Hjörleifur Guttormsson 14. september 2017

Opið bréf til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Um samskipti Reykjvíkurborgar við íbúa sveitarfélagsins

Háttvirtur borgarstjóri.
Ástæða þess að ég skrifa þér opið bréf er döpur reynsla mín sem íbúa af samskiptum við Reykjavíkurborg í kjölfar tiltekinnar ákvörðunar borgarinnar haustið 2015.  Þá var tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves heimilað að mála mynd á austurgafl Sjávarútvegshússins að Skúlagötu 4, sem síðan var fjarlægð um miðjan júlí sl. samkvæmt ákvörðun húsráðenda þar á bæ og í samræmi við þau skilyrði fyrir gerð myndarinnar sem sett voru í upphafi. Virðist sem starfsmönnum Reykjavíkurborgar hafi þótt sú ákvörðun óþægileg, enda stóðu eftir á linnulausar umræður um þann gjörning í fjölmiðlum og á svonefndum samfélagsmiðlum síðari hluta ágústmánaðar. Fljótlega beindust spjótin fyrst og fremst að undirrituðum sem meintum geranda í þessu máli. Starfsmenn þínir hjá Reykjavíkurborg áttu drjúgan hlut að þeirri umræðu án þess að upplýsa nokkuð opinberlega um aðkomu borgarinnar að málinu og framvindu þess. Þannig fóðruðu þeir fjölmiðla og spjallrásir á þeim boðskap að undirritaður væri helsti gerandinn í málinu, og bæri ábyrgð á að gaflmyndin var fjarlægð. Til þess nýttu þeir tölvupóstsamskipti mín við borgaryfirvöld þar sem ég spurðist fyrir um myndina.

Málavextir í hnotskurn

Eftir á blasir við svofelld framvinda þessa máls. Þann 8. september 2015 var  samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Reykjavíkur, að undangenginni kynningu í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur, að gera mætti vegglistaverk utan á 11 hús í Reykjavík. Ekki töldu þessir aðilar að umsóknin þyrfti að fara í grenndarkynningu og voru gefin út ótímabundin byggingarleyfi fyrir þeim. Það var jafnframt lagt í hendur eigenda viðkomandi húsa að ákveða um það hvort og þá hvenær yrði málað yfir þessi verk og um það skyldi haft samband við umsóknaraðilann. Hússtjórn Sjávarútvegshússins, sem hér átti hlut að máli, féllst á að verkið yrði málað á húsgaflinn með því skilyrði að það yrði fjarlægt innan árs. Það dróst um rösklega hálft ár að fjarlægja myndina af veðurfarsástæðum, að mér var tjáð síðar. Um ofangreindar ákvarðanir var mér með öllu ókunnugt þar til vorið 2016 að ég grennslaðist fyrir um þessa mynd hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur og skýrði byggingarfulltrúi borgarinnar mér þá frá aðdraganda málsins.  Nokkru seinna greindi húsvörður Sjávarúrvegshússins  mér frá því skilyrði hússtjórnar að myndin skyldi fjarlægð innan árs, það er ekki síðar en haustið 2016. Ég kom þannig hvergi að ákvörðunum um  þetta mál og einu afskipti mín voru þau að fylgjast með því, hvort við sett skilyrði málsaðila yrði staðið.

Ósiðlegur undirróður

Heill mánuður leið frá því málað var yfir myndina á Sjávarútvegshúsinu án þess minnst væri á málið í fjölmiðlum. Það breyttist skyndilega með uppslætti í  í Fréttablaðinu 17. ágúst sl. og því tengdist atlaga að undirrituðum sem ekki fór fram hjá neinum. Ég fæ ekki betur séð en á bak við hana hafi staðið aðilar í skipulagsráði Reykjavíkurborgar í samvinnu við framkvæmdastjóra Iceland Airwaves sem lét sem honum kæmi á óvart að myndin hefði verið fjarlægð. „Nei, nei, það var enginn látinn vita, ekki nokkur maður“ voru svör hans. Og formaður skipulagsráðs tók í sama streng, honum væri eftirsjá að myndinni, en lét þess þó getið að „af hálfu borgarinnar var ákveðið að láta húseigendum eftir hver afdrif myndanna yrðu.“ Á eftir fylgdu pistlar í Fréttablaðinu og Ríkisútvarpinu þar sem ég var sagður bera ábyrgð á því að myndin var fjarlægð. Ekki kvarta ég undan þeim slettum sem jafnframt endurómuðu á samfélagsmiðlum, þar sem hver þjónaði lund sinni. Hitt kom á óvart að stjórnendur Reykjavíkurborgar hreyfðu hvorki legg né lið til að upplýsa um bakgrunn málsins, hvað hafi falist í þeirri ákvörðun að veita leyfi fyrir gerð myndarinnar og þeim skilyrðum hússtjórnar sem sett voru fyrir henni. Hins vegar virtist auðsótt mál að upplýsa fjölmiðla um öll tölvupóstsamskipti mín við borgaryfirvöld og afhenda þeim samskiptin í heild sinni.

Tölvupóstar á lausu en ekki sendibréf!

Það eina sem mér vitanlega heyrðist frá borginni á þessum ágústvikum var þegar upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar dró skýr mörk á milli tölvupósta og sendibréfa með tilliti til upplýsingalaga. „Í fréttum af málinu hafði verið vísað til bréfaskipta á milli aðila. Ekki var um bréfasamskipti að ræða heldur tölvupósta.“ (Mbl. 24. ágúst 2017, bls. 4)  Samkvæmt þessu er mönnum ráðlagt að fara að sleikja frímerkin í samskiptum við borgina vilji þeir ekki lenda í vel skipulögðum fjölmiðlahasar. Og í framhaldinu sagði upplýsingastjórinn Morgunblaðinu, að sig reki ekki minni til þess að svipað hafi komið upp, að erindi íbúa til borgaryfirvalda rati í fjölmiðla með þessum hætti. Hins vegar megi borgarbúar eiga von á því að það geti gerst. Orðrétt: „Já, ef þú sendir borginni erindi sem þetta máttu eiga von á  því að það geti birst opinberlega.“  

Ábyrgð og gagnsæjar leikreglur

Skipulagsmál, jafnt þéttbýlis sem dreifbýlis, eru afdrifarrík og þar þarf að gaumgæfa hvert skref. Ég er þeirrar skoðunar að varanlegar myndir á hús eigi að lúta ákvæðum skipulagslaga, m.a. um grenndarkynningu, sbr. grein mína í Morgunblaðinu 21. ágúst sl.
Ég hef lengi átt samskipti við sveitarstjórnir og starfsmenn þeirra víða á landinu um ótal mál og á yfirleitt um þau góðar minningar. Sú reynsla sem hér er rakin og snýr að Reykjavíkuborg er af öðrum toga og kom mér á óvart. Viðmót borgarkerfisins gagnvart utanaðkomandi er heldur stirðbusalegt og fráhrindandi. Verra er þó þegar starfsmenn borgarinnar gerast þátttakendur í leikfléttum til að hafa áhrif á gang og niðurstöðu mála, móta almenningsálit og firra sig ábyrgð af eigin ákvörðunum. Þar erum við stödd á hættuslóð. Þessa sér nú víða merki, landsstjórnin ekki undanskilin. Krafan um opið samfélag og aðgang að upplýsingum er eðlileg, en henni þurfa að fylgja ábyrgð og gagnsæjar leikreglur.
      Kæri Dagur. Ég vildi með þessum línum greina þér frá áhyggjum mínum út af nýlegu upphlaupi sem tengist sveitarfélaginu okkar. Tilefnið er ekki stórt en í því birtast  sjúkdómseinkenni sem vissara er að bregðast við áður en þau grafa frekar um sig.

Með vinsemd Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim