Hjörleifur Guttormsson | 16. maí 2017 |
Skipulag ferðamannastaða og náttúruvernd Aðsókn að fjölsóttum ferðamannastöðum hérlendis hefur margfaldast að undanförnu í samræmi við stóraukinn straum erlendra ferðamanna til landsins. Um langt skeið höfum við vanrækt að vinna að úrbótum með framsýnu skipulagi og dreifingu ferðamanna um landið. Á meðan fjöldi ferðmanna sem sótti okkur heim var nálægt einni milljón á ári voru aðstæður þegar orðnar óviðunandi víðast hvar, hvað þá nú þegar sú tala hefur tvöfaldast. Loksins sér þess merki að stjórnvöld, Alþingi, ríki og sveitarfélög, séu að átta sig á í hvert óefni er komið, m.a. með lagabótum og auknum fjárveitingum til aðgerða á ferðamannastöðum. En þá kemur í ljós að undirbúningur aðgerða tekur tíma og mestu máli skiptir að vanda skipulag sem taki mið af náttúruvernd og breytilegum aðstæðum litið til langs tíma. Breytingar á einum mannsaldri Í árdaga skemmtiferða á síðustu öld höfðu menn ekki áhyggjur af örtröð, hvorki af fólki, hestum eða ökutækjum. Það þótti sjálfsagt að koma sér fyrir við bestu aðstæður sem næst stöðum og náttúrufyrirbærum með aðdráttarafl. Skálar voru byggðir fast við Geysi og Gullfoss og sæluhús á hálendinu í vinjum á Hveravöllum, í Landmannalaugum og Herðubreiðarlindum svo dæmi séu nefnd. Á Þingvöllum gátu menn valið að tjalda nánast þar sem hugurinn girntist og tjaldvagnar þjónuðu sem sumarbústaðir frá vori til hausts á Efri-Völlum. Hér sem annars staðar breytti bílaeign almennings þessum aðstæðum, slóðir opnuðust inn í óbyggðir og brátt fór að þrengjast um á áningarstöðum um hásumarið. Þetta þekkja allir sem náð hafa miðjum aldri. – Í Bandaríkjunum gekk þessi þróun yfir upp úr miðri 20. öld og þar brugðust stjórnvöld við á verndarsvæðum með því að draga úr gistiþjónustu sem byggð hafði verið upp innan þeirra og reisa skorður við bílaumferð að eftirsóttum náttúrufyrirbærum. Ég átti kost á að kynnast þessum breyttu viðhorfum vestanhafs um 1970 og dró af þeim ályktanir um æskilegt skipulag. Þingvellir og Skaftafell Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður 1928 sem „friðlýstur helgistaður allra Íslendinga“ eins og kveðið er á um í lögum. Ekkert skipulag gilti um hann fyrstu 60 árin og á því skeiði voru gerð margvísleg mistök sem enn minna á sig. Framkvæmdir þar tengdust að öðru leyti aðalllega stórhátíðum, m.a. 1930 og 1974, en ferðamennska fór troðnar slóðir með Valhöll sem helsta kennileiti. Í fyrstu skipulagssamkeppni um staðinn 1972 lögðum við nokkrir til að færa þungamiðju aðkomu að Þingvöllum vestur fyrir Almannagjá nálægt Hakinu. Sú stefna var loks staðfest í fyrsta skipulagi þjóðgarðsins 1988. Þótti mörgum það goðgá og enn í dag heyrast hugmyndir um að reisa ætti stórhýsi niðri á Völlunum. – Fyrsti þjóðgarður samkvæmt náttúruverndarlögum var stofnaður í Skaftafelli 1967 og þar voru megindrættir í skipulagi umferðar ákveðnir í aðdraganda akvegar og brúagerð á Skeiðarársandi 1974. Eftir umræðu í Náttúruverndarráði varð sammæli um að byggja þjónustumiðstöð með tjaldsvæði undir Austurbrekkum og að öðru leyti væri umferð aðeins ætluð göngufólki. Svipuð viðhorf réðu ákvörðun ráðsins um þjónustuhús og tjaldsvæði í Jökulsárgljúfrum við útenda Ásbyrgis. Dæmi af misjöfnum toga Umræðan um breytt viðhorf vegna vaxandi umferðarþunga og fjölgunar ferðafólks hefur því miður ekki skilað sér sem skyldi í tillögugerð og ákvörðunum um skipulag á ýmsum eftirsóttum ferðamannastöðum. Á Hveravöllum voru þau mistök gerð fyrir um 20 árum að endurnýja þjónustuaðstöðu með gistingu í næsta nágrenni við hverasvæðið og auka með því álag á náttúru staðarins, auk mengunar af bílageri.Slíka aðstöðu hefði átt að byggja upp nokkru austar skammt frá Kjalvegi og koma þar upp þjónustu af ýmsu tagi. Nýlegt skipulag við Skógafoss endurspeglar á sama hátt skammsýni og fastheldni við úrelt viðhorf, þar sem ferðamannaaðstaða er sett niður alltof nærri fossinum þótt nægt landrými sé fjær, t.d. niðri við þjóðveg. Í svipað sýnist mér stefna við Seljalandsfoss og Gljúfrabúa með tilheyrandi sjónmengun og álagi sem fylgir þjónustumiðstöð hið næsta fossunum. Lykillinn að því að draga úr álagi er að hafa slíka þjónustu og bílastæði fjær og láta ferðamenn hafa fyrir að ganga þaðan að því náttúrufyrirbæri sem mest aðdráttarafl hefur. Þaðan má síðan skipuleggja almenningssamgöngur, m.a. fyrir fatlaða. – Miklu skiptir að menn læri af mistökum úr fortíðinni og sem betur fer er víða verið að fóta sig í skipulagi ferðamannastaða. Þannig virðist mér nýtt skipulag í Landmannalaugum stefna í rétta átt og við Dettifoss hafa menn verið að þræða ásættanlegan meðalveg um aðkomu. Hálendi og útnes í sérstöðu Hér hefur sjónum verið beint að stöðum í alfaraleið þangað sem hindrunarlítið verður komist á ökutækjum. Stór hluti hálendis og útnes með ströndum fram eru hins vegar utan við seilingu bifreiða nema kannski á snjó. Kosti slíkra aðstæðna þarf að varðveita og einnig í þeim efnum reynir á framsýnt skipulag. Hjörleifur Guttormsson |