Skálafellsjökul. Lagning stígsins og bygging göngubrúnna hefur gerst í nokkrum áföngum sem samvinnuverkefni samtakanna Ríkis Vatnajökuls, Vina Vatnajökuls, Náttúrustofu Suðausturlands og Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Markmiðið hefur verið að kynna svæðið sem ákjósanlegan áfanga til útivistar og náttúruskoðunar. Enginn sem fer þessa leið, sem unnt er að ganga á einum degi eða skipta í áfanga, ætti að verða fyrir vonbrigðum.

Skaftfellingar eiga heiður skilinn

Það hefur verið einkar ánægjulegt að fylgjast með störfum Skaftfellinga að náttúruverndar- og skipulagsmálum í tengslum við Vatnajökulþjóðgarð allt frá undirbúningi að stofnun hans frá og með árinu 2000. Þeir hafa í senn skynjað það tækifæri sem felst í nábýli við þjóðgarðinn og að með því að gerast þátttakendur í mótun hans og nærumhverfisins gætu byggðirnar haft af þjóðgarðinum margháttaðan ávinning, beinan og óbeinan. Þetta skynjuðu m.a. bændurnir á Smyrlabjörgum, Skálafelli, Hólmi, Brunnhóli og Hoffelli sem standa að myndarlegri ferðaþjónustu í næsta nágrenni við þjóðgarðinn. Snemma var farið að huga að miðlun upplýsinga með útgáfu göngukorta, fyrst á íslensku en síðan einnig á erlendum málum.  Gaman var að geta lagt þeirri viðleitni lítilsháttar lið í samvinnu við marga heima fyrir. Kóróna síðasta áratugar á þessum meiði er svo Þórbergssetur sem hélt upp á 10 ára afmæli sitt haustið 2016 með blómstrandi menningarstarfsemi og kynningu á ævi og verkum meistarans á 9 tungumálum. Sá kraftur sem þar hefur verið beislaður tekur flestum ævintýrum fram og hlýtur að hvetja landsbyggðarfólk víða til dáða. Á Breiðamerkursandi litlu vestar var með kaupum ríkisins á jörðinni Felli stigið löngu tímabært skref sem bætir skrautfjöður í hatt Vatnajökulsþjóðgarðs.

Upphaf á 500 km langri leið

Í fyrirsögn er minnst á Vatnajökulshringinn, sem er hugmynd um gönguleið umhverfis þennan stærsta jökul Evrópu. Hún spratt af reynslu af því að nálgast þennan mikla frera í áföngum á síðasta þriðjungi liðinnar aldar, fyrst að austan og norðan og síðar úr suðri og vestri. Oftast voru þetta um vikulangar ferðir að sumarlagi með viðlegubúnað og stundum skíði sem hægt var að stíga á ofan snælínu. Þannig fékkst mismunandi sjónarhorn og tilfinning fyrir þessari miklu víðáttu og ólíku aðgengi að jöklinum frá öllum hliðum. Ég miðlaði Landvernd og síðar Ferðafélagi Íslands af þessari reynslu og síðarnefndu samtökin vinna nú að því að móta tillögu að gönguleið umhverfis Vatnajökul. Þetta er yfir 500 km vegalengd að ummáli á heildina litið, sem skipts gæti í allt að 30 dagleiðir þar sem hver áfangi væri 15-20 km. Forysta Ferðafélagsins vinnur að greiningu á viðfangsefninu með tilstyrk frá Vinum Vatnajökuls. Þetta er stórt og margbrotið verkefni sem kallar á tugi gönguskála með takmörkuðum fjölda gistiplássa, göngubrýr á ýmsum stöðum, leiðbeiningar af ýmsu tagi, öryggisbúnað og fyllsta tillit til náttúruverndar. Fæstir munu leggja upp í slíka göngu í samfellu heldur velja tiltekna áfanga, væntanlega deilt á nokkur ár. Þetta er spennandi verkefni sem opnar nýja möguleika til að njóta náttúru hálendisins umhverfis Vatnajökul en virða samtímis þolmörk umhverfisins.

Hverfandi jökull – fortíð og framtíð

Menn námu hér ósnortið land í öndverðu með allt aðra gróðurþekju en nú blasir við og langtum minni jökla en síðar varð. Búsetuminjar frá fyrstu öldum byggðar endurspegla þetta, bæði norðan og sunnan heiða sem og ferðaleiðir yfir hálendið, að jöklunum meðtöldum. Traustar heimildir eru um árlegar verferðir Norðlendinga og Austfirðinga yfir jökulinn í suðri sem á 17. öld nefndist enn Grímsvatnajökull eftir eldstöðinni sem þá var að líkindum vel þekkt. Skaftafell átti rétt til að beita hrossum á Möðrudalsöræfum gegn hrístöku Möðrudælinga í Skaftafellsskógi og smalamenn bæjanna gagnkvæman rétt til legurúms. Um þessi samskipti tala einnig fornleifar sínu máli sem langtum betur þarf að hyggja að en gert hefur verið hingað til. Nú hörfa skriðjöklar hratt til baka og skilja eftir sig jökulminjar sem hafa mikið varðveislu og fræðslugildi. Fjöll og hálendi með og án jökla eru gullkista og fræðslubrunnur með því lífi sem þar hefur þrifist, þrátt fyrir búsetuna. Njótum þeirra innan þolmarka.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim