Hjörleifur Guttormsson 17. apríl 2017

Laxeldi þarf að endurmeta frá grunni

Íslenskum stjórnvöldum er margt betur gefið en forsjálni þegar kemur að umgjörð um þróun atvinnulífs í landinu. Stóriðja sem eitt sinn var lausnarorðið á sér nú fáa formælendur, í ferðaþjónustu hefur verið látið vaða á súðum og nú er ljóst að laxeldi sem vonir hafa verið vaktar um stendur á brauðfótum og stefnir í stórslys að óbreyttu. Lagarammi sem settur var um fiskeldi fyrir tæpum áratug (lög nr. 71/2008) reynist haldlítill þegar til kastanna kemur, þvert á fögur markmið um ábyrgt eldi og að „koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra.“ Í kastljósþáttum Ríkisútvarpsins í byrjun apríl var varpað ljósi á forsögu og hugmyndir um mikinn vöxt laxeldis og þær brotalamir sem við blasa. Í raun er hér verið að feta slóð Norðmanna í laxeldi án þess að horfast í augu við þau miklu mistök sem þar hafa orðið, m.a. með erfðaíblöndun á eldislaxi við villta stofna í norskum ám.

Hvað segir norska Hafrannsóknastofnunin?

Á heimasíðu Havforskningsinstituttet í Noregi  lesum við eftirfarandi:

„Talsverður hluti af laxi og regnbogasilungi sleppur ár hvert úr eldiskvíum. Eldislaxinn hefur frá því snemma á áttunda áratugnum verið ræktaður úr nokkrum norskum villtum laxastofnum, en regnbogaurriðinn er upphaflega kominn frá vesturströnd Norður-Ameríku. Hluti af þeim laxi sem sleppur lifir af og sækir til baka í laxveiðiár þar sem hann getur blandast villtum laxi og valdið erfðabreytingum á villtu laxastofnunum. Lax sem sleppur úr eldi og regnbogasilungur geta líka flutt með sér smit í fjarðalífríkið og upp í árnar og reynst ógnvaldur fyrir villta stofna. Enn höfum við takmarkaða þekkingu á þolmörkum slíkra erfðaáhrifa hjá villtum laxastofnum, enda þótt menn hafi nú þróað aðferðir til að sýna fram á erfðabreytingar til lengri tíma. Auk aðgerða til að takmarka og koma í veg fyrir að lax sleppi úr eldi, eru líka til aðrar aðferðir til að koma í veg fyrir erfðaáhrif yfir á villta stofna. Það er tiltölulega auðvelt að framleiða geldfisk með því að beita eggin þrýstingi strax eftir frjóvgun. Hins vegar þekkja menn enn ekki nógu mikið allt það sem varðar velferð og framsleiðslutengd áhrif af því að hefja slíkt eldi á viðskiptalegum grunni.“ (Þýðing HG)

Að flýta sér hægt

Í stað þess að læra af mistökum nágranna í Noregi og víðar erlendis er nú stefnt í ófæru með hugmyndir um mikið laxeldi á grundvelli leyfisumsókna fyrirtækja í norskri meirihlutaeign, sem samanlagt svara til um 200 þúsund tonna framleiðslu  og þaðan af meira. Vonir hafa verið vaktar hjá almenningi og forsvarsmönnum viðkomandi sveitarfélaga með þessum áformum, sem augljóst er að enginn friður verður um, enda verið að ganga gegn grundvallaratriðum um sjálfbæra þróun og verndun lífríkis. Það er óðs manns æði að ætla að þróa laxeldi hérlendis með norskum eldislaxi í opnum kvíum sem óhjákvæmilega mun blandast villtum íslenskum laxastofnum, auk sjúkdómahættu og mengunar m.a. á botni viðkomandi fjarða.  Staðan í Noregi er mjög umdeild, m.a. hafa stærstu náttúruverndarsamtök Noregs (Norges Naturvernforbund) nýlega samþykkt kröfu um að allt laxeldi verði fært í lokuð ker. Hérlendis er góð reynsla af þróun bleikju til eldis sem ætti að vísa veginn fyrir íslenskan eldislax. Landsamband veiðifélaga bendir á að notkun á geldlaxi í eldi geti líka verið ásættanleg málamiðlun. Í stað þess að þræða núverandi slóð ættu stjórnvöld að endurskoða lagaramma og framkvæmd fiskeldismála frá grunni og tryggja jafnframt virkt eftirlit.

Rannsókn á botngerð og vistgerðum fjarða

Brýn þörf er á hefja skipulegar rannsóknir á grunnsævi hér við land hliðstæðar þeim sem gerðar hafa verið með kortlagningu vistgerða á landi. Árið 2004 ákvað landbúnaðarráðherra með vísan til laga um lax- og silungsveiði að ákvarða friðunarsvæði þar sem eldi laxfiska í sjókvíum væri óheimilt. Með því var meirihluti strandsvæða við landið friðaður fyrir eldi. Þeim gjörningi hefur ekki verið breytt, en eftir standa Vestfirðir, Austfirðir og Eyjafjörður opnir fyrir eldi. Eðlilegt er að þessi svæði njóti forgangs við ofangreindar rannsóknir. Með slíkri kortlagningu grunnsævis, botngerða og lífríkis, væri lagður grunnur að skipulagi um nýtingu og verndun. Íslenska ríkið er eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga (lög nr. 73/1990). Þar er því um hliðstæðu að ræða við þjóðlendur á landi. Eðlilegt er að samstarf sé haft við sveitarfélög um ákvarðanir varðandi skipulag  á aðliggjandi grunnsævi, en eignar- og umráðaréttur ríkisins leggur því miklar skyldur á herðar, m.a. um fjármögnun rannsókna.

Stjórnvöld átti sig fyrr en seinna

Íslendingar lentu í ógöngum með fiskeldi á níunda áratug síðustu aldar og það væri hrapalegt að endurtaka þann leik nú vegna skammsýni eða blindu. Engum væri þar verr gert til en þeim byggðum í landinu sem vonir hafa bundið við laxeldi sem nýjan vaxtarsprota. Löngum hafa sögur af Bakkabræðrum verið rifjaðar upp af minna tilefni en hér stefnir í. Við skulum hins vegar vona að þess gerist ekki þörf, enda sjái stjórnvöld að sér í tæka tíð.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim