Hjörleifur Guttormsson 16. desember 2017

Ríkisstjórn Katrínar er nýmæli sem vekur athygli víða

Ný ríkisstjórn undir forsæti Vinstri-grænna með þátttöku Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er rökrétt niðurstaða alþingiskosninganna 28. október sl.. Tilraunin um svokallaða vinstristjórn með örnauman meirihluta  var dæmd til að mistakast. Katrín Jakobsdóttir skynjaði réttilega ákallið um að stíga yfir gamlar girðingar milli flokka og leita þess sem sameinar. Viðtökur almennings við þessari stjórnarmyndun eru jákvæðar og gefa stjórninni byr nú í upphafi. Meirihluti kjósenda hefur fengið sig fullsaddan á ringulreið síðustu ára. Afdrif Bjartrar framtíðar sem er horfin af sjónarsviðinu eftir skyndiákvörðun um stjórnarslit talar þar sínu máli og ámóta örlög gætu beðið Viðreisnar sem var á svipaðri slóð.

Stjórnarsáttmálinn sem vegvísir

Það er styrkur fyrir ríkisstjórnina að flokkarnir þrír sem að henni standa hafa þingstyrk að heita má í öllum kjördæmum landsins. Allir eru þeir samkvæmt flokkssamþykktum andsnúnir aðild að Evrópusambandinu og tala þar fyrir munn meirihluta kjósenda samkvæmt skoðanakönnunum um langt skeið. Sáttmáli þeirra um ríkisstjórnarsamstarf endurspeglar ásetning um að treysta undirstöður samfélagsins á sem flestum sviðum, stuðla að sátt á vinnumarkaði, auka jafnrétti óháð kyni og búsetu og taka af alvöru á umhverfis- og auðlindamálum. Stofna á Þjóðarsjóð til að mæta fjárhagslegum áföllum og til stuðnings nýsköpun. Sem vænta má er útfærslu um margt vísað í nefndir og þverpólitíska hópa, sem mikið er komið undir að reynist skilvirkir. Að ýmsu má finna í þessu grunnplaggi. Ég nefni hér sem dæmi þá furðulegu afstöðu, sem ég hygg að rekja megi til VG, að horfið er frá því að leggja virðisaukaskatt á ferðaþjónustu til jafns við aðrar atvinnugreinar og að jafnframt er hlaupið frá hugmyndum fv. samgönguráðherra um vegtolla til aðkallandi átaks í uppbyggingu vegakerfisins. Hverjum er verið að hlífa með svona ráðsmennsku?

Umhverfismál í góðum höndum

Umhverfismál sem lítið fór fyrir í umræðu í aðdraganda alþingiskosninga koma sem betur fer víða við sögu í sáttmálanum. Stofna á loftslagsráð líkt og VG lagði til upp úr síðustu aldamótum til að fylgja eftir og samræma metnaðarfulla stefnu af Íslands hálfu. Móta á orkustefnu til langs tíma  í samráði við alla þingflokka og friðlýsa vatnsföll sem komin eru í verndarflokk rammaáætlunar. Fylgja á eftir hugmyndinni um þjóðgarð á miðhálendinu í víðtæku samráði og skoða möguleika á þjóðgörðum á öðrum svæðum. Tryggja á sem fyrst aðgang almannasamtaka að ákvörunum á sviði umhverfismála og koma til framkvæmda skuldbindingum Íslands samkvæmt Árósarsamningnum. ‒ Skipan ráðherra utan þings í embætti umhverfisráðherra hefur eðlilega vakið athygli og sumir vikið að stöðu hans sem fyrrum framkvæmdastjóra Landverndar. Í Noregi og víðar er tíðkað að kalla til ráðherra utan þings, t.d. var Guro Fjellanger (f. 1964) umhverfisráðherra 1997-2000 eftir að hafa gegnt um tíma stöðu framkvæmdastjóra í Norges Naturvernforbund. Sjálfur hef ég verið þeirrar skoðunar að rétt væri að þingmenn sem yrðu ráðherrar víki úr þingsæti á meðan. Tilnefning Guðmundar Inga í sæti ráðherra er jákvæð og styrkir ríkisstjórnina og málaflokkinn.

Stjórnarandstaðan, ESB og styrking Alþingis

Starf þingflokka og ekki síst í stjórnarandstöðu er afar mikilvægt jafnt til aðhalds innan þings og áhrifa á löggjöf og framkvæmdavaldið. Fimm flokkar harla sundurleitir verða nú í stjórnarandstöðu á Alþingi. Þrír  eru hallir undir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Samfylkingin fékk Brussel-bakteríuna í arf frá Alþýðuflokknum og Viðreisn er beinlínis tilorðin vegna ágreinings um það mál innan Sjálfstæðisflokksins. Ágreiningurinn um ESB og EES-aðild Íslands réði ásamt afstöðu til umhverfismála mestu um stofnun Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs árið 1999. Í mínum huga eiga flokkar hérlendis með öndverð sjónarmið til ESB-aðildar litla stjórnmálalega samleið og hugtakið „vinstri“ er merkingarlaus kljsja í því samhengi. Í sáttmála stjórnarflokkanna er ESB-aðild blessunarlega hafnað, en hinsvegar skýtur þar eftirfarandi heitstrenging upp kollinum: „Ríkisstjórnin telur það vera eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands að sinna framkvæmd EES-samningsins vel og Alþingi þarf að vera virkara á því sviði.“ EES-samningurinn er vissulega staðreynd að óbreyttu, en tjóðrun Íslands við reglugerðafæriband ESB er ótækt samskiptaform til frambúðar. Því ætti það að vera eitt af verkefnum stjórnvalda að taka aðildina að EES til endurskoðunar og fylgjast m.a. í því sambandi með vaxandi gagnrýni á samninginn í Noregi. Í því samhengi væri styrking á stöðu Alþingis réttnefni.

Stefnumörkun sem verður að vanda

I vegvísi ríkisstjórnarinnar er vikið að stórum og brýnum verkefnum til stefnumörkunar í heilbrigðismálum og menntamálum. Það eru svið sem taka drjúgan hluta af skatttekjum landsmanna auk þess að vera undirstaða í þjónustu og undirbúningi ungs fólks fyrir lífið. Þótt ekki væri annað en að leggja þar góðan og traustan grunn hefur þessi víðfeðma ríkisstjórn verk að vinna.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim