Hjörleifur Guttormsson 20. júní 2017

Mengun hafsins - Sjórinn tekur ekki lengur við

„Lengi tekur sjórinn við“ er orðtæki sem okkur Íslendingum hefur verið tamt og við höfum lengi notað í samskiptum við hafið umhverfis landið. Svipað hefur því verið háttað með aðrar strandþjóðir. Nú er þessi draumur á enda eins og svo margar blekkingar sem lokuðu sýn manna til umhverfisins, sjávarins og andrúmsloftsins. Það hefur tekið mannsaldur fyrir alþjóðasamfélagið að komast skref fyrir skref að niðurstöðu um ástand og horfur. Eitt er að öðlast skilning og sameinast um mat á aðstæðum, annað að ná saman um lausnir sem eru líklegar til úrbóta. Sameinuðu þjóðirnar, sem oft er gert lítið úr, hafa gegnt lykilhlutverki í að opna augu manna fyrir hvert stefnir í umhverfismálum, fyrst með Stokkhólmsráðstefnunni 1972 og nú síðast á nýafstaðinni ráðstefnu í New York um sjálfbæra nýtingu og verndun heimshafanna. Svipað Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál 2015 var þar verið að leita samstöðu þjóða heims um aðgerðir til bjargar heimshöfunum. Hér má ekki sitja við orðin tóm og ætti Ísland að keppa að því að vera í fararbroddi við að hrinda samþykktum þessa fundar í framkvæmd eins og frekast er unnt.

Súrnun hafsins og  olíumengun

Losun gróðurhúsalofts út í andrúmsloftið veldur ekki aðeins hækkun hitastigs og sjávarborðs vegna bráðnunar jökla, heldur jafnframt súrnun heimshafanna. Ástæðan er sú að sjórinn tekur til sín um þriðjung gróðurhúsloftsins sem veldur efnabreytingum og hækkandi sýrustigi sjávar með alvarlegum afleiðingum fyrir lífverur sem byggja stoðkerfi sín á kalki, svo sem skeljar, kórallar og kalkþörungar. Áhrifin valda keðjuverkun, einnig fyrir fiska, og geta þannig gripið inn í alla lífkeðju hafsins og afrakstur manna af sjávarauðlindum. Hér eru öll heimsins höf og strandsvæði undir.  Samdráttur í losun gróðurhúslofts af mannavöldum er því lífsnauðsyn eins og viðurkennt var með Parísarsamkomulaginu, en sem bandarísk stjórnvöld hóta nú að draga sig út úr. – Notkun jarðefnaeldsneytis, kola og olíu, er það sem mestu veldur um losun gróðurhúslofts með afleiðingum fyrir lofthjúpinn og heimshöfin. Þar við bætast bein óhöpp við vinnslu olíu af sjávarbotni. Ísland jók við losun gróðurhúsalofts um 28%  á tímabilinu 1990-2015. Samkvæmt Parísarsamkomulaginu hyggjast íslensk stjórnvöld ná 40% samdrætti fram til ársins 2030, en það er sýnd veiði en ekki gefin. Þannig gætum við staðið í svipuðum sporum um losun árið 2030 og fyrir fjörutíu árum síðan, sem er allt annað en viðunandi. Olíumengun sjávar er einnig í nokkrum mæli frá landstöðvum, en alvarlegra er að opinberlega stefna íslensk stjórvöld enn að olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Háskaleg plastmengun

Á síðstu árum hefur komið í ljós að mengun af plasti er einn alvarlegasti þátturinn í mengun hafs og sjávarlífvera. Plastnotkun í heiminum er nú talin vera um 300 milljónir tonna ár hvert og hefur árlega vaxið um 4% undanfarið. Plastpokar eru drjúgur hluti af því sem skilar sér í hafið en plastefni eru líka þáttur í fjölmörgum framleiðsluvörum sem berast beint og óbeint til sjávar. Plast brotnar mjög hægt niður í hafinu og eftir sitja örsmáar agnir sem berast inn í fæðukeðjuna með alvarlegum afleiðingum fyrir sjávarlífverur og vistkerfi sjávar. Þaðan berst plastið í sjófugla og önnur dýr sem nærast á fæðu úr hafinu, maðurinn þar ekki undanskilinn.  Risastórar plasthvirfingar mynda nú einskonar eylönd á úthöfunum sem viðbjóðslegur vitnisburður um þessa handhægu en háskalegu afurð neyslusamfélagsins eins og skilmerkilega var rakið nýlega í leiðara Morgunblaðsins (20. maí 2017). Ráðstefnan í New York um hafið hvatti m.a. til markvissra aðgerða gegn einnota plastumbúðum. Athygli vekur að franska þingið setti sl. haust  lögbann á notkun plastpoka í verslunum og boðar frekari löggjöf til að taka á öðrum einnota plastumbúðum ekki síðar en árið 2020. Á Norðurlöndum hefur hreyfing áhugamanna hvatt til svipaðra aðgerða, og hérlendis hafa Landvernd og einstaklingar beitt sér fyrir hreinsunarátaki með ströndum fram, en þar fer mest mest fyrir plastúrgangi.

Ísland geri hreint fyrir sínum dyrum

Sem eyland og fiskveiðiþjóð þarf Ísland að taka föstum tökum allt það sem varðar mengun hafsins innan sinnar víðáttumiklu efnahagslögsögu. Við áttum góðan þátt í því á seinnihluta 20. aldar að knýja fram Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um fiskveiðiréttindi og höfum náð betri árangri en flestir aðrir í að tryggja sjálfbæra nýtingu helstu fiskistofna, þótt deilt sé um skiptingu arðsins. Nú þurfum við að einbeita okkur að mengunarþættinum af miklu meiri þrótti en hingað til. Þar til heyrir að vinna gegn uppskrúfaðri neysluhyggju og sóun sem er einn mesti löstur vestrænna samfélaga.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim