Hjörleifur Guttormsson 14. nóvember 2017

Náttúruvernd, góð söfn  og fræðsla eru undirstaða sjálfbærrar ferðaþjónustu

Örar samfélagsbreytingar eru tákn okkar tíma. Rof milli kynslóða er meira en nokkru sinni fyrr og því fylgir hætta á að ungt fólk tapi tengslum við fortíðina. Breytingar í atvinnulífi valda fækkun starfa í áður hefðbundnum greinum en jafnframt blasa við ný viðfangsefni. Dreifbýli á almennt undir högg að sækja hérlendis sem annars staðar í Evrópu. Ferðaþjónusta er sá vaxtarbroddur sem bætt hefur upp samdrátt í störfum jafnt í sjávarútvegi sem landbúnaði. Vöxtur hennar hefur verið hraður en samfélagið sem heild verið illa undir hann búið. Landrænt skipulag hefur til skamms tíma setið á hakanum og sviptingar á sveitarstjórnarstigi með fækkun og samruna sveitarfélaga ekki auðveldað mönnum að ná fótfestu. Miklu skiptir að á þessu verði breyting, m.a. til að treysta undirstöður og forsendur farsællar ferðaþjónustu um allt land. Þar skiptir náttúruvernd og fræðsla um sögu og menningu þjóðarinnar miklu og að allir landshlutar verði hluti af uppbyggilegri og sjálfbærri þróun.

Brotalamir og óvissa um lagaframkvæmd

Þróun löggjafar um skipulag,  náttúruvernd, þjóðminjar, menningarminjar og söfn hefur gengið hægt og skrykkjótt síðustu hálfa öld og samtímis því hafa opinberar stofnanir sem sinna eiga þessum málaflokkum búið við afar þröngan fjárhag. Nýjustu útgáfur lagabálka um þessi efni eru innan við áratugs gamlar og heyra nú undir tvö ráðuneyti, þ.e. mennta- og menningarmála og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Margt af því sem kveðið var á um í eldri lögum náði ekki fram að ganga eða strandaði í miðjum klíðum. Tímabundin tilfærsla málaflokka innan Stjórnarrráðsins eins og gerðist 2013-2016 til forsætisráðuneytis bætti ekki úr skák. Ýmis ákvæði í þessum lögum skarast, þannig að óvissa er um farvegi þegar á reynir um framkvæmdir. Þá er ólokið vinnu á vettvangi Óbyggðanefndar um ákvörðun þjóðlenda á Austfjörðum og Vestfjörðum, en löggjöf þar að lútandi var sett 1998. Hugmyndir um Miðhálendisþjóðgarð hafa verið í deiglu um skeið og mikið er undir því komið hvernig þeim reiðir af. Afar mikilvægt er að ofangreindir málaflokkar verði nú teknir föstum tökum og til þeirra verði veitt langtum meira fjármagni en hingað til. Þar er mikið í húfi, ekki sist fyrir dreifðar byggðir og undirstöður ferðaþjónustu sem atvinnugreinar.

Dæmi um jákvæða vaxtarbrodda

Þrátt fyrir annmarka á lagaframlvæmd og alls ónógar fjárveitingar úr sameiginlegum sjóðum hefur margt jákvætt verið að gerast víða um land síðustu áratugi fyrir tilstilli heimaaðila og dugmikilla einstaklinga og þannig safnast reynsla sem auðveldað getur málstök til frambúðar. Dæmi um brautryðjendastarf er Byggðasafnið í Skógum og með samstarfi sveitarfélaga á Austurlandi  hafa þar vaxið upp mörg sérgreind söfn eftir skipulagi sem lagður var grunnur að á 8. áratug síðustu aldar. Gunnarsstofnun og  Þórbergssetur hafa síðan unnið sér þar tryggan sess. Á Norðurlandi eru Síldarminjasafnið á Siglufirði og Selasetur á Hvammstanga dæmi um velheppnaða þróun sem byggir á sögu og náttúrufari. Þá hafa frá 1995 byggst upp átta náttúrustofur á vegum sveitarfélaga og með þeim verið lagður grunnur að svæðisbundinni þekkingaröflun. Nú liggja fyrir á Vesturlandi tillögur um menningarstefnu á forræði Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi þar sem lögð er áhersla á mikilvægi menningarlífs fyrir búsetu og þróun.

Í fótspor Jóns lærða á Úthéraði

Á Fljótsdalshéraði er nú til umræðu í nefnd á vegum sveitarfélagsins að koma upp náttúru- og fræðasetri á Úthéraði sem tengt yrði nafni Jóns lærða sem þar lifði og starfaði síðasta þriðjung ævinnar og skildi eftir sig mörg sín þekktustu verk. Þann 3. nóvember var hugmyndin kynnt og rædd á fjölsóttu málþingi í Hjaltalundi á Hjaltastað, en þar hvíla Jón lærði og Sigríður kona hans fyrir kirkjudyrum. Úthérað er dæmi um svæði þar sem byggð hefur verið á undanhaldi síðustu áratugi en staðarkostir eru margir með fjölbreyttri og glæsilegri náttúru, víðáttumiklu votlendi  og fornum og litríkum megineldstöðvum til beggja handa, kenndum við Dyrfjöll og Fagradal. Í þessu umhverfi dvaldi Kjarval langdvölum og þar óx upp Gunnlaugur Scheving, svo og skáldjöfrarnir Stefán Ólafsson og Páll Ólafsson. Fornminjar eru hér margar en lítt kannaðar. Heimamenn gera sér grein fyrir að á Úthéraði er kjörinn efniviður til sóknar á ný mið, tengd ferðaþjónustu, fræðslu og rannsóknum.

Náttúruminjasafn Íslands bíður staðfestingar

Ein vanrækslusyndin frá liðinni tíð er fálæti stjórnvalda gagnvart Náttúruminjasafni Íslands sem samkvæmt lögum frá 2007 skal vera eitt af þremur höfuðsöfnum hérlendis. Safninu býðst nú ákjósanleg aðstaða til sýningarhalds í Perlunni á Öskjuhlíð samkvæmt samningi sem menntamálaráðherra hefur staðfest með fyrirvara um samþykki Alþingis.
Nýrrar ríkisstjórnar, Alþingis og sveitarstjórna sem kjörnar verða að vori bíða þannig miklar áskoranir til að renna stoðum undir vaxtarsprota til að treysta byggð og atvinnulíf. Þar skiptir miklu máli að stilla skipulega saman aðgerðir í náttúruvernd  og tengja þær sögu, söfnum og staðbundinni menningu.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim