Hjörleifur Guttormsson 21. febrúar 2017

Ígrundaðar skipulagsákvarðanir lykill að farsælli framtíð

Okkur Íslendingum virðist margt betur gefið en að læra af liðinni tíð og taka skynsamlegar ákvarðanir um samskipti við landið og auðlindir þess. Ástæður þessa eru eflaust margþættar, fámenn eyþjóð í stóru landi með víðáttumiklar óbyggðir og náttúruhamfarir sem eru stórfelldari en gerist í grannlöndum okkar. Þetta ýtir eflaust undir þá tilfinningu margra að til lítils sé að taka bindandi ákvarðanir mörg ár fram í tímann og festa þær í landrænu og hagrænu skipulagi. Hugsunarhátturinn „þetta reddast“ hefur verið niðurstaðan hjá mörgum og talinn gefast vel í ólgusjó líðandi stundar. Þekking á landinu,  gögnum þess og gæðum, hefur lengst af verið bágborin og lífsbarátta almennings til skamms tíma hörð og óvægin. Á þessu hefur þó orðið jákvæð breyting síðustu áratugi, undirstöðuþekkingu á náttúru og afleiðingum mannlegra athafna fleytt fram, en vinna að skipulagi og lagabótum ekki fylgt á eftir sem skyldi. Afleiðingarnar minna á sig á daglaga, eins og hér verður vikið að.

Ofnýting og vanhugsaðar framkvæmdir

Ofnýting og stórfelld eyðing jarðvegs og gróðurlendis setti mark sitt á 1100 ára byggð í landinu. Um það leyti sem vetrarbeit búpenings lagðist af um miðja síðustu öld jókst álag á úthaga vegna gífurlegrar fjölgunar sauðfjár og hrossa. Þótt dregið hafi síðan úr fjölda sauðfjár er hrossaeign í landinu áfram langt umfram öll skynsamleg mörk, ofbeit ríkjandi á stórum landsvæðum og jarðvegseyðing enn í gangi, þótt úr henni hafi dregið. Nú er viðurkennt í orði að stórfelld eyðing votlendis með framræslu á ofanverðri 20. öld hafi verið vanhugsuð, en lítið sem ekkert miðar í þá átt að fylla í skurðina. Í mörgum byggðum lokuðust augu manna fyrir hættunni af snjóflóðum, sem tekið höfðu fjölda mannslífa á öldum áður. Þéttbýli var víða þanið út og skipulagsaðilar og stjórnvöld lokuðu augum fyrir hættunni í lengstu lög. Dauðsföll í snjóflóðum í Neskaupstað 1974 dugðu ekki til að opna augu manna í hliðstæðum byggðum fyrir yfirvofandi vá, sem hitti menn fyrir óviðbúna á Vestfjörðum tveimur áratugum síðar. Setja mætti hugmyndir manna og ákvarðanir um stórfella vatnaflutninga í þágu virkjana fyrir stóriðju í svipað samhengi þar sem varúðarsjónarmiðum var kastað fyrir róða.

Ferðaþjónusta  og brýnar aðgerðir

Vöxtur ferðaþjónustu sem atvinnugreinar gleður marga nú um stundir og skilar prósentum í árlegum hagvexti. Viðleitni um 1990 til víðtækrar stefnumörkunar með dreifingu ferðamanna um landið og umhverfisvernd að markmiði var hafnað af skammsýnum öflum innan og utan Alþingis. Allt síðasta kjörtímabil sátu stjórnvöld með hendur í skauti og höfðust ekki að um skipulag og brýna og borðleggjandi tekjuöflun til að búa í haginn fyrir móttöku sívaxandi fjölda erlendra ferðamanna. Fyrir utan viðleitni hér og þar til að auðvelda gestum nauðþurftir og  varna því að þeir fari sér að voða er reiðuleysið himinhrópandi á heildina litið. Lánveitingar til hótelbygginga láta ekki á sér standa á sama tíma og lög og reglur um útleigu íbúðarhúsnæðis í fjölbýli til ferðamanna eru að engu hafðar. Þjóðvegirnir eru lífshættulegir og björgunarsveitir leita villuráfandi manna án trygginga. Þjóðgarðar eru vanvirtir með gróðabralli eins og dæmið frá Silfru á Þingvöllum minnir á. Þessi sigling öll minnir á hrunadansinn fyrir áratug, nema hér er það landið sjálft og náttúra þess sem er þolandinn.  Örtröðin á mörgum vinsælum ferðamannastöðum veldur því að Íslendingar veigra sér orðið við að heimsækja þá og gisting liggur ekki á lausu. Farsæl ferðaþjónusta sem atvinnugrein kallar á langtíma hugsun og skipulag. Á það minnti okkur nýlega frumkvöðullinn Róbert Guðfinnsson á Siglufirði, sem líkti í fróðlegu viðtali núverandi ástandi í ferðaþjónustunni við þá tíð þegar sjávarútvegurinn snerist um það að veiða sem mest (Mbl. 12. febr.).

Vakandi almenningsálit

Ekkert kemur í staðinn fyrir vökul augu almennings og þátttöku þegar kemur að skipulagsákvörðunum. Á það við um náttúruvernd og framkvæmdir á landinu öllu og ekki síður um nærumhverfi í þéttbýli. Mikið vantar á fræðslu og upplýsingar um skipulagsvinnu í aðdraganda ákvarðana og í þeim efnum bera sveitarstjórnir ekki síst ábyrgð. Landfræðileg stækkun sveitarfélaga  í dreifbýli undanfarið dregur líka úr nálægð við kjörna fulltrúa. Gera þarf skipulagsmálum og náttúruvernd annað og meira rúm í námsefni grunnskóla og framhaldsskóla til að efla skilning og áhuga ungs fólks á því sem varðar eigin hag og umhverfi.

Náttúruhamfarir og loftslagsbreytingar

Náttúruhamfarir, svo sem jarðskjálftar, eldgos og jökulhlaup, falla undir atburði sem gera verður ráð fyrir í skipulagi og þar er þéttbýlissvæðið hér við Faxaflóa engan veginn undanskilið. Fyrr en varir getur hafist hrina eldgosa á Reykjanesskaganum með afleiðingum fyrir byggð og samgöngur. Til framtíðar litið koma síðan til langtímabreytingar, ekki síst áhrif hlýnunar loftslags af mannavöldum. Hvað sem líður alþjóðlegum gagnráðstöfunum, er óábyrgt að gera ekki nú þegar við skipulag byggðar og hafnarmannvirkja ráð fyrir verulegri hækkun sjávarborðs hér við land.  



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim