Hjörleifur Guttormsson | 27. nóvember 2017 |
Margir leita nú undankomu frá umhverfismati í smuguna undir 10 megavöttum. Umhverfismál og náttúruvernd voru ekki fyrirferðamikil í stjórnmálaumræðu fyrir nýliðnar kosningar. Af því mætti ætla að álitaefnum á þessu sviði hafi fækkað og síður sé þörf á árvekni á vettvangi stjórnmálanna. Vissulega hefur vaxandi umhverfisvitund dregið úr áróðri fyrir stóriðjuverum sem fyrir um áratug áttu margan vanda að leysa með tilheyrandi risaorkuverum á borð við Kárahnjúkavirkjun. Mengun eins og frá United Silicon í Keflavík veldur tortryggni og eftir er að sjá hvernig reiðir af með hliðstæð iðjuver eins og á jarðskjálftasvæðinu við Bakka hjá Húsavík. Deilurnar um stórvirkjanir á síðasta þriðjungi 20. aldar leiddu til þess að loks var upp tekið matsferli samkvæmt Rammaáætlun sem þrátt fyrir annmarka hefur smám saman bætt vinnubrögð í aðdraganda ákvarðana um virkjanir. Í því ferli voru neðri mörkin hins vegar dregin líkt og í Noregi við virkjanir 10 megavött að afli en undir þeirri stærð skyldu gilda almenn ákvæði um skipulag og náttúruvernd. Fljótlega kom þó í ljós að slíkt ferli tryggði ekki eðlilega aðgát, eins og m.a. gerðist í aðdraganda Fjarðarárvikjunar í Seyðisfirði sem sniðin var að stærðinni 9,8 MW, þ.e. rétt undir mörkum Rammaáætlunar. Síðan hefur á vegum HS Orku og fleiri fyrirtækja verið sótt í hliðstæðan farveg við undirbúning „smávirkjana“, sem augljóslega getur haft víðtæk og slæm áhrif ef til framkvæmda kemur. Hér stefnir í óefni sem brýnt er að Alþingi sem löggjafi taki á áður lengra er haldið. Hugmyndir um „smávirkjanir“ hrannast upp Undanfarið hafa komið fram nokkrar tillögur um virkjanir undir 10 megavöttum sem eru afar umdeildar, jafnt heima fyrir og á landsvísu. Nægir þar að nefna virkjanir í Svartá/Suðurá á vatnasviði Skjálfandafljóts, virkjun í Hverfisfljóti við Hnútu og Brúarvirkjun í Tungufljóti. Þess utan eru á kreiki ýmsar virkjanahugmyndir, m.a. í Hafralónsá í Þistilfirði og á Hraunum eystra. Þá bar það til tíðinda 17. nóvember sl. að meirihluti Byggðaráðs Norðurþings samþykkti erindi frá framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga þess efnis að farið verði í frumúttekt á 50-60 smávirkjanakostum á Eyþingssvæðinu allt að 10 MW að stærð, þ.e. virkjanir sem „þurfa að jafnaði ekki í umhverfismat.“ Niðurstöður eiga að gefa áhugasömum yfirsýn um virkjanakosti á svæðinu. Við afgreiðslu málsins lagði Óli Halldórsson, fulltrúi VG og óháðra í Norðurþingi, fram bókun þar sem skv. fundargerð segir m.a.: „Undanfarið hafa einkafjárfestar verið að sækja á náttúruauðlindir til minni virkjana víða um land, sumar hverjar mjög umdeildar vegna umhverfisáhrifa. Þetta hefur verið bæði á landi í ríkis- og einkaeigu. Það er ekki hlutverk sveitarfélaga að hvetja sérstaklega til virkjunarfjárfestinga af þessu tagi.“ Menn geta rétt ímyndað sér út í hvaða ófæru hér er stefnt þar sem fyrst og fremst verður horft til hugsanlegs fjárhagslegs hagnaðar af framkvæmdum og engin umhverfisleg heildarsýn liggur að baki. Þörf á heildstæðri orkustefnu Undirritaður hefur oftsinnis bent á að hér vanti af hálfu stjórnvalda heildstæða orkustefnu þar sem mótaður sé rammi um hvert stefna skuli í ljósi áætlaðs magns orkuauðlinda á íslensku yfirráðasvæði, alþjóðlegra skuldbindinga, m.a. í loftslagsmálum, svo og verndunar líffræðilegrar fjölbreytni og markmiða um náttúruvernd. Tillögu þar að lútandi lagði ég fram á Alþingi 1997 þar sem horft var fram til ársins 2025 (mál 701 á 122. löggjafarþingi) og þá án viðbótarstóriðju. Heildarframleiðsla raforku hérlendis var þá 5,6 teravattstundir (TWh), en nam á síðasta ári rétt um 16 TWh, þ.e. hafði nær þrefaldast á 20 árum. Munar þar mest um tilkomu álvers Alcoa á Reyðarfirði með 4,7 TWh raforkunotkun. Ljóst er að slík stökk verða ekki endurtekin. Orkuspá fyrir almennan markað gerir nú ráð fyrir rúmlega 10 megavatta viðbót í afli árlega sem svarar til um 50 megavatta virkjun á 5 ára fresti. Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir fyrirtækið nú stefna að betri nýtingu þeirra svæða sem þegar eru í notkun: „Þetta er ekkert aðeins að gerast hér heldur einnig erlendis. Með auknu vægi umhverfismála er það orðið stærra mál að fara inn á áður ónýtt og ósnortin svæði. Því höfum við ákveðið að taka þá stefnu að nýta frekar þau svæði þar sem virkjanir eru þegar fyrir og gera það vel áður en við óskum eftir að fara inn á ný svæði.“ (Mbl. 16. okt. 2017) Þetta er skynsamleg stefna og allt annað en ofangreindar hugmyndir um „smávirkjanir“ út um víðan völl. Verkefni nýrrar ríkisstjórnar Ef fer sem horfir og hér verður mynduð ríkisstjórn þriggja flokka með VG í forsæti verður eitt af verkefnum hennar væntanlega að móta langsæja og sjálfbæra orkustefnu með tilliti til íslenskra aðstæðna og umhverfis. Öryggi í orkuafhendingu til notenda óháð búsetu þarf þar að vera ofarlega á blaði sem og að allar virkjanir, smáar sem stórar, lúti hliðstæðum reglum um kröfur til umhverfisverndar. Hjörleifur Guttormsson |