Hjörleifur Guttormsson 10. janúar 2017

Varðveisla íslenskrar tungu á tækniöld

Við sem um miðja síðustu öld sátum við fótskör íslenskukennara í örfáum menntaskólum landsins munum tímana tvenna. Íslenskan sem tungumál var þá í sókn og fátt utanaðkomandi sem ógnaði henni, nema kannski kanaútvarp sem þá tók að berast frá herstöðinni í Keflavík. Dönskusletturnar voru á útleið og enska hafði ekki náð neinni fótfestu hér umfram önnur erlend tungumál. Fjöldi fræðimanna og almenningur tók þátt í nýyrðasmíð neð einstæðum árangri. Esperantistar gátu jafnframt með nokkrum rétti gert sér vonir um að hægt væri að gera það tungutak að alþjóðamáli sem nothæft væri til samræðu jafnt í Kína og Suðursveit. Nú er öldin önnur þar sem staðhæft er að íslenska muni brátt fylla flokk hverfandi tungumála vegna hraðfara tæknibreytinga verði ekki við brugðist. Um rökin fyrir þessu í ljósi þróunar síðustu áratuga fjallaði ég m.a. í grein í Morgunblaðinu 10. des.  2015 (Brýnasta verkefnið -  að hlúa að móðurmálinu).

Máltækni og samtalið við tölvurnar

Það hefur blasað við frá því fyrir síðustu aldamót eftir tilkomu Netsins og nýrra stýrikerfa sem einvörðungu tengdust ensku, að íslenska yrði hornreka nema skipulega yrði stutt við íslenska  máltækni. Þá var veitt 133 mkr upphæð á fjárlögum áranna 2000-2004 í máltækniátak sem kom veikburða fótum undir þetta nýja svið. Í heilan áratug varð ekki framhald á slíkum fjárstuðningi þrátt fyrir ábendingar sérfróðra um að þróun máltækni og talgreining væru forsenda fyrir að fólki og þá ekki síst ungmennum yrði gert kleift að nota íslensku í samskiptum við tölvur og upplýsingakerfi, m.a. í tengslum við þróun snjallsíma og spjaldtölvur. Loks haustið 2014 skipaði menntamálaráðherra að boði Alþingis nefnd sem vann hratt og vel og skilaði tillögu um að fjárfest yrði skv. langtímaáætlun í íslenskri máltækni og að íslenskur talgreinir yrði kominn í gagnið í árslok 2017. Ekki fylgdi nema brot af áætlaðri fjárþörf til verkefnisins á fjárlögum 2015 og 2016. Þannig hefur, þrátt fyrir vel rökstuddar tillögur sérfróðra á borð við Eirík Rögnvaldsson prófessor, tapast dýrmætur tími til að tryggja stöðu íslenskunnar á tímum hraðfara tækniþróunar. Fráfarandi forsætisráðherra varaði í áramótaávarpi sínu við yfirvofandi hnignun íslenskrar tungu, verði ekki við brugðist. Vonandi verður nú brátt endir bundinn á afdrifaríkan sofandahátt stjórnvalda.

Einkaframtakið kallað til leiks

Í einróma ályktun Alþingis 13. október 2016 vegna fullveldisafmælis 2018 felur þingið ríkisstjórninni „að undirbúa ályktunartillögu um uppbyggingu innviða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni.“  Þann 22. nóvember sl. tilkynnti menntamálaráðherra um skipun „stýrihóps íslenskrar máltækni“ með fulltrúum frá ráðuneytinu og Samtökum atvinnulífsins, formaður Davíð Þorláksson. Frá nýjum framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Halldóri Þorbergssyni, birtust síðan í liðinni viku sterk aðvörunarorð og jákvæð hvatning til sóknar í máltækni: „ Við [SA] leggjum til að á næstu fimm til sjö árum verði lagðir um tveir milljarðar króna í verkefnið ... Við viljum að atvinnulífið taki fullan þátt og í raun dragi vagninn í að ýta þessari framþróun og nýsköpun áfram.“ (Mbl. 7. jan.sl). Hér er þannig einkaframtakið kallað til leiks, sem ekki skal lastað, en minnt á að um allsherjarmálefni er að ræða þar sem ríkinu ber að stilla saman strengi eigi vel að fara. Óljóst er enn samhengið milli ályktunar Alþingis og stýrihóps ráðuneytisins, en málefnið kallar á forgang hjá nýrri ríkisstjórn.

Samhent átak til bjargar þjóðtungunni

Mörgum kann að þykja djúpt í árinni tekið þegar varað er við hættu á að íslenskan hverfi sem lifandi tungumál. Þar er þó engum ofsögum sagt og fráleitt að taka áhættuna með hendur í skauti. Íslenska er örtunga á mælikvarða fjölþjóðarisanna sem ráða tækniþróuninni. Verkið til bjargar tungumálinu vinnur enginn fyrir okkur og kostnaður við að berja í brestina er smáræði þótt hlaupi á milljörðum. Máltæknin ein og sér er þar aðeins einn þáttur af mörgum. Hér verða skólar og heimili einnig að koma samhent að verki og fjölmiðlar að leggjast með á árar. Mennta verður fólk til sérhæfðra verka og leita aðstoðar erlendis frá þar sem kunnáttu þrýtur.
Við sem á fyrstu árum lýðveldisins nutum þess að horfa þúsund ár til baka í gegnum Völuspá og Gylfaginningu bjó ekki í grun að þeir gluggar kynnu að hverfa í tíð næstu kynslóða. Nú hafa menn hinsvegar að líkindum aðeins örfá ár til að koma í veg fyrir að þær gáttir lokist um aldir alda.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim