Hjörleifur Guttormsson 21. ágúst 2017

Veggjakrot og borgarstjórn Reykjavíkur
 
Síðsumarið hefur löngum verið talin gúrkutíð hjá innlendum fréttastofum, fólk í sumarleyfum, alþingismenn víðsfjarri og ríkisstjórn landsins í dýpri dvala en þekkst hefur í sögu lýðveldisins. Ef ekki kæmu til tilfallandi kjólasýningar í þingsölum, fregnir af óviðeigandi kynhegðun á útihátíðum og margbreytilegur og sívaxandi ferðamannastraumur væri hægt að loka í Efstaleiti og á fréttastofum dagblaðanna. En þegar neyðin er stærst þá er hjálpin næst. Vökul augu vegfarenda á leið vestur Skúlagötu og Sæbraut fóru að taka eftir því að eitthvað hefði breyst: Búið var að mála yfir stóra mynd á austurgafli Sjávarútvegshússins sem þar hafði blasað við frá haustinu 2015 og þetta gerist án þess að fréttamiðlum hafi verið gert viðvart fyrirfram. Sjálft Fréttablaðið rumskaði loks þrem vikum eftir gjörninginn, en þá varð líka uppi fótur og fit og dregnar fram stórar fyrirsagnir: “Sjómannsins saknað en enginn vill axla ábyrgð á hvarfi hans.” Sjálfur sjávarútvegsráðherrann kom af fjöllum á eigin vinnustað og taldi líklegt að þar væri verið að brjóta höfundarrétt. Og nú hófst leitin að gjörningsmanni þessa voðaverks, en það fór líkt og í sögunni um Gömlu konuna og svínið, sem slapp frá henni yfir girðinguna, að hver vísaði á annan: Ekki ég, ekki ég. En var það ekki skúrkurinn hann Hjörleifur sem kom þessu öllu af stað?

Hlutur borgarstjórnar Reykjavíkur

Upphaf þessa máls verður rakið til haustsins 2015 að forsvarsmenn Icelandic Airwaves óskuðu eftir því við Reykjavíkurborg að fá að  mála myndir á tylft húsa í borginni af tilefni væntanlegs skemmtanahalds. Borgarstjórn brást skjótt við og á fundi hennar var fallist á þessa ósk án nokkurra skilyrða, hvorki tekið fram hversu lengi verk þessi mættu standa né um fyrirvara um grenndarkynningu. Ein þessara mynda var máluð á Sjávarútvegshúsið og tók yfir mestallan gafl þess og setti þannig sterkan svip á umhverfið við hlið Hörpu. Með þessum handahófsgjörningi gekk sveitarstjórnin sameinuð gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2011, sérstaklega grein 44 sem kveður skýlaust á um tilskylda málsmeðferð, en þar segir m.a.:

“Grenndarkynning felst í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum sem taldir eru geta haft hagsmuna að gæta leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan tiltekins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar.”

Byggingafulltrúi borgarinnar greindi mér svo frá að engin skilyrði hefðu fylgt samþykktinni gagnvart Icelandic Airwaves. Hins vegar þurfti samþykki viðkomandi húseininga um að taka við verkunum. Stjórnarformaður húsfélags Sjávarútvegshússins greindi mér frá að í hússtjórn þess hafi verið fallist á að taka við einu verkanna gegn því að það yrði fjarlægt innan árs. Hvergi kom ég að þeirri ákvörðun. Dráttur varð á framkvæmd af veðurfarsástæðum sl. haust að mér var tjáð, en málað var yfir myndina í júlí sl. í samræmi við upphaflegan fyrirvara hússtjórnarinnar.

Stórt mál í víðara samhengi

Mál þetta kann að virðast léttvægt og heldur ómerkilegt, en þegar betur er að gáð sýnir það mikla bresti hjá stjórnendum og stjórnkerfi höfuðstaðarins. Lítilsvirðingin gagnvart almenningi og þeim sem næstir eru vettvangi blasir hér við. Brotin eru lög og samþykktir í þágu skemmtanahalds einkaaðila, Farið er í feluleik um málsatvik til að komast hjá því að horfast í augu við eigin gjörning. Ekki ég, ekki ég ... eru svörin sem fjölmiðlar fá við eftirgrennslan og í þokkabót er sáldrað út tölvupóstum af samskiptum íbúa við stjórnkerfi borgarinnar. Hver er staða stjórnenda Reykjavíkur gagnvart þeim sem ástunda veggjakrot á eignir borgarbúa og staðhæfa margir hverjir að þar sé um listaverk að ræða? Reykjavík er að verða útbíuð af þessháttar skrauti, Umhverfi Reykjavíkur verðskuldar önnur vinnubrögð en þau sem endurspeglast í þessu máli. – Höfuðstaðurinn þarf á jákvæðri samvinnu við íbúana að halda og trúnaði í samskiptum. Sem betur fer er hér ekki allt á verri veginn. Ég hef nokkrum sinnum leyft mér að hafa samband við garðyrkjudeild borgarinnar með ábendingar, sem brugðist hefur verið við jákvætt og eðlilega.

Hlutverk fjölmiðla mikilvægt

Í þessu máli eins og mörgum öðrum sakna ég þess að fjölmiðlar kafi undir yfirborðið og vinni heimavinnuna. Gúrkufréttin um sjómanninn sem hvarf af sjávarútvegshúsinu snýst um annað og meira en einn húsgafl. Hún varðar samskipti borgarstjórnar við umbjóðendur sína og vandaða málsmeðferð ekki síst í skipulagsmálum. Hlutur fréttastofu Ríkisútvarpsins er í þessu samhengi afar sérstakur. Þar á bæ veita menn móttöku tölvupóstum úr borgarkerfinu frá fólki sem er greinilega mikið í mun að beina athygli frá eigin samþykktum og gjörðum og benda þess í stað á sökudólg úti í bæ. Settur er saman hrærigrautur úr þessum feng og birtur á fréttavef RÚV. Mann tekur sárt að sjá “útvarp allra landsmanna” láta misnota sig með þessum hætti. Alvarlegri eru þó þeir brestir sem endurspeglast nú um stundir í stjórnkerfi Reykjavíkur á mörgum sviðum og veggjakrot í kjölfar handauppréttinga í borgarstjórninni er aðeins örlítið dæmi um. Ég var kominn austur á Hérað þegar til mín barst endurómur af rógsherferðinni í Fréttablaðinu og úr höfuðstoðvum borgarstjórnarinnar. Í hugann kom gömul vísa eftir Pál Ólafsson sem bjó um tíma á Nesi í Loðmundarfirði fyrir aldamótin 1900:
                                  
                                   Að launa hvað þú laugst á mig
                                   Loðmfirðingarógur,
                                   hrykki ekki að hýða þig
                                   Hallormsstaðaskógur.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim