Hjörleifur Guttormsson | 26. janúar 2017 |
Vesturlönd á afdrifaríkum krossgötum Við upphaf þessa árs einkennast heimsmálin af óvissu, meiri en fólk í okkar heimshluta hefur verið vitni að um langa hríð. Ástæðurnar eru margþættar og hafa verið að búa um sig í áratugi. Fall Sovétríkjanna og sameining Þýskalands 1990 eru vörður á þeim vegi, en einnig umbreyting og stækkun Evrópusambandsins í kjölfarið, íhlutun hervelda í Mið-Austurlöndum og efnahagskreppa og hrun fyrir áratug, sem enn setur mark sitt á hagþróun. Hnattvæðing efnahags- og fjármálastarfsemi hefur á sama tíma gerbreytt leikreglum í alþjóðaviðskiptum og leitt til gífurlegrar auðsöfnunar fárra. Eignir 8 ríkustu manna heims eru nú metnar til jafns við samanlagðan hlut 3500 milljóna manna, eða um helmings mannkyns. Inn í þetta fléttast örar tæknibreytingar sem gera þorra almennings að þátttakendum í samfélagsumræðu óháð hefðbundnum fjölmiðlum. Valdataka Donalds Trump Við Íslendingar áttum eins og aðrir kost á að fylgjast með aðdraganda bandarísku forsetakosninganna. Þar tókust á ólík öfl og sjónarmið innan stóru flokkanna, Demókrata og Repúblikana. Hjá þeim fyrrnefndu komu átökin milli Hillary Clinton og Bernie Sanders mörgum á óvart, einkum fylgi þess síðarnefnda sem þótti flytja allróttækan boðskap á bandarískan mælikvarða. Framganga Trumps sem hristi af sér keppinautana einn af öðrum þótti með ólíkindum og fáum sigurstrangleg. Niðurstaðan kom þeim mun meira á óvart og ekki síður ræða hans við innsetningu sl. föstudag þar sem í engu var slakað á boðskapnum frá í kosningabaráttunni. Þar ítrekaði hann kjörorð sitt um Bandaríkin í forgang, óháð alþjóðlegum skuldbindingum, hvort sem um er að ræða Alþjóðaviðskiptastofnunina eða NAFTA-samkomulagið við grannríkin svo fátt eitt sé nefnt. Yfirlýsing hans, samhliða vinarhótum við Pútín, um NATÓ sem úrelt bandalag hefur fengið hárin til að rísa á mörgum beggja vegna Atlantshafsins. Alvarlegust að margra mati er þó hótun hans um viðskiptastríð við Kína með háum verndartollum, sem hægja myndi skjótt á heimsviðskiptum og bitna hart á útflutningi landa eins og Þýskalands. Umhverfisógnir og misskipting Trump er í hópi stórs hóps Bandaríkjamanna sem hafna því að hlýnun jarðar undanfarið sé af mannavöldum. Þessu viðhorfi hefur hann þegar fylgt eftir með mannabreytingum hjá Umhverfisstofnun Bandaríkjanna. Það var einmitt samstaða forystumanna Bandaríkjanna og Kína sem leiddi 2014 til þeirrar samstöðu sem skapaðist á Parísarfundinum í desember 2015 um að ríki heims tækju sjálfviljug á sig að að draga úr losun. Þótt óvíst sé hvort afstaða Trumps ein og sér geti kollavarpað Parísarsamkomulaginu er augljós hætta á að minna verði að gert á heildina litið. Svipað er uppi á teningnum varðandi fólksfjölgunina sem ásamt misskiptingu efnislegra gæða er undirrót flóttamannastraums frá þriðja heims ríkjum og þeim vanda sem honum fylgir. Múrinn gagnvart Mexíkó er svar Trumps og gagnrýni hans á Merkel kanslara verður ekki misskilin. Ljóst er að boðaðar aðgerðir nýrra stjórnvalda í Washington munu reyna mjög á Evrópusambandið, þar sem ærnir erfiðleikar eru fyrir og hættan á frekari sundrungu vofir yfir. Ummæli Nóbelsverðlaunahafa Í liðinni viku birtist í þýska vikuritinu Der Spiegel (nr. 3 2017) fróðlegt viðtal við Angus Deaton hagfræðing (f. 1945) og handhafa Nóbelsverðlauna árið 2015. Hann er Skoti sem starfað hefur í Princeton frá 1983. Bók hans um neyslu, vaxandi misskiptingu og velferð kom út á ensku 2013 og ber heitið The Great Escape. Hann boðar ekki efnahagslegan jöfnuð sem allsherjarlausn en varar sterklega við áhrifum þrýstihópa sem raki að sér fé með kverkataki á stjórnvöldum. „Slíkur ójöfnuður jafngildir ráni og gripdeildum.“ Aðspurður um hvaða þrýstihópa hann hafi í huga segir Deaton: „Til dæmis fjármálaiðnaðinn og hluta af heilsuiðnaðinum. Þessir aðilar fá stjórnvöld til að firra sig allri ábyrgð og raka saman fé á almannakostnað. Þennan ójöfnuð verður að afnema með því að taka völdin af þeim sem þannig halda ríkisstjórnum og heilu löndunum í gíslingu.“ Óvissutímar framundan Óvissan sem nú ríkir getur brátt átt eftir að magnast til muna. Stefna ríkisstjórnar Trump mun smám saman skýrast í reynd. Bresk stjórnvöld reyna nú að fóta sig í breyttu umhverfi eftir útgönguna úr ESB. Kosningar í þremur ríkjum Evrópusambandsins, í Hollandi í mars, í Frakklandi að vori og í Þýskalandi næsta haust, geta skipt sköpum um framtíð ESB. Við hér í norðri verðum að halda vöku okkar. Það verður best gert með því að treysta sjálfsforræðið, nýta auðlindir okkar á ábyrgan hátt og fá sem flesta til virkrar þátttöku í lýðræðislegum ákvörðunum. Hjörleifur Guttormsson |